Myndbönd með Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í aðahlutverki hafa farið víða á netinu um helgina. Nýjasta vendingin varð í gær þegar John Oliver í Last Week Tonight, arftaki Jon Stewart í Daily Show, tók Sigmund Davíð fyrir. Oliver líkti viðtalinu við forsætisráðherra í sænska ríkissjónvarpinu við bílslys í „slow motion“ og bætti við að það væru vissulega bílar á Íslandi, þó að sumir haldi öðru fram.
Breski umræðuþátturinn vinsæli Have I Got News For You gerði sér einnig mat úr viðtalinu við Sigmund. Stjórnendur þáttarins fá til sín gesti þar sem farið er yfir málefni líðandi stundar á léttum nótum.
Sigmundur var líka tekinn fyrir í Ástralíu, í einum vinsælasta fréttatengda grínþætti landsins, The Weekly with Chalie Pickering. Pickering sýndi viðbrögð Sigmundar í áðurnefndu viðtali og sagði áhorfendum að rétt viðbrögð við erfiðum spurningum fjölmiðla væru að „grafa holu sem maður kemst ekki upp úr“ og „stökkva svo ofan í hana.” Að lokum væri eina rétta leiðin að kenna konunni sinni um allt saman.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra varð ekki útundan í gríninu um helgina. Viðtal við fréttamann franska fjölmiðilsins Le Petit Journal hefur farið víða og sýnir Bjarna standa í ágangshörðum spurningaflaumi við fréttamanninn. Fréttamaðurinn spyr Bjarna, þegar hann tilkynnir að hann ætli að sitja áfram sem fjármálaráðherra hvort „það sé svona sem lýðræði virki á Íslandi”. Bjarni spyr þá um hæl hvaðan fréttamaðurinn sé, sem svarar um hæl að hann sé frá Frakklandi. Viðbrögð Bjarna: „Allt í lagi.”
Sænski fréttaskýringaþátturinn Uppdrag Granskning gerði þátt um uppljóstrun á tengslum Sigmundar Davíðs við aflandsfélagið Wintris og aðdraganda viðtalsins sem fréttamaðurinn Sven Bergman og Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður tóku við hann 11. mars. Hér má sjá óklippta útgáfu af því viðtali og hér má nálgast Uppdrag Granskning-þáttinn um málið sem sýndur var á RÚV í síðustu viku.