Alþingiskosningum verður flýtt til haustsins. Búist er við því að ríkisstjórnin komi fram með ákveðna dagsetningu á næstunni. Forysta stjórnarandstöðunnar átti fund með Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra í morgun þar sem hann ítrekaði áform stjórnarflokkanna um að flýta kosningum.
Það verður þó meira en að segja það fyrir flokkana að demba sér í kosningar eftir hálft ár. Framundan eru stór og erfið mál á Alþingi, sögulegar forsetakosningar og fleiri birtingar úr Panamaskjölunum, og allt getur þetta haft áhrif á athygli stjórnmálaflokkanna.
En hvar eru flokkarnir staddir fyrir komandi kosningar?
Sjálfstæðisflokkur - 26,7% fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi
Tilbúin í kosningar
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman um helgina þar sem vendingar síðustu daga voru ræddar. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, fullyrðir að kosið verði í haust. Hún segir miðstjórnina taka ákvörðun hvort flýta skuli landsfundi í ljósi þess, en sá síðasti var haldinn síðastliðið haust. Þá hafa flokksráðsfundir og fundir formanna sjálfstæðisfélaganna einnig verið boðaðir.
„Við höfum alltaf sagt að við erum reiðubúin í kosningar. Við erum tilbúin til að leggja þau verk sem við höfum unnið að í ríkisstjórn á borðið fyrir kjósendur og þau verk sem við viljum vinna í náinni framtíð,” segir Ragnheiður. Vinnan sé í fullum gangi.
„Það hefur verið verklag innan flokksins árum saman að þegar ár er í kosningar erum við byrjuð að skipuleggja hvernig við ætlum að leggja í þá vinnu,” segir hún. „Það skiptir ekki höfuðmáli hvort kosið verði níu mánuðum fyrr. Við erum tilbúin í kosningar í haust.”
Framsóknarflokkur - 6,9% fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi
Ef kosningum verður flýtt taka stofnanir flokksins við
„Ef kjördagur verður annar en ráðgert var í apríl 2017, taka stofnanir flokksins við. Ég hef engar áhyggjur af öðru en að Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn í kosningar, hvort sem þær verða í haust eða á næsta ári,” segir Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Spurður hvort hann sé óviss um að kosið verði til Alþingis í haust svarar hann:
„Það liggur ljóst fyrir að við erum að fara að ræða ákveðin mál sem þarf að klára á Alþingi. Þegar það liggur fyrir með hvaða hraða er hægt að afgreiða þau, er hægt að negla niður kjördag. Það er ljóst að ríkisstjórnin vill halda samstarfinu áfram til að klára þessi mál og það er sú vinna sem liggur fyrir og eftir það er hægt að samræma þau sjónarmið með því að flýta kosningum. Það á að vera hægt að samræma þetta.”
Ásmundur segir Framsóknarflokkinn fyrst og fremst ætla að einbeita sér að því að klára þau mál sem liggja fyrir í þinginu. Það sé númer eitt, tvö og þrjú. Skipulag og annað tengt kosningunum verði í höndum Landstjórnar, sem fundar í þessari viku eða næstu. Landstjórn skipuleggur síðan miðstjórnarfund og ákveður hvenær flokksþing verður haldið. Eftir á að koma í ljós hvort stofnanir Framsóknarflokksins munu halda prófkjör eða stilla upp á lista.
Samfylking - 9% fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi
Formaðurinn vill persónukjör
Samfylkingin kýs sér nýja forystu í byrjun júní. Í febrúar var ákveðið að flýta landsfundi og formannskjöri til að forystan hefði góðan tíma og fullgilt umboð fyrir komandi kosningar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir þetta líka hafa kosti í för með sér.
„Þetta er ekki kjörstaða, en gerir það að verkum að formaður flokksins, hver sem hann verður, kemur með traust og öruggt umboð inn í kosningar,” segir hann. Flokkurinn sé á margan hátt á góðum stað til að fara í kosningar í haust.
„Ég vil viðra það við aðra flokka hvort lagafrumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um persónukjör verði sett fram með nýstárlegri hætti en áður. Ég væri til í að sjá að þeir flokkar, sem vilja nýta sér persónukjör, gætu gert það,” segir hann.
Vinstri græn - 19,8% fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi
Allri vinnu flýtt
Stjórn flokksins og þingflokksins fór yfir stöðuna sem upp er komin á fundi í gær. Katrín Jakobsdóttir formaður segir að næstu skref séu stefnuvinna og mótun kosningaárherslna.
„Það þarf augljóslega að flýta þeirri vinnu,” segir Katrín. „Siðan er það í höndum kjördæmisraða hvernig er valið á lista, hvort það verði forval, uppstilling eða hvað. Kjördæmin fá nú tilmæli til að undirbúa sig undir það að kosningar verði í haust og þau þurfa að fara að flýta þeirri vinnu.”
Björt framtíð - 5% fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi
Skerpt á grunnprinsippum
Björt framtíð ætlar sér að bjóða fram í næstu kosningum. Óttarr Proppé segir skýrar reglur um hvernig raðað er á lista.
„Það er ljóst á umræðum í flokknum og baklandinu að sterk trú á okkar málefnastöðu og hlutverk okkar eigi erindi í íslenska pólitík, þannig að við látum ekki deigan síga,” segir Óttarr. „Grunnprinsippin eru skýr og þau hafa ekki breyst, nema það hefur verið skerpt á þeim. Atburðarrásin núna hefur sýnt fram á hvað þau skipta miklu máli.”
Óttarr segir að fyrsta skrefið sé að fá á hreint hvenær verði kosið. Ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að skipta út formanni fyrir næstu kosningar, en formaður er kosinn á ársfundi. Óttarr tók við sætinu af Guðmundi Steingrímssyni síðastliðið haust.
Píratar - 29,3% fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi
Ekki vandamál að manna lista
Prófkjör Pírata verða haldin á næstunni. Erna Ýr Öldudóttir, formaður framkvæmdaráðs Pírata, segir aðildarfélög flokksins tilbúin með fólk í þau prófkjör.
„Fyrst þarf að halda aðalfund og svo eru forsetakosningar þannig að það er mikið að gerast,” segir Erna Ýr. „Ég held að það verði ekki gott að halda prófkjör á sama tíma og það havarí er í gangi, en það eru ýmsir komnir fram og svo verður auglýst eftir fleira fólki.” Erna Ýr segir að á næstunni munu sennilega fleiri stíga fram og vilja taka þátt í starfi Pírata.
„Ég held að þetta verði ekki vandamál,” segir hún. Píratar eru komnir með tíu aðildarfélög víðsvegar um landið og að sögn Ernu eru tvö í farvatninu til viðbótar. Það verða engin sæti í prófkjörinu, en fólki er frjálst að lækka sig um sæti eftir að niðurstöður eru kunngerðar.
Viðreisn - 2,7% í nýjasta Þjóðarpúlsi
Nýr veruleiki eftir Kastljósþáttinn
Viðreisn ætlar að bjóða fram sem nýr flokkur í næstu Alþingiskosningum og er nú í fyrsta sinn að mælast í skoðanakönnunum. Benedikt Jóhannesson, talsmaður Viðreisnar, segir stöðuna hafa gjörbreyst á einni nóttu.
„Við bjuggum okkur undir kosningar næsta vor og fórum því rólega, en ákveðið, af stað,” segir Benedikt. Verið sé að stofna nefndir og nú vinna sex málefnahópar skipulagt að stefnunni í nýju húsnæði flokksins. „Við höfum hisst nær daglega síðan á mánudeginum eftir Kastljósþáttinn.“
Viðreisn verður formlega stofnuð sem stjórnmálaflokkur í byrjun sumars. Tímaramminn fyrir mönnun á lista flokksins hefur þó verið skertur niður í fimm mánuði úr tólf.
„Þetta er alveg nýr veruleiki,” segir Benedikt. „Við erum strax byrjuð að undirbúa fundi um allt land og erum að fara á fullt. Svo er bara það sem skiptir öllu máli fyrir kjósendur: Að þetta sé flokkur með góða stefnu og góðu fólki sem fylgir henni eftir á Alþingi. Ég er fullviss um að við náum því. Við fáum sterka kandídata, lítið þekkt fólk og reyndara fólk, karla og konur. Það eru spennandi tímar framundan.”
Flokkurinn hefur ekki verið stofnaður formlega, hann verður stofnaður í seinni hluta maí, byrjun júní. Það verður ekki flókið hírarkí í því. Við sjáum það á öðrum flokkum að það má ekki vera of mikið los.
*Fréttin var uppfærð 14. apríl með tilliti til nýrrar skoðanakönnunar Gallup sem birt var á RÚV að kvöldi 13. apríl.