Eftir erfiðleika sem blöstu við mörgum eftir hrun fjármálakerfisins og krónunnar, haustið 2008, þá er heimilsbókhald fjölskyldna í landinu, sé litið yfir meðaltalstölur, farið að líta mun betur út. Eignastaða heimila hefur batnað verulega, og skuldir hafa dregist saman, sem hlutfall af landsframleiðslu.
Fjáreignir aukast mikið
Hreinar fjáreignir heimila jukust um sautján prósent milli ára og námu ríflega 2.600 milljörðum króna í árslok 2014 samkvæmt nýuppfærðum tölum Hagstofu Íslands. Það jafngildir 131,7 prósent af vergri landsframleiðslu. Aukning upp á sautján prósent milli ára telst vera mikið í sögulegu samhengi.
Skuldir um 1.900 milljarðar
Fjáreignir heimila námu tæplega 4.600 milljörðum í árslok 2014, en stærstur hluti þeirra, eða 76 prósent, eru lífeyrisréttindi. Virði hlutabréfa í eigu heimila jókst um tæplega fjórðung á milli áranna 2013 og 2014 og nam tæpum 64 milljörðum króna í árslok 2014. Skuldir heimila voru Rúmlega 1.900 milljarðar. Jákvæður mismunur fjáreigna og skuldbindinga nemur því um 700 milljörðum, sé mið tekið af stöðu mála í lok árs 2014.
Fasteignir stór hluti eigna
Áþreifanlegustu og sýnilegustu eignir hvers heimilis eru fasteign og ökutæki. Þær eignir eru ekki taldar til fjáreigna, samkvæmt greiningu Hagstofu Íslands. „Séu fasteignir og ökutæki heimilanna skoðaðar í samanburði við fjáreignir kemur í ljós að fasteignin er álíka stór og lífeyrisréttindin og ökutækjaeignin að jafnaði minni en eign í verðbréfum og hlutabréfum,“ segir í Hagsjá Landsbankans, þar sem kafað er ofan í fjárhagsstöðu heimilanna.
Góð ávöxtun lífeyrissjóða
Bæði fasteignir og lífeyriseign heimila minnkuðu töluvert í hruninu, fasteignirnar mun meira, enda lækkaði raunverð fasteigna, sé horft sérstaklega á höfuðborgarsvæðið, mikið í verðbólguskotinu sem fylgdi gengisfalli krónunnar. Báðir eignaflokkar hafa stækkað verulega frá árinu 2010 og á það sérstaklega við um lífeyrisréttindi heimilanna. Fasteignin var stærsta eign heimilanna allt fram til ársins 2010 en síðan þá hefur lífeyriseignin verið stærsta eign íslenskra heimila. Fasteignaverð hefur farið hækkandi að undanförnu, og nemur hækkunin um 30 prósentum frá hruni. Spár gera ráð fyrir að fasteignaverð muni hækka um 25 prósent fram til ársins 2018, en eins og alltaf þegar slíkar spár eru settar fram, þá eru margvíslegar óvissuforsendur. Til dæmis hvernig verðlag mun þróast, en um þessar mundir er verðbólga um 1,5 prósent, einu prósentustigi lægra en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.
Það má meðal annars rekja
til góðrar ávöxtunar lífeyrissjóða landsmanna á undanförnum árum, en í fyrra er
áætluð raunávöxtun um 8,1 prósent. Sé horft yfir árabilið frá 2011 til og með
2015, þá hefur meðaltalsraunávöxtun verið á bilinu 6,5 til 7 prósent á ári. Í
sögulegu tilliti er það há ávöxtun, en höggið sem kom á lífeyrissjóðina í
hruninu 2008 nam um 22 prósentum