Annasamir tímar eru framundan á Alþingi. Samkvæmt starfsáætlun þingsins eru nú einungis 18 þingfundadagar eftir af yfirstandandi löggjafarþingi, auk eldhúsdagsins, og fjöldi mála eftir að leggja fram og afgreiða.
Fjöldi frumvarpa í tveimur málum
Ríkisstjórnin fundaði lengi í gærmorgun um stöðu mála, en málalistinn fyrir núverandi þing er enn ekki tilbúinn. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er ljóst að einhver vinna er eftir til að ná að negla niður forgangsröðunina. Nokkur af þeim stóru málum sem liggja á borði ríkisstjórnarinnar, eins og afnám hafta og húsnæðisfrumvörpin, eru afar umfangsmikil og innihalda hvert um sig mörg frumvörp sem bíða afgreiðslu.
Forsætisráðherra hefur staðfest að kosið verði til Alþingis í haust, en endanleg dagsetning er ekki komin. Það sama hafa forystumenn Sjálfstæðisflokksins gert. Afar erfitt verður fyrir ríkisstjórnina að efna ekki það loforð, að mati Evu Heiðu Önnudóttur, stjórnmálafræðings við Háskóla Íslands.
„Þeir eru búnir að segja svo oft að það verði kosningar í haust. Við höfum engar forsendur til að ætla að það hafi verið meint á nokkurn annan hátt,” segir hún. „Þetta er mál sem verður mjög erfitt að bakka út úr. En það er núna bara spurning um nákvæmlega hvenær, hvort þær verða í september, október eða jafnvel nóvember.”
Bjarni vildi stytta um eitt löggjafarþing
Bjarni Benediktsson sagði á blaðamannafundi á Alþingi í síðustu viku, þegar ný ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar var tilkynnt, að ákveðið hafi verið að virkja lýðræðið og koma til móts við stöðuna sem hefur myndast. „Við hyggjumst stefna að því að stytta kjörtímabilið um eitt löggjafarþing og halda kosningar í haust. Nákvæm dagsetning veldur á framvindu þingmála,” sagði Bjarni.
Samkvæmt stjórnarskránni er samkomudagur Alþingis „hinn fyrsta dag októbermánaðar eða næsta virkan dag ef helgidagur er.” Samkomudegi reglulegs Alþingis má hins vegar breyta með lögum og það var gert með lögum um þingsköp, en samkvæmt þeim er samkomudagur Alþingis annar þriðjudagur í september. Ef kjörímabilið verður stytt um eitt löggjafarþing, eins og Bjarni sagði, þýðir það að í síðasta lagi ætti að rjúfa þing mánudaginn 11. september 2016. Þá yrði að kjósa í síðasta lagi 45 dögum síðar.
Sumarþing ekki ólíklegt
Eva Heiða segir að varlega verði þó að fara í að túlka orð Bjarna svo bókstaflega. Hennar skilningur sé sá að það sé hægt að rjúfa þing í raun hvenær sem er. Og þó að sagt hafi verið að kjörtímabilið beri að stytta um eitt löggjafarþing, gæti það verið ögn teygjanlegra en þessar niðurnegldu dagsetningar.
Miðað við þann málafjölda sem á eftir að afgreiða á Alþingi má vel gera ráð fyrir að þinginu verði framhaldið inn í sumarið - eða taki jafnvel upp þráðinn aftur í júlí eftir frí á meðan EM í fótbolta og forsetakosningar, með sögulegum fjölda frambjóðenda, ganga yfir. Svo kemur haustið.