Sveitarfélög í landinu hafa mörg hver upplifað ójafnvægi í grunnrekstri sínum, eftir að samið var um miklar launahækkanir á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, en Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir margt benda til þess að tekjustofnar sveitarfélaganna muni ráða við þessar hækkanir. „Launahækkanirnar voru vissulega miklar, og það var ójafnvægi í rekstri margra sveitarfélaga, meðal annars vegna mikilllar hækkunar á launakostnaði, í fyrra. En til lengdar litið, og það er farið að sjást nú þegar, að þá skila launhækkanirnar sér í auknum útsvarstekjum. Það sem gerir stöðuna erfiða hjá mörgum sveitarfélögum, sem upplifðu mikla þenslu fyrir hrunið sérstaklega, er að það er ekki ennþá búið að leysa úr mörgum málum sem tengjast þessum tíma,“ segir Halldór.
Tekur langan tíma
Þrátt fyrir að nú séu sjö og hálft ár liðið frá hruni fjármálakerfisins og setningu fjármagnshafta, eftir mikið gengisfall krónunnar, þá er ennþá langt í að mörg sveitarfélög séu búin að leysa úr öllum vandamálum sínum. „Það tekur tíma að leysa úr ýmsu sem tengist þessum tíma, en það hefur náðst mikill árangur. Mörg sveitarfélög geta líka rýnt betur í reksturinn og hagrætt, án þess að draga úr þjónustunni, og er Reykjavíkurborg dæmi um það,“ segir Halldór.
Eitt þeirra sveitarfélaga sem glímir enn við mikinn skuldavanda er Reykjanesbær, en eins og greint var frá á vef Kjarnans í gær, þá samþykkti hluti kröfuhafa bæjarins ekki 6,4 milljarða króna skuldaniðurfellingu, og er því óvíst hvernig leyst verður úr stöðu bæjarins. Fjárhaldsstjórn átti þó að skipa fyrir daginn í dag, samkvæmt ákvörðun bæjarráðs Reykjanesbæjar frá því í síðustu viku.
Reikna má með því að mörg önnur sveitarfélög, sem glíma við þungan rekstur, fylgist grannt með gangi mála hjá Reykjanesbæ, enda getur endurskipulagningin á fjárhag sveitarfélagsins sett fordæmi fyrir önnur sveitarfélög.
Sterkari tekjustofnar
Horft yfir heildina í rekstri sveitarfélagastigsins þá staðan ekki talin svo slæm. Sé mið tekið af umfjöllun Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir árið 2016, þá virðist staða mála smátt og smátt styrkjast á þessu ári. Sé horft yfir árin 2016 til og með 2019 þá er gert ráð fyrir að staða efnahagsmála muni batna almennt í landinu, og tekjur vaxa með hagvexti, umfram kostnað, þrátt fyrir að laun grunn- og leikskólakennara, sem eru stærsti kostnaðarliður í grunnrekstri sveitarfélaga, muni hækka um 20 prósent á tímabilinu. „Í heildina tekið þá er útlitið heldur gott í heildina tekið hjá sveitarsjóðum á árunum 2016-2019 miðað við niðurstöður úr fjárhagsáætlunum til fjögurra ára. Rekstrarafgangur fer vaxandi, veltufé frá rekstri vex, lántaka minnkar og veltufjárhlutfall og skuldahlutfall styrkist. Fjárfestingum í varanlegum rekstrarfjármunum lækka heldur undir lok tímabilsins. Vitaskuld eykst óvissan um endanlega útkomu eftir því sem lengra líður á áætlunartímabilið,“ segir í fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Niðurstaða fjárhagsáætlana fyrir samstæðu sveitarfélaga fyrir árin 2016-2019 er sú, að því er segir í fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga, að sveitarfélögin hafa í heildina tekið góð tök á fjármálum A-hluta sveitarsjóða, það er grunnrekstrinum, og B-hluta fyrirtækja, sem eru dótturfélög eins og veitufyrirtæki og hafnarrekstrarfélög. Þróunin virðist stefna í rétta átt þrátt fyrir að um einhver frávik geti verið að ræða milli ára.
Mikil hækkun launakostnaðar hefur reynst sveitarfélögum erfið og mörg hafa brugðist við með hagræðingu og niðurskurði í útgjöldum. Það á jafnt við um þau minni og þau stærri.
Samræmd hagstjórn
Eitt af því sem mun einnig áhrif á framvindu mála hjá hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögum, eru lögbundnar kvaðir sem fylgja lögum um fjármál hins opinbera. Þeim er ætlað að samræma hagstjórna hjá hinu opinbera í heild, skýra stefnumörkun og styrkja áætlunagerð. Einu sinni á ári er lögð fyrir áætlun þar sem línurnar eru lagðar fyrir næstu fimm árin. Sveitarfélög þurfa að marka sér stefnu í samræmi þá stefnu sem lögð er fram árlega, og má reikna með að þetta hafi meiri áhrif á fjármál sveitarfélaga eftir því sem tíminn líður.