Stundum er sagt að ekkert mál sé svo lítilfjörlegt að löggjafarvaldið geti ekki séð ástæðu til að setja um það lög og framkvæmdavaldið fylgt framkvæmdinni eftir og dregið fyrir rétt þá sem ekki fylgja lögunum. Dæmi um slíkt smámál, að flestra mati, er frumvarp sem danski menningarmálaráðherrann hefur lagt fram á danska þinginu, Folketinget. Frumvarpið fjallar um tiltekið tákn, nánar tiltekið kórónu. Svonefnda lokaða kórónu. „Kórónumálið“ eins og það er kallað komst í fréttirnar í fyrra og var um það fjallað í fjölmiðlum víða um lönd, meðal annars hér í Kjarnanum. Flestum finnst kannski ótrúlegt að ráðherra í ríkisstjórn Danmerkur skuli leggja fram frumvarp um slíkt smotterí. En, þeim sem eiga hagsmuna að gæta varðandi þetta frumvarp finnst það hreint ekkert smotterí heldur stórmál sem varði bæði heiður og sögulega hefð.
600 ára gömul lög
Frá þrettándu öld og fram á þá fimmtándu fengu allmargar danskar krár sérstakt leyfi konungs til að baka brauð, brugga öl og eima áfengi. Krárnar sem fengu hið konunglega leyfi (einsog það hét) stóðu flestar við helstu vegi landsins og átti með leyfisveitingunni að tryggja að ferðalangar gætu fengið mat og gistingu. Þeir sem fengu konunglega leyfið auglýstu með því að nota kórónueftirlíkingar sem hengdar voru upp utandyra ásamt nafni staðarins. Kórónuna notuðu líka margir til að skreyta matseðla, servíettur, hnífapör, diska og glös. Kórónan var einskonar gæðastimpill. Þetta var löngu áður en franski hjólbarðaframleiðandinn Michelin var orðinn eins konar heimsyfirdómari á sviði matargerðarlistar og dagblöðin með sínar stjörnugjafir ekki orðin til.
Þó líði ár og öld
Þótt enginn tengi þetta textabrot úr þekktu dægurlagi við lagasetningur og stjórnsýslu eiga orðin vel við kórónulögin, sem þrátt fyrir nafnið giltu um veitingasölu Þau voru nefnilega í gildi í um það bil 600 ár, til ársins 1912. Það ár voru sett lög sem bönnuðu alla notkun „kongekronen“, án sérstaks leyfis og þeim sem notuðu kórónurnar bæri að fjarlægja þær að viðlagðri refsingu. Þessi lagasetning breytti engu, kórónurnar héngu eftir sem áður við krár þær sem áður höfðu leyfið og enginn amaðist við þessum aldagamla skrauti. En allt tekur enda.
Eigendur kóngakráa fá bréf
Árið 2012 kom nýr deildarstjóri til starfa á danska Ríkisskjalasafninu. Meðal þess sem hann rak augun í á nýja vinnustaðnum voru lögin um kórónubannið. Deildarstjórann minnti að hann hefði einhversstaðar á ferðum sínum um Danaveldi séð slíka kórónu hanga yfir dyrum. Þegar hann kannaði málið kom í ljós að ekki hafði verið gerð minnsta tilraun til að framfylgja kórónubannslögunum þótt þau hefðu verið í gildi í heila öld. „Þetta gengur ekki“ hugsaði deildarstjórinn og ákvað að ráðast gegn þessum lögbrotum sem staðið höfðu í heila öld án þess að nokkur lyfti svo mikið sem litlafingri. Hann sendi eigendum kórónukránna bréf undir árslok 2013 og fyrirskipaði að kórónurnar skyldu þegar í stað fjarlægðar.
Kráareigendur klóruðu sér í kollinum og ákváðu svo að sjá til. En deildarstjórinn ætlaði ekki að sjá til, hann sendi annað og harðorðara bréf þar sem krafist var svara um hvenær viðkomandi hygðist fjarlægja kórónur sem honum tilheyrðu. Ríkisskjalasafnið myndi grípa til aðgerða ef skipunum yrði ekki framfylgt. Benti líka á að formlega hefði kórónunotkunin aldrei verið leyfð en nota mætti svokallaða opna kórónu í stað hinnar hefðbundnu lokuðu. Nokkrir kráareigendur fengu í framhaldi heimsókn lögreglumanna sem sögðust vera að kanna hvort fyrirmælum Ríkisskjalasafnsins hefði verið fylgt. Ekki kom til handalögmála en kráareigendur spurðu hvort Ríkisskjalasafnið væri orðin yfirstjórn lögreglunnar. Kórónurnar héngu svo áfram á sínum stað, einn kráareigandi fjarlægði þó kórónu sem hékk yfir útidyrunum.
Kráareigendur þráast við
Margir kráareigendur sögðu í viðtölum að þeim hefði brugðið nokkuð við hótunarbréfið og heimsóknir lögreglunnar. Þeir ætluðu þó ekki að ana að neinu og það hefði tekið Ríkisskjalasafnið heila öld að koma þessum skipunum um kórónurnar til viðtakenda. „Það er ákveðið viðmið um viðbragðshraða“ sagði einn þeirra.
Þingmenn ekki upprifnir
Þegar „kórónumálið“ komst í fjölmiðla fyrir rúmu ári voru þingmenn meðal þeirra sem ekki voru upprifnir yfir vinnusemi deildarstjórans. „Er Ríkisskjalasafnið orðið einhverskonar lögregla sem getur hótað sektum og hver veit hvað“ sagði þingmaður í blaðaviðtali. Annar benti á að þessar gömlu krár væru allar friðaðar og það bryti í bága við lög að breyta þar nokkru, utandyra eða innan. Nokkrir þingmenn gerðu stólpagrín að deildarstjóranum og yfirmönnum hans. „Þessir starfsmenn ættu kannski að einbeita sér að því að varðveita þau skjöl sem þeim er trúað fyrir en ekki láta stela þeim úr safninu“ (fyrir nokkru kom í ljós að hundruð verðmætra skjala hafa horfið úr safninu). Málið hefur líka verið rætt í þinginu og fram kom þingsályktunartillaga sem ekki var þó afgreidd.
Ráðherra leggur fram frumvarp
Bertel Haarder var meðal þeirra sem lýsti undrun sinni á framgöngu deildarstjórans samviskusama og bréfaskrifum hans. Nú er Bertel Haarder orðinn menningarmálaráðherra og hann lagði fyrir nokkrum dögum fram frumvarp sem heimilar þeim sem þegar nota kórónurnar, og hafa gert um langa tíð, að nota þær áfram á sama hátt og verið hefur um aldir. „þetta flokkast undir skynsemi“ sagði ráðherrann.
Yfirstjórn Ríkisskjalasafnsins hefur ekki viljað tjá sig um frumvarpið en deildarstjórinn röggsami er nú orðinn fyrrverandi deildarstjóri.