Myndband með Steven Anderson, presti og stofnanda kristins sértrúarsafnaðar í Arizonaríki í Bandaríkjunum, hefur verið dreift víða á samfélagsmiðlum í dag. Séra Anderson talar þar við söfnuð sinn um bastarðalandið Ísland þar sem hlutfall ógiftra mæðra er hátt og notkun þunglyndislyfja sé hvergi meiri í heiminum. Anderson er mikið niðri fyrir í myndbandinu og verður afar reiður, hækkar róminn og ber í pontuna þegar hann talar um Ísland: „femínistahelvíti” þar sem ógiftar mæður leika lausum hala.
Sagði pistlahöfund Kjarnans poppa þunglyndislyf
Anderson nefnir þar sérstaklega Bryndísi Evu Ásmundsdóttur á nafn og gerir viðtal við hana að umtalsefni um samsetningu fjölskyldu hennar. Í ljósi þess að hún ætti börn með tveimur mönnum hlyti hún að hafa lokið viðtalinu með því að „poppa eina töflu." Bryndís skrifaði pistil í Kjarnann í september síðastliðnum sem fjallaði um sama efni og bar heitið „Okkar”. Bryndís sagði þar: „Ég á samsetta fjölskyldu. Í því felst að ekki eru blóðtengsl milli allra fjölskyldumeðlima. Hér eru mín og þarna eru þín og úr verður eitthvað okkar. Ekki svo ýkja óalgengt fyrirkomulag á Íslandi, enda hrökkva fáir við og fyllast skelfingu þegar ég útskýri fjölskylduna mína.”
Hún var einnig til viðtals í þættinum „The Wonder List" á CNN í janúar þar sem umfjöllunarefnið var heimsmet Íslendinga í fæðingum barna utan hjónabands. Þar ræddi hún ásamt Sigurði Eggertssyni, sambýlismanni sínum, um barneignir og hjónabönd, en þau áttu bæði börn með öðru fólki þegar þau kynntust. Í þættinum sagði hún m.a.: „Það er mjög algengt á Íslandi að konur eignist börn á þess að vera í hjónabandi. Hér er fólk oft í sambandi í langan tíma áður en það eignast barn. Fólk gengur oft í hjónaband eftir að það eignast barn[...]Ég held að það sé vegna þess að við búum í svo litlu og öruggu samfélagi. Hér hafa konur mikið frelsi og geta gert allt sem þeim langar til að gera".
Án efa var það umfjöllun CNN sem vakti athygli Anderson á Íslandi og Bryndísi.
Vildi taka samkynhneigða af lífi
Anderson stofnaði sértrúarsöfnuðinn Faithful Word Baptist Church í lok árs 2005. Hann er ekki menntaður en á heimasíðu hans segir að „hann hafi ferðast í þrjá mánuði um Þýskaland og Austur-Evrópu þegar hann var 18 ára og lærði þar erlend tungumál.” Hann kynntist þar eiginkonu sinni og hefur á 15 árum eignast með henni átta börn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Anderson ratar í fréttirnar en árið 2014 birtist blogg á síðu Huffington Post, sem tileinkað er LGBT samfélaginu, undir fyrirsögninni: „Má ég kynna prestinn sem sagðist vona að ég fengi krabbamein og dæi.” Höfundur lýsir þar reynslu sinni af honum í kjölfar þess að hann sagðist vilja láta taka samkynhneigt fólk af lífi til að ráða niðurlögum eyðnisjúkdómsins. Í pistlinum er farið yfir hin ýmsu ummæli Anderson, meðal annars þegar hann hélt ræðu undir yfirskriftinni „Ástæða þess að ég hata Barrack Obama” sem sneri að því að hann bað til Guðs um að forsetinn myndi láta lífið.
Klippta, þriggja mínútu útgáfu af myndbandinu má nálgast hjá Nútímanum. Hér fyrir neðan má sjá predikun Anderson í heild sinni.