„Hækkun lífeyristökualdurs hentar sumum en öðrum ekki,“ segir Stefán Ólafsson, prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Hann segir að kostir hækkunar séu þeir að hún bæti afkomu lífeyrissjóðanna, auki nýtingu vinnuafls og lengi starfsferil. Gallarnir séu aftur á móti þeir að það rýri lífskjör þeirra sem eiga erfitt með vinnu og vilja hætta. Hann mælir með sveigjanlegri starfslokum, að hafa rétt til lífeyristöku óbreyttan en auka hvata til að seinka töku lífeyris. Hann myndi vilja rýmka rétt til sveigjanlegrar lífeyristöku, meðal annars með því að hætta skerðingu vegna atvinnutekna 67 ára og eldri.
Meðalævi íslenskra karla og kvenna hefur lengst töluvert á síðustu áratugum. Þessi breyting hefur mikil áhrif á samfélagið og eru vangaveltur um hvernig leysa skuli þær áskoranir sem fylgja í kjölfarið fyrir lífeyris- og velferðarkerfið en einnig fyrir atvinnulífið. Víða er horft til þess að hækka almennan eftirlaunaaldur en slík breyting dugar þó ekki ein og sér.
Aðila vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna héldu málþing með yfirskriftinni „Áskoranir fyrir vinnumarkaðinn vegna hækkandi lífaldurs.“ Þar tóku til máls ýmsir aðilar sem láta sig málið varða og voru allir sammála um að það þyrfti samstillt átak til að leysa þessi vandamál og að allir aðilar bæru ábyrgð.
Íslendingar hefja töku lífeyris seinna en aðrar þjóðir
Í máli Stefáns kom fram að Íslendingar taki út lífeyri seinna en opinberlega er gert ráð fyrir miðað við aðrar þjóðir. Einnig kemur fram í könnunum að virkni einstaklinga í launaðri vinnu á aldrinum 60-64 og 65-69 ára sé mjög mikil miðað við aðrar þjóðir. Virknin minnkar aftur á móti hjá 70-74 ára.
Stefán segir að ekkert lát sé á vinnuþátttöku eldri borgara og að minna álag sé á íslenskt lífeyriskerfi. Nokkrar ástæður séu fyrir þessu. Í fyrsta lagi hafa Íslendingar almennt enga leið til að fara fyrr á eftirlaun. Í öðru lagi hvetur kefið til seinkunnar lífeyristöku og þörf er fyrir meiri tekjur. Einnig hefur vinnumarkaðurinn áhrif því boðið er upp á mörg atvinnutækifæri og í samfélaginu sé jákvætt viðhorf til vinnu.
Kennitala ætti ekki að skipta máli í ráðningarferli
Jakobína H. Árnadóttir, hópstjóri ráðninga Capacent, tók einnig til máls. Hún segir að mörg ný störf séu í boði um þessar mundir og þörf sé á fólki úti á vinnumarkaðinum. Hún tekur það fram að frammistaða sé óháð aldri. Að þegar ráða eigi fólk í vinnu sé verið að finna hóp sem stendur sig best í starfi óháð aldri. Aldur ætti ekki að skipta máli þannig að samkvæmt fræðunum skipti kennitala ekki máli í ráðningarferlinu.
En hvernig er þessu farið í rauninni? Skiptir kennitala ekki máli í raunveruleikanum þegar fólk er að sækja um vinnu? Jónína segist ekki hafa svar á reiðum höndum og veltir fyrir sér skýringum þess að fólk upplifi það sem raun, að ráðið sé frekar yngra fólk í laus störf. Hún segir að hugsanlega megi finna skýringuna í því að fáir eldri séu á skrá hjá þeim og að fólk sé kannski hrætt við breytingar eftir því sem það eldist. Einnig gætu fordómar leynst og séu því útbreiddari en samfélagið geri sér grein fyrir. Það sé nefnilega ekki reynsla þeirra hjá Capacent að aldur skipti máli í ráðningarferli.
Gott að hafa blandaðan hóp á vinnumarkaði
„Það eru margt eldra fólk sem vill vinna. Gott er að hafa blandaðan hóp,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, en hún tók einnig til máls á málþinginu. Hún segir að það sé jákvætt fyrir lífeyrissjóðina að fólk lifi lengur og betur.
Hún segir að ákveðnar leiðir séu til skoðunar til þess að leysa vandann sem lífeyrissjóðirnir og allt samfélagið stendur frammi fyrir. Ein sé að hækka lífeyristökualdurinn og að sú aðlögun þyrfti að gerast á löngum tíma. Hún bendir einnig á, eins og Stefán, að sveigjanleiki gæti verið aukinn. Hún segir að allir þurfi að taka höndum saman og að ábyrgðin liggi hjá öllum aðilum, lífeyrissjóðum, vinnumarkaðinum og einstaklingum.