Fyrir tiltölulega fáum árum var venjan sú, einkum á Vesturlöndum, þegar fólk sem þekktist ágætlega hittist, hvort sem var í heimahúsum, fyrir tilviljun á götu eða mannamótum, bauð það góðan dag og kinkaði kolli, eða aðeins formlegra, heilsaðist með handabandi. Klappaði kannski samtímis laust með vinstri hendi á upphandlegg eða öxl þess sem verið var að heilsa, það var þó ekki gert nema fólk þekktist þeim mun betur. Smá höfuðhneiging fylgdi stundum með. Margir létu líka duga að heilsa ættingjum, jafnvel systkinum, með handabandi. Kysstu foreldrana á kinnina, en enga aðra. Þetta var siðurinn. Enginn velti þessu sérstaklega fyrir sér, svona var þetta barasta. Enda er handabandið gamalt. Til eru lágmyndir frá 4. og 5. öld fyrir Krist þar sem fólk sést heilsast með hægri hendi einsog við gerum í dag. Þótt ekki sé með vissu vitað af hverju hægri höndin var notuð er hugsanleg skýring sú að flestir, aðrir en örvhentir, báru iðulega vopn í hægri hendi og það að færa vopnið yfir í þá vinstri þegar heilsað var táknaði traust.
Handabandsiðurinn hefur til skamms tíma ekki verið útbreiddur í Asíu, þótt slíkt sé þó meira áberandi í dag, þar hafa höfuðhneigingar verið ríkjandi ásamt því að leggja saman lófa þannig að þumlar nemi við bringu.
Svo komu faðmlögin
Orðið eitt og sér minnir kannski á lagasetningu. Faðmlögin hafa þó ekki komið til kasta Alþingis. Um faðmlögin hafa semsé aldrei verið sett lög og reglugerðir enda eru reglurnar um notkun faðmlaga fremur óljósar. Hverja á að faðma og hvenær, hvað á faðmlagið að vera þétt, á að fylgja með koss á kinn, eða bara svokallaður loftkoss? Ef maður tekur til dæmis þátt í nokkurra daga námskeiði, á maður þá að faðma hina þátttakendurna þegar námskeiðinu lýkur? Og þá alla eða bara suma? Og hvað svo þegar maður hittir þetta sama fólk nokkru síðar, er þá faðmlagareglan enn í gildi? Þetta er ekki einfalt mál, jafnvel hálfgert vandamál myndu einhverjir segja. Sumir koma sér upp ákveðnum faðmlagareglum, eru í eins konar faðmlagasambandi við tiltekinn hóp, sem í flestum tilvikum fer ört stækkandi. Þeir sem faðmast hafa hleypt hvor öðrum inn í ákveðinn tengslahring.
Hvernig byrjaði þetta með faðmlögin?
Því er fljótsvarað. Það veit enginn. Faðmlög í þröngum hópi, t.d. innan fjölskyldna, og mjög náins vinafólks, hafa lengi tíðkast en ekki eru margir áratugir síðan siðurinn fór að verða jafn almennur og hann er í dag. Mið-Evrópubúar og þeir sem sunnar búa voru langt á undan okkur í Norðrinu í þessum efnum enda iðulega talað um þeir séu miklu „opnari” en við sem norðar búum. Fyrir tuttugu árum, og kannski löngu fyrr, tíðkaðist það t.d. í Belgíu og Frakklandi að nemendur smelltu hægri vöngum saman að morgni dags og aftur þegar haldið var heimleiðis. Á þeim tíma var slíkt vangaflens algjörlega óþekkt á Fróni. Nú er það breytt. Höfundur þessa pistils var fyrir nokkru síðan á litlu kaffihúsi í Reykjavík. Yfir kaffinu varð hann vitni að hverju faðmlaginu á fætur öðru þegar fólk sem greinilega hafði mælt sér mót heilsaðist, konur í meirihluta. Þótt þetta geti ekki talist vísindaleg könnun er greinilegt, eins og flestir þekkja, að siðurinn er orðinn mjög almennur. Á góðum degi komast margir örugglega uppí tugi faðmlaga, fer auðvitað eftir aðstæðum.
Er hollt að faðmast?
Þótt flestir geti sjálfsagt (með undantekningum) verið sammála um að því að faðmast fylgi ákveðinn hlýleiki og notalegheit hafa sennilega fáir velt fyrir sér hinum líkamlegu áhrifum. En þau hafa sérfræðingar reynt að rannsaka og komist að því að faðmlagi fylgja líkamleg áhrif. Rannsóknir hafa sýnt að faðmlag framkallar ákveðið hormón, svonefnt oxytocin. Lengi vel var þetta hormón nefnt ástarhormón en vísindamenn vilja nú, margir hverjir, kalla það vellíðunarhormón, tengdan snertingu. Þetta hefur ekki farið framhjá snyrtivöruframleiðendum, sem sumir auglýsa t.d. svitalyktareyði með oxytocin. Í auglýsingum er fullyrt að þetta hafi jákvæð áhrif, t.d á þéttskipuðu dansgólfi. Sannanir í þessum efnum liggja ekki fyrir.
Tólf faðmlög daglega auka þroskann
Virgina Satir, þekktur bandarískur fjölskylduráðgjafi og rithöfundur, taldi faðmlög ótvíræða leið til bættrar heilsu. Samkvæmt kenningum hennar þarf fjögur faðmlög á dag til að lifa af, átta til að halda okkur við og tólf til að þroskast. Þrátt fyrir að faðmlögum hafi fjölgað mjög á síðustu árum er líklegt að margir nái ekki þessum viðmiðum.
Dönsku handabandssamtökin
Þótt fáir séu kannski beinlínis á móti „faðmlagasiðnum” eru ekki allir jafn hrifnir af fyrirbærinu. Árið 1998 stofnuðu nokkrir danskir karlar félagsskapinn „Dansk Haandtryksforening”. Tilgangur félagsins er að viðhalda þeim gamla og góða sið að takast í hendur. „Það er hlaupin óðaverðbólga í faðmlögin og ekki seinna vænna að bregðast við” sagði einn af stofnendum í blaðaviðtali. Þótt þeir handabandsmenn hafi í sjálfu sér ekkert á móti faðmlögum telja þeir að handabandið þurfi áfram að „skipa þann mikilvæga sess í samfélaginu sem það hefur gert öldum saman”. Handabandið hefur að mati félaga í samtökunum ýmislegt umfram faðmlagið. Mikilvægast er augnsambandið sem ætíð hefur verið talið mjög mikilvægt í samskiptum fólks, það fer fyrir ofan garð og neðan í faðmlaginu. Handabandið er alltaf ekta vara að mati félaga í handabandssamtökunum. Einkunnarorð samtakanna eru „ekkert jafnast á við þétt handtak”.