Donald J. Trump er líklegastur til þess að verða útnefndur af Repúblikanaflokknum sem forsetaefni flokksins, fyrir bandarísku forsetakosningarnar í haust. Trump er umdeildur, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Trump hefur lagt fram stefnu fyrir Bandaríkjaher sem byggir á fyrri skrifum hans um stöðu Bandaríkjanna í heiminum, og hvernig landið eigi að nálgast heimsmálin. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt stefnu Trumps „stórhættulega“ og algjörlega úr takti við veruleikann. Hún sé lítið annað en innantóm slagorð um ekkert.
1. Utanríkisstefna Trumps byggir á sjö grunngildum. Þau eiga að vera leiðarvísir út úr öllum aðstæðum sem Bandaríkin geta komist í. Með þeim á forseti Bandaríkjanna að hafa möguleika á því að bregðast við hvaða stöðu sem er. Grundvallaratriðið er að Bandaríkin séu yfirburðaríki og eigi að haga sér sem slíkt.
2. Gildin voru útlistuð fyrst í bókinni Time To Get Tough sem Trump sendi frá sér árið 2011. Bókin er tileinkuð foreldrum Donald Trump, þeim Mary og Fred, og var gefin út af Regnery bókaútgáfunni.
3. Fyrsta gildið sem Trump segir að Bandaríkin verði að hafa í forgrunni, hljómar svona. „Bandarískir hagsmunir koma fyrstir. Alltaf. Engar afsakanir.“ Trump vill meina að Banaríkin hafi grafið undan sterkri stöðu sinni í heiminum með of miklu samstarfi við þjóðir, og í því samstarfi hafi hagsmunir Bandaríkjanna orðið undir. Þetta megi ekki gerast.
4. Annað gildið snýr að hervaldi og beitingu þess. „Hámarks skotkraftur (Maximum firepower) og hernaðarlegur viðbúnaður.“ Trump segir að Bandaríkin eigi alltaf að nálgast verkefni hersins á alþjóðavettvangi með því að sýna yfirburði og búast við því versta. Þetta sé lykilatriði þegar kemur að því að koma Bandaríkjunum „aftur á stall“ sem það ríki sem það eigi að vera.
5. „Aðeins á að fara í stríð til að vinna.“ Í framhaldi af gildinu hér á undan, þá telur Trump þetta ekki síður mikilvægt, og þá sem sjálfstætt markmið. Trump vill meina að Bandaríkin eigi aldrei að taka þátt í stríðum nema með því að gjörsigra andstæðinga, og hætta aldrei fyrr en það er talið öruggt að stríðið sé unnið. Trump segir George W. Bush hafa verið „skelfilegan“ þegar að þessu kemur, og ekki kunnað að stýra her Bandaríkjanna þannig að hann sigri. Íraksstríðið hafi verið klúður frá upphafi til enda.
6. Trump telur að leikjafræðin í utanríkismálum Bandaríkjanna eigi að vera einföld. Í öllum tilfellum eigi Bandaríkin að standa með vinum sínum, en alltaf búast við því versta frá öðrum. Með þessu móti marki Bandaríkin sér stöðu sem sé bæði skýr og einföld.
7. Það gildi sem Trump hefur verið minnst gagnrýndur fyrir, og meira að segja hrósað af stöku Demókrata, er að áhersla hans á tækni. Hann telur að Bandaríkjaher þurfi alltaf að búa yfir bestu mögulegu tækni til að beita gegn „óvinum“ Bandaríkjanna. (Keep the technological sword razor sharp).
8. Utanríkisstefnan – framkvæmd af hernum í mörgum tilvikum – verður að miða að því að sjá það það sem er ófyrirséð, og vígbúast áður en „óvinurinn“ getur tekið til vopna. Þetta sé grundvallaratriði. Bandaríkin verði alltaf að vera skrefi framar en allir aðrir. Aldrei megi láta þá stöðu myndast, að aðrar þjóðir búi yfir betri tækni en Bandaríkin.
9. Trump segir að Bandaríkin hafi ekki staðið sig vel í því, í gegnum tíðina, að bera virðingu fyrir hermönnum og þeim sem hafi barist í fremstu víglínu, og séu í því að „verja bandaríska hagsmuni“. Herinn eigi að vera hluti af „sjálfi“ Bandaríkjanna og hermennirnir eigi að vera þeir einstaklingar, sem fólk beri mesta virðingu fyrir. „Þetta má aldrei breytast,“ segir Trump.
10. Út frá þessum fyrrnefndu gildum, þurfi Bandaríkin að nálgast stöðu mála í heiminum núna. Eitt mest aðkallandi verkefnið sé að „sprengja ISIS“ útaf heimskortinu, og útiloka með öllu að hryðjuverkamenn geti komið til Bandaríkjanna. Það sé best gert með því að loka á komu múslima til landsins. En það sem mestu skiptir, segir Trump, er að búa þannig um hnútana að ógnanirnar verði ekki til. Það er, að Bandaríkjaher sé alltaf búinn að „eyða möguleikanum“ á því að þær myndist, með því að setja bandaríska hagsmuni alltaf á oddinn.