Fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar kynnti á dögunum í fyrsta sinn fjármálastefnu og fjármálaáætlun fyrir hið opinbera til næstu fimm ára. Stefnan er byggð á nýjum lögum fjármál hins opinbera sem eiga að miða að því bæta hagstjórn og samstarf á milli ríkis og sveitarfélaga.
Samkvæmt því sem fram kom frá efnahags- og fjármálaráðuneytinu þá felur þetta í sér að hægt verði á næstu árum „að búa enn frekar í haginn fyrir komandi kynslóðir með því að greiða niður opinberar skuldir, draga úr álögum á fólk með lægri og sanngjarnari sköttum, byggja upp samfélagslega innviði og treysta til muna grunnþjónustu ríkisins með hækkun bóta, eflingu heilbrigðiskerfisins og auknum gæðum menntunar.“
Tíu staðreyndir úr stefnunni og áætluninni má lesa hér að neðan.
1. Lög um opinber fjármál innleiða strangar reglur um afkomu og skuldaþróun, en samkvæmt áætluninni verður markmiðum þeirra náð þegar á fyrstu tveimur árum hennar, með jákvæðum heildarjöfnuði yfir allt fimm ára tímabilið og lækkun heildarskulda hins opinbera; ríkis og sveitarfélaga, í 30 prósent af vergri landsframleiðslu. Heildarafkoma A-hluta ríkis og sveitarfélaga verður jákvæð um að minnsta kosti 1 prósent af vergri landsframleiðslu á tímabili áætlunarinnar í því skyni að viðhalda efnahagslegum stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Á næsta ári er gert ráð fyrir 26,5 milljarða króna jákvæðum heildarjöfnuði ríkissjóðs.
2. Vaxtagjöld verða um 20 milljörðum króna lægri lægri á ári í lok tímabilsins en þau voru í árslok 2015. Meginmarkmiðið er ekki síst það, að lækka skuldir hins opinbera.
3. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar um 130 þúsund krónur í byrjun næsta árs í 500 þúsund krónur á mánuði, en markmiðið er að færa greiðslurnar í átt að því sem þær voru fyrir 2009. Samtals eykst framlag til sjóðsins um 1 milljarð króna á árunum 2017–2018.
4. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að framlög til framhaldsskólastigsins vaxi um 3,2 milljarða króna að raunvirði frá og með árinu 2016 og til ársins 2021, eða sem svarar til nálægt 12% raunvaxtar yfir tímabilið á sama tíma og rekstrarkostnaður skólanna mun lækka vegna styttingar námsins úr fjórum árum í þrjú.
5. Gera má ráð fyrir að svigrúm til framkvæmda á árunum 2017 til 2021 nemi samtals uppsafnað um 75 milljarða króna, samkvæmt áætlunum. Ekki er gert ráð fyrir að fjármagna þurfi þessi verkefni með óreglulegum tímabundnum tekjum ríkissjóðs á borð við arðgreiðslur eða söluhagnað.
6. Ein mikil óvissa er í þessari stefnu og áætluninni þar með. Hún snýr að stjórnmálum og forgangsröðun sem birtist í fjárlögum ár hvert. Ekki er víst að fjárheimild fáist fyrir öllum þeim verkefnum sem lögð eru fram í áætlun, og að þeim sé stefnt. Kosningar í haust, og möguleg stjórnarskipti, geta meðal annars breytt stöðunni og áherslum.
7. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að framlög til framhaldsskólastigsins vaxi um 3,2 milljarða króna að raunvirði frá og með árinu 2016 og til ársins 2021, eða sem svarar til nálægt 12 prósent raunvaxtar yfir tímabilið á sama tíma og rekstrarkostnaður skólanna mun lækka vegna styttingar námsins úr fjórum árum í þrjú.
8. Aukin framlög til háskóla eru ekki inn í þessum áformum sem hafa verið kynnt. Þessu hafa rektorar háskóla í landinu mótmælt harðlega, og sagt að þetta standist ekki miðað við þau markmið sem hafa verið sett. Rektorarnir segja að skýrslur OECD hafi sýnt fram á með óyggjandi hætti að íslenskir háskólar séu verulega undirfjármagnaðir og fái til að mynda helmingi lægra framlag á hvern nemanda en háskólar á Norðurlöndum.
9. Byggingaframkvæmdir við fyrsta verkáfanga nýs LSH, einkum meðferðarkjarna og rannsóknarhús, verði boðnar út 2018 og komnar á fullan skrið árin 2019–2021. Þær koma til viðbótar byggingu sjúkrahótels, sem áformað er að ljúki 2017, og fullnaðarhönnun nýs meðferðarkjarna sem þegar hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum 2016 og síðustu ríkisfjármálaáætlun. Samkvæmt þessu er áhersla lög á áframhaldandi uppbyggingu við Hringbraut.
10. Hús íslenskra fræða mun rísa, loksins, segja eflaust margir. Lokið verður við framkvæmdina á næstu fimm árum og renna alls 3,7 milljarðar króna til verkefnisins. Ný Vestmannaeyjaferja verður til. Á tímabilinu verður ný ferja að fullu fjármögnuð og smíðuð en áætlaður kostnaður við ferjuna og botndælubúnað nemur nálægt 6 milljörðum króna. Ferðamannastaðir verða efldir. Stóraukin framlög renna til uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum en gert er ráð fyrir að þau verði alls um 6 milljarðar króna, eða um 1,2 milljarðar á ári. Dýrafjarðargöng mun einnig kláruð, og samgöngur þannig styrktar. Áætluð útgjöld vegna gerðar ganganna nema ríflega 12 milljörðum króna á tímabilinu.