26 nýir þingmenn myndu setjast á þing ef kosið yrði í dag

Gríðarleg breyting verður á þingmannaliði þjóðarinnar ef niðurstöður næstu kosninga verða í takti við það sem kannanir sýna. Alls munu að minnsta kosti fjórir af hverjum tíu þingmönnum ýmist ekki ná endurkjöri eða hætta þingmennsku að eigin frumkvæði.

Stjórnmálaforingjar
Auglýsing

Viðbúið er að mikil endurnýjun verði á Alþingi Íslendinga eftir næstu kosningar. Miðað við skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í dag munu 23 sitjandi þingmenn tapa þingsætum sínum. Auk þess hafa þrír þingmenn sem mælast inni á þingi, miðað við setu þeirra á framboðslistum fyrir síðustu kosningar, tilkynnt að þeir ætli ekki að bjóða sig aftur fram. Það eru Einar K. Guðfinnsson, Ögmundur Jónasson og Katrín Júlíusdóttir.

Ef allir aðrir þingmenn sem sóttust eftir kjöri 2013 myndu bjóða sig aftur fram í sömu sætum og þá í kosningunum í haust þá myndu einungis 37 þeirra ná kjöri. Alls myndu því 26 nýir þingmenn setjast á þing. Það myndi þýða að 41,3 prósent þingheims myndi endurnýjast.

Vert er þó að taka fram að stjórnmálaflokkarnir eiga eftir að raða á framboðslista sína og enn á eftir að tilkynna formlega um hvenær næsti kjördagur verður.

Auglýsing

Framsókn myndu tapa 14 þingmönnum

Það eru margar áhugaverðar vendingar sem hægt er að lesa úr þeim breytingum sem eru yfirvofandi. Framsóknarflokkurinn er til að mynda við það að missa 14 þingmenn samkvæmt könnuninni. Fer úr 19 þingmönnum í fimm. Flokkurinn fengi einungis einn þingmann í Norðvesturkjördæmi, sem er sögulega sterkt vígi flokksins. Miðað við framboðslista 2013 yrði sá Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það þýðir að Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður flokksins, Elsa Lára Arnardóttir og Jóhanna M. Sigmundsdóttir myndu tapa þingsætum sínum.

Flokkurinn myndi ekki síður bíða afhroð í Suðurkjördæmi. Þar er hann nú með fjóra þingmenn en fengi einn kjörinn ef kosið yrði í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson forstætisráðherra myndi einn ná kjöri fyrir flokkinn þar. Þau Silja Dögg Gunnarsdóttir, Haraldur Einarsson og Páll Jóhann Pálsson - sem hefur reyndar þegar sagt að hann muni ekki fara aftur fram – myndu ekki ná inn á þing.

Vigdís Hauksdóttir og Frosti Sigurjónsson myndu bæði tapa þingsætum sínum ef kosið yrði í dag.Hrunið í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur yrði algjört. 2013 fékk Framsókn tvo þingmenn í hvoru þeirra og var um að ræða mesta kosningasigur flokksins i höfuðborginni frá upphafi. Vigdís Hauksdóttir og Karl Garðarsson – þingmenn í Reykjavík suður – og Frosti Sigurjónsson og Sigrún Magnúsdóttir – þingmenn í Reykjavík norður – myndu missa sæti sín. Sigrún hefur reyndar þegar sagt opinberlega að hún sækist ekki eftir endurkjöri, Karl hefur enn ekki ákveðið sig og Vigdís er ekkert byrjuð að pæla í framboði. Frosti ætlar hins vegar fram og mikið er rætt um að Lilja Alfreðsdóttir, sem gerð var að utanríkisráðherra fyrir skemmstu, hefur verið orðuð við framboð í Reykjavík. Hún hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hún bjóði sig fram til þingmennsku.

Framsókn vann líka mikinn sigur í Kraganum í síðustu kosningum. Eygló Harðardóttir, oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi, myndi halda sæti sínu ef kosið yrði í dag en yrði eini þingmaður hans þar. Það þýðir að Willum Þór Þórsson og Þorsteinn Sæmundsson, sem báðir ætla að bjóða sig aftur fram, myndu ekki ná kjöri.

Í Norðausturkjördæmi, kjördæmi flokksformannsins, myndi Framsóknarflokkurinn missa tvo þingmenn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þórhallsson myndu halda þingsætum sínum en Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir féllu af þingi. Af þessum fjórum hafa þrír sagt að þeir ætli fram. Einungis Sigmundur Davíð á eftir að svara til um það og fer væntanlega að styttast í að hann greini frá áformum sínum.

Tveir formannsframbjóðendur næðu ekki inn

Þeir flokkar sem skilgreinast sem jafnaðarmannaflokkar virðast ekki eiga mikið erindi í íslenskri pólitík um þessar mundir, að minnsta kosti ef marka er skoðanakannanir. Hver slík á fætur annarri sýnir að Björt Framtíð nái ekki inn manni á þing og að Samfylkingin nái að bæta metið í lágu fylgi sem flokkurinn setti 2013. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins myndi Björt framtíð tapa öllum sex þingmönnum sínum og Samfylkingin fara úr níu þingmönnum í sex.

Þeir þingmenn Bjartrar framtíðar sem hverfa myndu af Alþingi eru Óttarr Proppé, formaður flokksins, Páll Valur Björnsson, Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir. Hin þrjú fyrstnefndu hafa öll tilkynnt að þau muni fara aftur fram í komandi kosningum en hinn helmingur þingflokksins hefur enn ekki ákveðið sig.

Helgi Hjörvar næði ekki inn ef kosið yrði í dag.Staðan hjá Samfylkingunni er einnig athyglisverð. Samanlagt fylgi þeirra flokka sem bjuggu til Samfylkinguna var 37,8 prósent í síðustu kosningunum áður en hún var mynduð. Flokkurinn beið algjört afhroð í kosningunum 2013 þegar hann fékk 12,9 prósent fylgi, heilum 16,9 prósentum minna en í kosningunum 2009. Það er skellur sem á sér vart hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu. Flokkurinn virðist ekki vera að fara að spyrna sér upp frá þessum botni. Þvert á móti dalar fylgið áfram og mælist nú 8,3 prósent.

Það er líka athyglisvert að skoða hvaða þingmenn flokksins það eru sem myndu missa þingsæti. Í þeim þriggja manna hópi eru nefnilega tveir sem gefa kost á sér í formannskjöri Samfylkingarinnar sem fram fer í næsta mánuði, þau Oddný Harðardóttir og Helgi Hjörvar. Auk þeirra myndi Valgerður Bjarnadóttir detta út að óbreyttu. Katrín Júlíusdóttir myndi halda sæti sínu á þingi – hún er annar þingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi – en Katrín hefur þegar sagt að hún muni ekki sækjast eftir endurkjöri. Næstur á eftir henni á lista 2013 var enn einn formannsframbjóðandinn, Magnús Orri Schram. Sitjandi formaðurinn Árni Páll Árnason, sem mun einnig sækjast eftir endurkjöri í júní, myndi halda þingsæti sínu.

Píratar margfaldast

Þeir flokkar sem bæta við sig þingsætum eru þrír. Þar ber auðvitað fyrst að nefna Pírata. Þingflokkur þeirra færi úr þremur þingmönnum í 22 ef kosið væri í dag og flokkurinn yrði stærstur á þingi. Alls segjast 31,8 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa flokkinn í dag en 5,1 prósent kusu hann í síðustu kosningum.

Allir sitjandi þingmenn Pírata myndu halda sæti sínu. Í Suðvesturkjördæmi myndu þeir Björn Leví Gunn­ars­son, Há­kon Einar Júl­í­us­son og Árni Þór Þor­geirs­son ná kjöri ásamt Birgittu Jónsdóttur, oddvita Pírata þar.

Í Suðurkjördæmi er flokkurinn með engan þingmann en fengi fjóra ef kosið yrði í dag. Þeir ­Smári McCart­hy, Hall­dór Berg Harð­ar­son, ­Björn Þór Jóhann­es­son og Svafar Helga­son skip­uðu þessi fjögur sæti í síð­ustu kosn­ing­um.

Píratar myndu fá fimm þingmenn í hvoru Reykjavíkurkjördæminu og yrðu langstærsti flokkurinn í höfuðborginni. Í dag er Ásta Guðrún Helgadóttir eini þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður eftir að Jón Þór Ólafsson steig til hliðar á miðju kjörtímabili. Í næstu sætum á eftir henni á síðasta framboðslista voru Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Sigríður Fossberg Thorlacius, Arnaldur Sigurðarson og Birkir Fannar Einarsson. Þau eru öll um þrítugt.

Í Reykjavík norður er Helgi Hrafn Gunnarsson eini þingmaður flokksins. Við myndu bætast Halldóra Mogensen, Bjarni Rúnar Einarsson, Salvör K. Gissurardóttir og Þórður Sveinsson.

Píratar fengu engan mann í Norðausturkjördæmi árið 2013 en myndu fá tvo ef kosið yrði í dag. Þeir yrðu Aðalheiður Ámundadóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Pírata, og Þórgnýr Thoroddsen.

Sjálfstæðisflokkurinn í sókn

Sjálfstæðisflokkurinn myndi einnig vinna að minnsta kosti varnarsigur ef kosið yrði í dag. Flokkurinn myndi bæta við sig tveimur þingmönnum frá síðustu kosningum sem verður að teljast afar ásættanlegur árangur miðað við ágjöfina sem flokkurinn hefur fengið á kjörtímabilinu. Fjórir ráðherrar flokksins hafa tengst spillingarmálum. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra vegna lekamálsins, Illugi Gunnarsson er laskaður eftir Orku Energy-málið og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ólöf Nordal, varaformaður hans, voru bæði í Panamaskjölunum. Samt mælist flokkurinn með 29,9 prósent fylgi sem er meira en hann fékk í síðustu tveimur kosningum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir myndi halda sæti sínu á þingi örugglega ef kosið yrði nú.Sjálfstæðisflokkurinn myndi halda öllum sínum 19 þingmönnum inni. Til viðbótar myndu tveir nýir setjast á þing. Einn kæm úr Norðausturkjördæmi en hinn úr norðvesturkjördæmi. Samkvæmt framboðslista 2013 yrði það Ásta Kristín Sigurjónsdóttir. Beint á eftir henni er Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. 

Hinn yrði, samkvæmt lista, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir frá Tálknafirði. Þar sem Einar K. Guðfinnsson ætlar að hætta þá myndi Sigurður Örn Ágústsson, sem tekið hefur sæti sem varaþingmaður á þessu kjörtímabili og vakið eftirtekt, einnig ná kjöri.

Álfheiður næst inn

Vinstri græn myndu halda öllum sínum þingmönnum og bæta við sig tveimur, einum í Suðurkjördæmi og einum í Reykjavík suður.  Flokkurinn myndi fá 14 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag en fékk 10,9 prósent í síðustu kosningum. Álfheiður Ingadóttir, fyrrum þingmaður og ráðherra, yrði næst inn í Reykjavík suður samkvæmt framboðslista 2013 og þar á eftir kæmi Ingimar Karl Helgason blaðamaður.

Vinstri græn myndu fá einn þingmann í Suðurkjördæmi ef kosið yrði í dag. Miðað við lista flokksins fyrir síðustu kosningar yrði það Arndís Soffía Sigurðardóttir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og verk Libiu og Ólafs áður en það var tekið niður af gafli Hafnarborgar.
Bæjarstjóri hafnar því að hafa gerst sek um ritskoðun þegar listaverk var fjarlægt
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirðii segja fjarlægingu listaverks Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar af gafli Hafnarborgar síðastliðinn sunnudag „alvarlega aðför að tjáningarfrelsi“ og vilja að bæjaryfirvöld biðji tvíeykið afsökunar.
Kjarninn 7. maí 2021
Svæðið fyrir og eftir að Rio Tinto hafði farið yfir það með stórvirkum vinnuvélum.
Hluthafar Rio Tinto hafna starfskjarastefnu sem ofurlaun forstjórans fyrrverandi byggðu á
Fyrstu viðbrögð Rio Tinto og forstjóra þess, þegar upp komst að fyrirtækið hefði eyðilagt 46 þúsund ára gamla steinhella, voru að segjast ekki hafa vitað að þeir væru heilagir í hugum frumbyggjanna. Þessar afsakanir voru hluthöfum ekki að skapi.
Kjarninn 6. maí 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Telur ásakanir um meint brot Samherja ekki hafa skaðað orðspor íslenskra fyrirtækja
Fjármála- og efnahagsráðherra segist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning.
Kjarninn 6. maí 2021
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á þremur mánuðum
Hlutdeild Landsbanka Íslands á íbúðalánamarkaði hefur stóraukist milli ára og er nú 26,8 prósent. Hún hefur aldrei verið hærri. Eigið fé bankans er nú 261,4 milljarðar króna.
Kjarninn 6. maí 2021
Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Segir „skrúðgöngur þjóðernispopúlista á atkvæðaveiðum“ lélega nýtingu á tíma og peningum
Þingmaður Pírata gagnrýnir Miðflokkinn harðlega fyrir að hafa „sóað rúmlega 12 klukkutímum af tíma þingsins í forsendulaust og beinlínis heimskulegt málþóf“.
Kjarninn 6. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None