Koma bresku rokksveitarinnar The Kinks til Íslands árið 1965 markaði ákveðin tímamót í íslenskri tónlistarsögu. Upp frá því hófu erlendar stórsveitir og tónlistarmenn að venja komur sínar hingað þó að það hafi vissulega verið strjált í upphafi. Árið 2016 verður íslensku tónlistaráhugafólki afar gott. Meðal heimsfrægra tónlistarmanna sem boðað hafa komu sína má nefna Radiohead, Muse, Brian Wilson og sjálfan Justin Bieber. En hvað eru merkilegustu tónleikarnir hingað til?
10. David Bowie
Tónleikar David Bowie í Laugardalshöll þann 20. júní árið 1996 voru hluti af Listahátíð í Reykjavík og tókust með eindæmum vel. Hljómsveitin Lhooq (með Jóhann Jóhannsson innanborðs) hitaði upp en þegar Bowie mætti á sviðið ætlaði þakið að rifna af húsinu. Áhorfendur voru um 5500 manns á öllum aldri og vitaskuld löngu uppselt. Bowie, sem kallaður hefur verið kamelljón rokksins og komið víða við í tónlistarsköpun, sagði eftir tónleikana að hann væri að sjá alveg nýjan aðdáendahóp. Í Laugardalshöll spilaði hann töluvert af nýjustu plötu sinni Outside sem er mjög ævintýragjörn og elektrónísk. Áhorfendur tóku aftur á móti betur í eldri slagara á borð við Heroes, Diamond Dogs og Under Pressure. Hann spilaði þó ekki mikið af hinu svokallaða Ziggy Stardust skeiði sem gerði hann frægan í upphafi áttunda áratugarins. Bowie hældi landi og þjóð í hástert á sjónvarpsstöðinni MTV og hvatti fólk til að heimsækja landið.
9. Black Sabbath/Jethro Tull
Á hálfraraldar afmæli Akraneskaupstaðar árið 1992 var ákveðið að halda stórtónleika í bænum sem nefndust Skagarokk. Skagamenn voru stórhuga og bókuðu tvö risa nöfn úr rokkheiminum, Jethro Tull og Ozzy Osbourne. Þeir bjuggust við a.m.k. 3000 tónleikagestum í heildina og stefndu á að hafa viðburðinn árlegann, töluðu jafnvel um að Akranes yrði að „Hróarskeldu Íslands“. Þegar ljóst var að Ozzy kæmist ekki náðist samkomulag við hans gömlu hljómsveit Black Sabbath um að spila í hans stað. Tónleikarnir fóru fram í íþróttahúsi Akraness 25. og 26. september. Jethro Tull spiluðu á fyrra kvöldinu með Gildruna sem upphitunarband og Black Sabbath á seinna kvöldinu ásamt hinni norsku hljómsveit Eiríks Haukssonar, Artch. Miðasalan var ákaflega dræm, einungis nokkur hundruð miðar samanlagt, og þá sérstaklega á seinni tónleikanna. Það þó að rokkguðir á borð við Tony Iommi, Geezer Butler og Ronnie James Dio kæmu fram og spiluðu gamla slagara frá Ozzy tímanum í bland við nýtt efni. Nú er í bígerð heimildarmynd um ævintýrið.
8. Wu Tang Clan
Þann 20. desember árið 1997 átti ameríska ofurrappsveitin Wu Tang Clan að stíga á svið í Laugardalshöllinni en á síðustu stundu var tónleikunum aflýst. Meðlimir hljómsveitarinnar höfðu lent í bílslysi í New York og forsprakki þeirra Ol´ Dirty Bastard slasast. Ári seinna kættust Wu Tang aðdáendur hérlendis þegar tilkynnt var að Hljómsveitin Gravediggaz (með Wu Tang stjörnuna RZA innanborðs) myndi spila í Fylkishöllinni, en RZA mætti ekki. RZA kom þó hingað í heimsókn með leikstjóranum Quentin Tarantino árið 2006 og sagði vel mögulegt að Wu Tang spiluðu hér. Rappþyrstir Íslendingar þurftu þó að bíða í níu ár þegar loks var tilkynnt að hljómsveitin myndi loka Secret Solstice hátíðinni árið 2015. 21. júní stigu þeir á svið í Laugardalnum, sjö talsins. RZA var ekki meðal þeirra og ekki heldur Ol´Dirty sem lést árið 2004. Tónleikarnir gengu hins vegar mjög vel og eru sennilega stærsti rappviðburður Íslands.
7. Snoddas
Árið 1952 greip um sig mikið æði í Svíþjóð fyrir ungum pilti að nafni Gösta Nordgren, sem kallaður var Snoddas. Snoddas þýðir litli gúmmí strákurinn, viðurnefni sem hann fékk vegna þess að faðir hans seldi smokka. Snoddas var ljúf sál en nokkuð einfaldur og tónlist hans nokkuð gamaldags. Smáskífan Flottarkarlek seldist eins og heitar lummur og SÍBS brá á það ráð að fá hann hingað til landsins til þess að syngja á nokkrum tónleikum. Æðið fylgdi Snoddas til Íslands og þegar hann kom hingað í marsmánuði árið 1953 var hann á forsíðum allra blaðanna og gat sig varla hreyft án þess að það teldist fréttnæmt. Íslendingar voru ekki vanir slíkum stórstjörnum á þessum tíma og fljótlega seldist upp á alla tónleikana sem hann átti að syngja á. Eftirvæntingin var mikil en vonbrigðin jafnvel meiri þegar hann loks hóf upp raust sína. Snoddas söng svo skelfilega að áhorfendur áttu í basli með að halda niðri í sér hlátrinum. Æðið í Svíþjóð dó einnig fljótlega út og þessi kafli er í dag talinn einn sá vandræðalegasti í sænskri tónlistarsögu.
6. Elton John
Það var klaufalega staðið að komu hins heimskunna tónlistarmanns Elton John hingað árið 2000. Aðstandendur tónleikanna létu gera rannsókn á mögulegri aðsókn og ákváðu í kjölfarið að panta Laugardalsvöllinn. Tölurnar stóðust þó engan veginn og einungis 8000 manns keyptu miða á tónleikana sem skilaði um 10 milljón króna tapi. Framkvæmd tónleikanna sjálfra var einnig klaufaleg. Það var kalt úti þann 1. júní, stúkurnar voru illa skipulagðar, ljósakerfið lélegt o.s.frv. En ekki var hægt að kvarta yfir tónlistinni. Ný Dönsk og KK hituðu upp fyrir Elton sem svo spilaði allar sínu helstu perlur á lystilegan hátt. Ekki er heldur hægt að segja að tónleikagestir hafi fengið lítið fyrir aurinn því að hann spilaði í næstum þrjá klukkutíma. Þetta er ekki í eina skiptið sem Elton John hefur spilað hér á landi. Hann tróð upp í alræmdri afmælisveislu Ólafs Ólafssonar 20. janúar árið 2007 sem haldin var í frystigeymslu Samskipa við Vogabakka. Þar spilaði hann einungis í klukkutíma en talið er að hann hafi fengið um milljón Bandaríkjadollara fyrir viðvikið.
5. Justin Timberlake
Justin Timberlake, ein stærsta poppstjarna veraldar, tróð upp í Kórnum í Kópavogi þann 24. ágúst árið 2014, en það eru fyrstu stórtónleikarnir sem haldnir eru í knattspyrnuhöllinni. Mikið Timberlake æði greip landann þegar tilkynnt var að hann myndi halda tónleika hér en upprunalega áttu þeir að fara fram í júní. Áætlað er að tæplega 17 þúsund manns hafi sótt tónleikana en einnig var hægt að fylgjast með þeim í beinni útsendingu á netsíðunni Live Nation. Um ein milljón manns horfði á þá víðs vegar um heim. Meðal tónleikagesta var bandaríski auðkýfingurinn Bill Gates sem flaug hingað á einkaþotu sinni og hafði heila stúku út af fyrir sig og fylgdarfólk sitt. Timberlake kom með sinn eigin plötusnúð, DJ Freestyle Steve, til að hita upp en einnig spiluðu Gus Gus áður en poppkóngurinn sté á svið. Tónleikar Timberlake gengu vel og sjónarspilið var mikið. Lýðurinn ærðist hreinlega í lokalagi tónleikanna, hinu nýútkomna Mirrors.
4. Louis Armstrong
„Satchmo“, eitt stærsta nafn í sögu jazz-tónlistar, kom til Íslands í febrúar árið 1965 og hélt ferna tónleika í Háskólabíói, 8. og 9. þess mánaðar. Það var knattspyrnudeild Víkings sem flutti Armstrong inn til landsins og skipulagði tónleikana. Vitaskuld var troðfullt á þá alla. Armstrong hafði verið í bransanum allt síðan á öðrum áratug seinustu aldar og þegar hann tróð upp á Íslandi var hann kominn vel á sjötugsaldur. Á þessum árum túraði hann stíft með hljómsveit sinni um víða veröld og gaf ennþá út plötur, mörg af hans frægustu verkum voru samin á þessum tíma. En aldurinn var farinn að segja til sín og það sást greinilega í Háskólabíói. Ráma röddin var ennþá til staðar og trompetleikurinn en hann þurfti að hvíla mikið og lét hljómsveit sína alfarið um nokkur lög. Armstrong, sem dvaldi á Hótel Sögu, var þó ánægður með viðtökurnar og Íslendinga. Hann sagði að það „væri mikill djass í þessu fólki“.
3. Metallica
Árið 2002 var Egilshöllin í Grafarvogi vígð og þar með var kominn góður vettvangur fyrir fjölmenna tónleika. Fyrstu tónleikarnir sem voru haldnir þar voru með amerísku þungarokksrisunum Metallica þann 4. júlí árið 2004. Metallica var stofnuð árið 1981 og á gríðarstóran og dyggan aðdáendahóp hér á landi eins og annar staðar. Það kom því ekki á óvart að 18 þúsund manns lögðu leið sína í Grafarvoginn til að líta goðin augum, Íslandsmet innanhúss sem stendur ennþá. Íslensku rokkhljómsveitirnar Brain Police og Mínus hituðu upp við góðar undirtektir. Allt ætlaði svo um koll að keyra þegar aðalnúmer kvöldsins stigu á sviðið. Metallica spiluðu 11 af sínum þekktustu lögum og voru svo klappaðir upp í tvígang og spiluðu hvorki meira né minna en 7 lög í viðbót. Eini skugginn á tónleikunum var sá að loftræstikerfi hallarinnar fór úr skorðum og þó nokkrir tónleikagestir áttu í erfiðleikum með andardrátt. Alls voru fjórir fluttir á slysadeild vegna þessa.
2. Rage Against the Machine
Fáar hljómsveitir hafa skotist jafn snöggt upp á stjörnusviðið og rappskotna rokksveitin Rage Against the Machine frá Los Angeles. Bandið var stofnað árið 1991 og ári seinna kom þeirra fyrsta plata út. Hún var sjálftitluð, seldist í bílförmum og þykir ennþá ein af bestu rokkplötum allra tíma. Hálfu ári eftir útgáfu plötunnar, þann 12. júní árið 1993, tróðu Rage Against the Machine upp í Kaplakrika en tónleikarnir voru liður í Listahátíð Hafnarfjarðar það árið. Um 4000 manns voru í húsinu, mikill hiti og hamagangur. Vinsælasta rokksveit Íslands, Jet Black Joe, hitaði upp og þegar RATM liðar stigu á svið trylltist allt og gæslan réði lítið við ungmenni sem reyndu að stökkva inn á sviðið til stjarnanna. Söngvarinn Zach de la Rocha kynnti undir hitann í húsinu með því að halda ræðu um Persaflóastríðið og að hleypa einum áhorfanda upp á sviðið. Fáir fóru sviknir heim eftir þetta kvöld og enginn þurr. Tónleikunum var svo sjónvarpað í heild sinni á RÚV.
1. Led Zeppelin
Breska rokksveitin Led Zeppelin kom hingað til lands og spilaði í Laugardalshöll þann 22. júní árið 1970. Þetta var stærsti viðburðurinn á fyrstu Listahátíðinni í Reykjavík. Zeppelin-liðar voru langt frá því rosknar rokkstjörnur, þeir voru kornungir og höfðu einungis gefið út tvær breiðskífur. En opnunarlagið á þeirri þriðju, Immigrant Song, var einmitt innblásið af dvöl þeirra á Íslandi. Led Zeppelin spiluðu átta lög og þar af fimm af annarri plötunni sem hét einfaldlega Led Zeppelin II og tókust tónleikarnir með afbrigðum vel. Á sjöunda áratugnum hófu erlendar rokksveitir að spila hér á landi. The Kinks spiluðu í Austurbæjarbíói 1965 og The Hollies í Háskólabíói ári seinna. Led Zeppelin voru þó af öðru kaliberi. Þeir voru á þessum tímapunkti ein stærsta hljómsveit heims. Margir biðu alla nóttina fyrir utan miðasöluna. Tónleikar Led Zeppelin eru sennilega einn stærsti tónlistarviðburður sem haldinn hefur verið hér á landi og þeir sem voru á þessum tónleikum stæra sig af því enn þann dag í dag.