Beyoncé breytir heiminum

áhrif dægurmenningar á alþjóðasamskipti

Beyoncé breytir heiminum

áhrif dægurmenningar á alþjóðasamskipti

skrifar um alþjóðastjórnmál
skrifar um alþjóðastjórnmál

Bandaríska tónlistarkonan Beyoncé gaf nýlega út hljómplötuna og myndbandsverkið Lemonade. Útgáfan hefur hlotið mikla athygli, ekki einungis vegna afburðahæfileika söngkonunnar á tónlistarsviðinu heldur einnig vegna framgöngu hennar og hispurslausrar umfjöllunar um viðkvæm mál. Þar fléttar hún saman réttindabaráttu kvenna og hjónabandserfiðleikum sínum og eiginmannsins, rapparans Jay Z. Platan er merkileg fyrir margra hluta sakir því Beyoncé, sem hefur verið ein skærasta stjarnan á popphimninum undanfarin ár, fer sínar eigin leiðir og storkar umheiminum – karlaheiminum – sér í lagi út frá stöðu svartra kvenna sem búa í raun við tvöfalda kúgun.

En hvernig kemur plötuútgáfa poppsöngkonu alþjóðasamskiptum við? Svarið liggur í þeim áhrifum sem felast í gjörningnum í heild sinni, sérstaklega textunum, en einnig allri framgöngu söngkonunnar. Hér er ekki lagt mat gæði og endanlegt gildi verksins en það má til sanns vegar færa að afleiðingar útgáfu sem þessarar gætir um allan heim, bæði meðal tugmilljóna aðdáenda, ungra kvenna og fólks almennt. Stóra spurningin er síðan hvernig verkið hefur áhrif á gjörðir þeirra sem fara með völd, stjórnvöld einstakra ríkja, stórfyrirtækja eða stofnanna samfélagsins, bæði með beinum og óbeinum hætti.

Listir og menning hafa alla tíð verið hluti af formlegum samskiptum milli ríkja og við þekkjum öll hugtakið menningarsamskipti. Forsetinn fer í opinbera heimsókn, það er sett upp íslensk menningarvika og haldnir tónleikar hér og myndlistarsýningar þar. Fyrirmenni og listaspírur lyfta glösum og borið er lof á djúp tengsl ríkjanna sem eigi sér rætur í menningararfinum.

Þetta er allt gott og blessað því strengjakvartett eða laufléttur aríusöngur léttir stemninguna í kokteilboðunum og greiðir jafnvel fyrir jákvæðum opinberum samskiptum. En þótt Obama dilli sér undir ljúfum tónum á tónleikum þeirra frábæru listamanna sem boðið er að spila í Hvíta húsinu er ekki þar með sagt að boðskapur þeirra hafi bein áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjamanna.

Frægt er atvikið þegar Ertha Kitt, sem þá var þekkt söngkona, sagði Lindy Bird Johnson forsetafrú Bandaríkjanna til syndanna vegna afleiðinga Víetnamsstríðsins á bandarísk ungmenni, í kvöldverðarboði í Hvíta húsinu. Eftir atvikið var fótunum kippt undan henni, hún missti útgáfusamninga og var í raun gerð útlæg. Þetta gerðist árið 1968 en áhugavert væri að sjá hvort Beyoncé kæmist upp með slíkt í dag. 

Tiltæki Erthu Kitt kann að hafa virst gagnslaus dónaskapur á sínum tíma sem kostaði hana listamannsferilinn en gæti að hafa verið fólki innblástur og haft langvarandi áhrif. Það er það mikilvæga; hvernig framkoma listamanna, bæði formleg menningartengsl og dægurmenning í öllum myndum (e. popular culture), kunna að hafa varanleg áhrif á fólk og samfélög og móta þar með alþjóðasamskipti. 

Fræðigreinin alþjóðasamskipti snýst einmitt um að skilja og skilgreina hegðun ríkja og annarra gerenda í alþjóðakerfinu í hvers kyns samskiptum þvert á landamæri. Þau geta varðað hin hefðbundnu ríkjasamskipti, viðskipti fyrirtækja, samskipti milli félagasamtaka, borga og jafnvel einstaklinga. Þarna skipar menning í stóru samhengi tiltekinn sess en þó hefur verið deilt um hversu mikil áhrif þættir eins og menning einstakra svæða og hópa hefur á hegðun ríkja út á við. 

Gera verður greinarmun á hugtakinu menningu í samhenginu um menningarheim – og menningu sem við notum um listir af ýmsum toga eða köllum dægurmenningu. Hér er þessu þó vísvitandi ruglað ögn saman, því mörkin geta verið óljós. Sérstaklega má benda á hvernig menning, eins og við notum hugtakið um listir, getur mótað það sem kalla mætti menningarheim, sjálfsmynd og afstöðu fólks – og valdhafa þar með.

Spice Girls-flokkurinn nauð gríðarlegra vinsælda í lok tíunda áratugs síðustu aldar. Þær birtu oftar en ekki myndir af sér sveipaðar breska fánanum.

Fyrr á tímum var vald og styrkur einstakra ríkja jafnan mælt í hernaðarmætti sem nýta mætti til landvinninga eða til að verjast hættum utan frá. Þá höfðu menn (karlmenn gjarnan) minni áhyggjur af því sem var að gerast innan ríkjanna. Eftir því sem leið á 20. öld, samfara hnattvæðingu, auknum mannréttindum og tækni, var meira farið að gera ráð fyrir fólkinu sem byggir ríkin, ekki eingöngu sem þiggjendum valds heldur sem þátttakendum og þar með áhrifavöldum. Jafnframt komu fram kenningar um að fólkið skipti ekki einungis máli og hefði áhrif á hegðun ríkisins sem það byggði, heldur gætu slík áhrif borist til annarra ríkja og svæða.

Hið mjúka vald: Menning og listir breyta heiminum

Þegar rokkið kom fram á sjónarsviðið á sjötta áratugnum gaf það tóninn í því sem kallað var unglingamenning næstu áratugina, þar sem samfélagið umbyltist á margan hátt. Vestræn dægurmenning, sér í lagi popptónlist, var jafnframt þyrnir í augum yfirvalda Ráðstjórnarríkjanna austan járntjaldsins. Bæði sú tónlist sem barst með óformlegum hætti til fólks en einnig var dægur- og djasstónlist notuð með kerfisbundnum hætti af bandarískum yfirvöldum til að grafa undan valdhöfum eystra og gera vestrið meira spennandi.

Bob Dylan á tónleikum.

Deilt er um áhrif menningar á hin hörðu öryggis- og varnarmál ríkja, því þar er vissulega um ýtrustu þjóðarhagsmuni að ræða sem tryggðir eru með vopnum og enginn annars bróðir í þeim leik. Hins vegar má spyrja hvar mörkin milli ófriðar og friðar liggi og svara jafnharðan að þar skipti mestu máli hvort ríki, ráðamenn og fólk, geti talað saman og menningarleg tengsl hljóti því að vera aðalatriðið.

Þetta getur gerst með beinum hætti þegar voldugur þjóðarleiðtogi hugsar sig tvisvar um hvort hann varpi sprengjum á fólkið sem hefur haft svo mikil áhrif á hann með fagurri listsköpun, bókmenntum, söng og hljóðfæraslætti. Jafnframt hefur þetta víðtækari skírskotun í langvinnum áhrifum sem verða til í tilteknum menningarheimum – hvort sem um er að ræða dægurlagatexta sem á þátt í að umbylta hugsunarhætti eða sögulegri menningu sem mótar þjóðarvitund á löngum tíma. 

Einhverjum gæti þótt þetta vera barnaleg einföldun því gjörðir ríkja muni ávallt miðast við að hámarka öryggi sem mest, þá með tiltækum hernaðarmætti eða einhverskonar hagsmunabandalagi. Á móti hefur verið nefnt það sem kallað er hið mjúka vald, þar sem ekki er treyst á ógnun eða umbun, heldur hegðun sem laðar að fólk, þjóðir eða ríki til að vilja fylgja viðkomandi að málum.

Hið mjúka vald getur t.d. birst í bandarískri dægurmenningu, því hvernig baráttusöngur bandarísks þjóðlagasöngvara eða tónlist og textar rokktónlistarmanna geta átt þátt í að móta hugarheim heilu kynslóðanna um heim allan. Um leið og slík tónlist blæs fólki baráttuanda í brjóst og gagnrýnir spillta valdhafa getur hún styrkt ímynd Bandaríkjanna sem lands tækifæranna –  þar með gert þau aðlaðandi og fært þeim það sem kalla má mjúkt vald.

Það er því ljóst að þegar Beyoncé stappar niður fætinum og bendir á kúgun kvenna hefur hún ekki einungis bein áhrif á milljónir aðdáenda um allan heim heldur skekkir hún gangverk tímans. Breytingarnar gerast kannski ekki samstundis en með tímanum fer áhrifanna að verða vart, allt í einu áttar fólk sig á því að tiltekin hegðun er ekki samþykkt, þeir sem marka stefnu vita að ekki þýðir að bjóða fólki lengur upp á það sem hefur þótt sjálfsagt og raunverulegar breytingar eiga sér stað, einnig þvert á landamæri.

Þegar lag, ljóð, bók, bíómynd eða leikverk afhjúpar veröldina, afléttir álögunum af því hvernig fólk sér heiminn, segir sögu eða endurspeglar hugsunarhátt, orðræðu eða venjur – þá áttar fólk sig gjarnan á því að ekkert er óumbreytanlegt, að lífið er bara tilbúin ímynd og verður þá frekar tilbúið til að breyta eða samþykkja breytingar.

List, hverju nafni sem hún nefnist, jarðtengir því fólk og bendir á það sem skiptir raunverulega máli. Hún hefur áhrif á hinn venjulega mann en það mikilvæga er: einnig valdhafa, þá sem taka ákvarðanir, ekki einungis um utanríkisstefnu, öryggis- og varnarmál, hvort farið er í stríð – heldur einnig um það hvort misrétti og kúgun eru liðin. Þess vegna eru listir og menning mikilvæg, þess vegna er Beyoncé mikilvæg.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None