Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum fyrir hönd íslenska ríkisins, neitar að gefa upp nákvæmlega hvaða aðila valnefnd lagði til að yrðu skipaðir í bankaráðs Landsbankans og stjórn Íslandsbanka. Ríkið á ríflega 98 prósent eignarhlut í Landsbankanum en allt hlutafé í Íslandsbanka. Forstjóri Bankasýslunnar, Jón Gunnar Jónsson, segir þó að þeir sem tilnefndir voru í stjórnirnar hafi komið frá valnefndinni, eins og lög gera ráð fyrir.
Samtals sóttu 221 um að fá að sitja í stjórnum fjármálafyrirtækja sem ríkið á að fullu eða að hluta og er með stjórnarmenn hjá, þegar Bankasýslan auglýsti eftir fólki, 19. mars, samkvæmt svari frá Bankasýslunni við fyrirspurn Kjarnans. Með varamönnum eru átján stjórnarmenn í stærstu bönkunum tveimur, Landbsbankanum og Íslandsbanka. Það eru aðeins um 8,1 prósent af þeim fjölda sem sóttist eftir stjórnarsetu. Má því segja að þau sem valin voru úr þessum stóra hópi séu hin útvöldu í þessu mikilvægu störf, sem stjórnir fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins hér á landi eru. Ríkið er nú með yfir 70 prósent markaðshlutdeild á fjármámarkaði.
Landsbankinn er stærsta fyrirtæki landsins, sé horft til eiginfjárstöðu, en í lok síðasta árs nam eiginfé bankans ríflega 260 milljörðum króna og hjá Íslandsbanka var það rúmlega 200 milljarðar.
Sigurður Þórðarson leiðir valnefnd
Ný valnefnd, sem starfar eftir lögum um Bankasýsluna, var komið á laggirnar tveimur dögum áður en auglýst var eftir stjórnarmönnum, eða 17. mars. „Með vísan til ákvæðis 7. gr. laga nr. 88/2009 um Bankasýslu ríkisins voru eftirtaldir einstaklingar skipaðir í valnefnd með bréfi dags. 11. mars sl. Þau eru, Auður Bjarnadóttir ráðgjafi hjá Capacent, Þórdís Ingadóttir dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og Sigurður Þórðarson fyrrverandi ríkisendurskoðandi, sem jafnframt er formaður nefndarinnar,“ sagði í frétt um skipan valnefndarinnar á vef Bankasýslunnar.
Umsóknarfresturinn til að sækjast eftir stjórnarstörfunum rann út 30. mars. Ljóst er því að valnefndin hefur þurft að hafa hraðar hendur, til að fara í gegnum 221 umsókn, og greina hvaða fólk var best til þess fallið að taka sæti í stjórn Landsbankans og Íslandsbanka.
Tæplega tveimur vikum eftir að umsóknarfresturinn rann út, var tilkynnt um hvaða fólk væri í framboði til setu í bankaráði Landsbankans og í stjórn Íslandsbanka. Kjöri bankaráðs Landsbankans var frestað, 14. apríl síðastliðinn, þar sem borgaryfirvöld fóru fram á að Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, myndi draga framboð sitt til setu í bankaráðinu til baka, þar sem slíkt myndi ekki samræmast annasömum störfum fyrir borgina. Birgir Björn gerði það, og fór svo, eftir að kosningu um nýtt bankaráð hafði verið frestað, að nýtt bankaráð var kosið á framhaldsaðalfundi 25. apríl.
Bankaráðið skipa Helga Björk Eiríksdóttir, formaður, Berglind Svavarsdóttir, Danielle Pamela Neben, Einar Þór Bjarnason, Hersir Sigurgeirsson, Jón Guðmann Pétursson og Magnús Pétursson.
Ný stjórn Íslandsbanka var formlega kosin 19. apríl. Sem aðalmenn voru tilnefnd Friðrik Sophusson, sem formaður, Árni Stefánsson, Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Hallgrímur Snorrason, Heiðrún Jónsdóttir og Helga Valfells.
Á að tryggja kynjajafnrétti og starfa eftir reglum
Samkvæmt fyrrgreindum lögum tilnefnir valnefndin einstaklinga fyrir hönd ríkisins sem rétt hafa til setu í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja á forræði stofnunarinnar. Valnefndin á að tryggja að í bankaráðum og stjórnum fjármálafyrirtækja sitji sem næst jafnmargar konur og karlar. Stjórn Bankasýslu ríkisins óskar hverju sinni formlega eftir tilnefningum valnefndar um stjórnarmenn fyrir stjórnarkjör í hlutaðeigandi bankaráðum eða stjórnum.
Samkvæmt lögum um Bankasýsluna þá er það stjórn Bankasýslunnar sem ræður ferðinni, þegar kemur að starfi valnefndarinnar. Stjórn Bankasýslu ríkisins skipa þau Lárus L. Blöndal, stjórnarformaður, Hulda Dóra Styrmisdóttir, varaformaður og Sigurjón Örn Þórsson. Hún setur nefndinni starfsreglur þar sem fram koma þau viðmið sem valnefndin styðst við í mati sínu á hæfni, menntun og reynslu einstaklinga sem til greina koma til setu í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja. Í þessum starfsreglum, sem birtar eru á vef Bankasýslunnar, kemur meðal annars fram að valnefndin skuli í hvert sinn tilnefna til Bankasýslu ríkisins tvo til þrjá einstaklinga fyrir „hvert sæti sem losnar í stjórnum eða bankaráðum.“
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir að eftir þessari leiðsögn frá valnefndinni undir leiðsögn Sigurðar hafi verið farið í þetta skiptið. „Valnefnd tilnefnir svo 2-3 einstaklinga og stjórn Bankasýslunnar velur svo úr þeim tilnefningum þá aðila sem kjörnir verða á aðalfundi viðkomandi fjármálafyrirtækis. Af þeim sökum hafa allir einstaklingar sem valdir hafa verið í stjórnir verið tilnefndir af valnefnd og það var einnig í þetta skipti,“ segir Jón Gunnar.
Að minnsta kosti tveir stjórnarmenn þurftu að gera breytingar á störfum sínum, eftir að þau samþykktu að bjóða sig fram í stjórn Íslandsbanka. Heiðrún Jónsdóttir var stjórnarformaður Íslenskra verðbréfa en hefur látið af því starfi og hefur Eiríkur S. Jóhannsson tekið við því. Ekki er heimilt samkvæmt íslenskum lögum að sitja í stjórnum tveggja fjármálafyrirtækja á sama tíma.
Auður Finnbogadóttir er hætt sem stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitti henni lausn frá setu í stjórn stofnunarinnar með bréfi sem dagsett var 18. apríl 2016. Daginn eftir, þann 19. apríl, var Auður kosin í stjórn Íslandsbanka.
Lögin um Bankasýslu ríkisins og valnefndina sem tilnefna á einstaklinga til setu í stjórnum, voru upphaflega sett til að tryggja að stjórnmálaflokkar færu ekki pólitískt að handvelja fólk inn í stjórnir bankanna.