Hagstofan tekur saman frumgögn um mannfjölda á Íslandi og upprunalegt þjóðerni fólks. Í gær birti Hagstofan upplýsingar um stöðu mála í byrjun apríl á þessu ári, eða í lok fyrsta ársfjórðungs.
1. Í lok 1. ársfjórðungs 2016 bjuggu 334.300 manns á Íslandi, 168.360 karlar og 165.930 konur og hafði landsmönnum fjölgað um 1.540 á ársfjórðungnum. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 214.740 manns en 119.560 utan höfuðborgarsvæðis.
2. Um 65 prósent landsmanna búa núna á höfuðborgarsvæðinu, eins og það er skilgreint hjá Hagstofunni, og 35 prósent á landsbyggðinni.
3. Á fyrstu þremur mánuðum ársins fæddust 980 börn, en 590 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust þúsund einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 110 umfram aðflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.110 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu.
4. Fjöldi fólks með íslenskt ríkisfang, sem flytur frá landinu, hefur verið töluvert meiri en sá fjöldi sem flytur til landsins, allt frá hruni. Sé horft til áranna 2009 til og með 2014 þá fluttu 7.212 einstaklingar með íslenskt ríkisfang frá landinu umfram aðflutta. Á sama tíma hefur straumur fólks með erlent ríkisfang verið stöðugur.
5. Hagstofan greinir ekki hvernig spekileki (braindrain) er úr hagkerfinu, það er hvaða starfsreynsla eða menntun er hjá þeim einstaklingum sem flytja til og frá landinu. Ástæðan er sú að Þjóðskrá gerir ekki kröfu um að fólk upplýsi um menntun sína eða starfsreynslu þegar það gefur upp upplýsingar vegna flutninga. Því er ekki vitað nákvæmlega hvað það er sem býr að baki flutningi í hvert og eitt skipti.
6. Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 190 manns á fyrstu þremur mánuðum ársins. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 460 íslenskir ríkisborgarar af 710 alls. Af þeim 540 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 130 manns.
7. Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (170), Noregi (150) og Svíþjóð (110), samtals 440 manns af 600. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 610 til landsins af alls 1.650 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst, en þaðan fluttust 100 erlendir ríkisborgarar til landsins.
8. Af heildarfjölda landsmanna í byrjun apríl, 334.300 manns, þá voru innflytjendur um 8,3 prósent af heildarfjöldanum, eða 27.660. Ef þróun mála verður með svipuðum hætti á næstu misserum, verða innflytjendur hér á landi um tíu prósent af heildarfjöldanum, í byrjun árs 2018.
9. Árið 2009, eftir hrun fjármálakerfisins og krónunnar, fluttu tæplega 5.000 manns frá Íslandi umfram aðflutta. Þar af voru 2.466 með íslenskt ríkisfang, umfram aðflutta, og 2.369 með erlent ríkisfang, umfram aðflutta. Þetta er stærsta brottflutningsár fólks frá Íslandi, sé horft yfir undanfarin 30 ár.
10. Samkvæmt svonefndri miðspá Hagstofu Íslands, þegar kemur að mannfjölda, er gert ráð fyrir að Íslendingar verði í heildina 377.699 árið 2030. Háspáin gerir ráð fyrir 402.489 en lágspáin 356.941. Sé miðað við lágspána, þá mun Íslendingum fjölga um 21.700 á næstu fjórtán árum.