Sjónvarpsáhorfendur hafa setið límdir við skjáinn og fylgst með svikamyllunum, ofbeldinu og óhugnaðinum sem birtist okkur í A Game of Thrones þáttaröðinni sem nú er á sínu sjötta ári. Fæstir gera sér þó grein fyrir því að þeir séu að fylgjast með alvöru persónum og atburðum úr mannkynssögunni. Áhorfendur geta þó hughreyst sig við það að uppvakningar og drekar eru undanskildir.
Ævintýrið verður til
George R.R. Martin er fæddur árið 1948 í New Jersey fylki í Bandaríkjunum. Hann hóf að skrifa hryllingssögur og vísindaskáldskap á áttunda áratugnum og náði snemma nokkrum vinsældum í þeim geira. Seint á níunda áratugnum datt hann þó úr tísku og beitti sér þá frekar á öðrum sviðum,svo sem handritaskrifum fyrir sjónvarpsþætti. Hann varð þó fljótt leiður á því og upp úr 1990 hóf hann að skrifa miðaldaskáldsögu sem hann hugðist nefna Avalon. Fljótlega áttaði hann sig þó á því að þetta yrði að vera miklu stærra verk. Verkið fékk titlinn A Song of Ice and Fire og árið 1996 kom út fyrsta bókin í seríunni, A Game of Thrones. Bókinni var vel tekið af gagnrýnendum og seldist sæmilega vel. Þremur árum seinna kom næsta bók út, A Clash of Kings og svo koll af kolli. Bækur Martins voru nú farnar að rjúka upp metsölulistana, jafnvel þó þær væru mjög langar og töluvert flóknar. Mikill áhugi var fyrir því að festa söguna á filmu en ljóst var að þetta gæti aldrei orðið kvikmynd, heimurinn var alltof stór og sagan of löng til þess. Árið 2007 keypti sjónvarpsstöðin HBO því réttinn til að framleiða sjónvarpsþætti og sýning þeirra hófst árið 2011. Vart þarf að minnast á vinsældir þáttanna sem vaxið hafa stöðugt með hverju árinu. Sögunni er ennþá ekki lokið. Enn eiga eftir að koma út a.m.k. tvær bækur og óvíst er hversu margar þáttaraðirnar verða.
Fyrirmyndir og áhrifavaldar George R.R. Martin koma víðs vegar að. Sem barn ólst hann upp á Tolkien og seinna meir á hryllings og vísindaskáldskap höfunda á borð við H.P. Lovecraft, Robert A. Heinlein og Isaac Asimov. Martin hefur verið kallaður „hinn nýji Tolkien“ eða „hinn ameríski Tolkien“ en hann er þó ekki hrifinn af slíkri nafngift. Vissulega eiga verk Tolkiens sinn þátt í að móta hugarheim Martins en í raun eru verkin eins og andstæður. Í heimi Tolkiens er allt klippt og skorið, það fer ekkert á milli mála hver er hetjan og hver óvinurinn. Þetta eru epísk hetjuverk. Í A Song of Ice and Fire er allt annað uppi á teningnum, þar eru aðeins örfáar persónur sem eru algerlega alslæmar eða algóðar. Samúð lesandans rokkar á milli persóna þar sem vantrausti og efa er sáð alls staðar. Bakstungur eru daglegt brauð og Martin hikar ekki við að taka lykilpersónur af lífi á sviplegan hátt og án aðvörunar. Þessar fyrirmyndir fékk hann ekki frá Tolkien eða öðrum rithöfundum 20. aldarinnar heldur úr mannkynssögunni. Hann lá yfir stórum rullum um miðaldasögu Englands, Frakklands og annarra landa. Hann rannsakaði klæðnað, burtreiðar, mataræði og annað til þess að hafa sem bestan skilning á tímabilinu. Einnig heimsótti hann Evrópu til að skoða miðaldakastala og aðrar minjar. A Song of Ice and Fire er fantasíuheimur með uppskálduðum nöfnum, drekum og galdri. En Martin fann sögusvið sitt í Englandi 15. aldar.
Bretlandseyjar – Westeros
Westeros er meginlandið þar sem bróðurparturinn af atburðum A Song of Ice and Fire gerast. Fyrirmyndin að Westeros er augljóslega Bretland á miðöldum, þ.e. tungumál, klæðnaður, menning o.sv.frv. En auk þess er landafræði meginlandsins byggð á Bretlandseyjum, þ.e. ef Írlandi er snúið í hálfhring og sett neðan við Bretland.
Rósastríðin
Rósastríðin í Englandi eru grundvöllurinn að A Song of Ice and Fire. Það voru deilur milli tveggja ætta sem báðar gerðu tilkall til ensku krúnunnar og brutust út í nokkrum stríðum á árunum 1455 til 1487. Annars vegar var það York ættin úr norðrinu (Stark) og hins vegar hin vellauðuga Lancaster ætt úr vestri (Lannister). Heiti stríðanna er seinni tíma tilbúningur. Hin hvíta rós Yorkshire var vissulega merki þeirrar ættar í stríðunum en hin rauða rós Lancaster var ekki notuð fyrr en seinna.
Ríkharður af York – Eddard Stark
Þriðji hertoginn af York var dyggur stuðningsmaður og ráðgjafi konungsins Hinriks VI af Lancaster. Hinrik var veikgeðja konungur sem átti við mikla geðræna kvilla að stríða og gat verið óstarfhæfur löngum stundum. Þegar konungur var frá var Ríkharður nefndur Verndari ríkisins (Hönd konungs) og sá um daglegan rekstur þess. Hann átti aftur á móti í deilum við drottninguna, Margréti af Anjou, og hersveitir þeirra lentu saman. Þær deilur enduðu með því að Ríkharður missti höfuðið.
Margrét af Anjou – Cersei Lannister
Hin franska drottning fyrirleit mann sinn Hinrik VI en var heltekin af börnum sínum. Hún var slóttug og miskunnarlaus og stýrði konungdæminu í raun um nokkurt skeið. Margrét var hrokafull, ósveigjanleg, illa liðin og tók ekki alltaf bestu ákvarðanirnar. En hún var þó stór leikmaður og andstæðingar hennar óttuðust hana.
Játvarður af Westminster – Joffrey Baratheon
„Þessi drengur, þó einungis þrettán ára að aldri, talar nú þegar um ekkert annað en að hálshöggva menn og heyja stríð.“ Þannig skrifar Giovanni Pietro Panicharolla, sendiherra frá Mílanó, árið 1467 um hinn unga krónprins Játvarð, son Hinriks VI konungs og Margrétar af Anjou. Fleiri frásagnir eru til af sadisma prinsins, jafnvel gagnvart eiginkonu sinni Önnu Neville (Sansa Stark). Játvarður var einnig sagður óskilgetinn og vangaveltur voru uppi um að faðir hans væri einhver af nánustu bandamönnum Margrétar eins og t.d. Beufort hertogi af Somerset. Prinsinn dó einungis 17 ára í orrustunni um Tewkesbury árið 1471 þar sem framgöngu hans hefur verið lýst sem mikilli ragmennsku.
Játvarður IV konungur – Robb Stark/Robert Baratheon
Játvarður var sonur Ríkharðs af York og einn öflugasti herforingi síns tíma. Eftir að faðir hans var drepinn var það í hans höndum að stýra York ættinni gegn konungi. Árið 1461 steypti hann Hinriki VI og var sjálfur krýndur. Játvarður sveik bandamann sinn Richard Neville (Walder Frey) um að giftast þeirri konu sem Neville hafði valið. Þess í stað giftist hann lágaðalskonunni Elísabetu Woodville (Talisa Stark) af ást. Þetta olli því að honum var steypt og Hinriki VI komið aftur til valda en það varði þó einungis í um hálft ár. Játvarður komst aftur til valda og stýrði Englandi í friði fyrir Lancaster ættinni næstu tólf árin. Seinustu árin var hann þó skugginn af sjálfum sér. Hann drakk mikið, fitnaði, stundaði hórmang og framkoma hans í hirðinni þótti ósæmileg. Hann dó einungis fertugur við stangveiði árið 1483.
Ríkharður III – Tyrion Lannister/Stannis Baratheon
Ríkharður er ein þekktasta persóna úr leikritum Williams Shakespeare. Enn þann dag í dag er hann þekktur sem kroppinbakurinn grimmi. Lítill, veikburða og vanskapaður. Shakespeare og aðrir sagnaritarar sem lutu Tudor ættinni ýktu þó stórlega fötlun höfuðandstæðings síns. Í raun var Ríkharður nokkuð réttlátur konungur, sem hafði hag þeirra verst settu fyrir brjósti og uppgröftur leifa hans árið 2012 í Leicester sýndu að mænufötlun hans var mun minni en áður var talið. Hann hefur alls ekki verið kroppinbakur. Ríkharður var af York ætt og afar trúr bróður sínum konunginum Játvarði IV. Þegar Játvarður lést lýsti hann þó tvo barnunga syni konungsins óskilgetna og tók sjálfur krúnuna.
Hinrik Tudor – Daenerys Targaryen
Hinrik beið lengi hinum megin við Ermasundið (The Narrow Sea) í útlegð í Frakklandi á meðan stríð og ringulreið gekk yfir heimaland hans England. Loks sigldi hann yfir sundið með her Frakka og Skota, fékk margar af helstu aðalsættum í Englandi á sitt band og sigraði Ríkharð III í bardaganum við Bosworth. Hinrik sigraði England undir fána drekans, þjóðartákni Wales þar sem hann fyrst lenti. Í kjölfarið var hann krýndur Hinrik VII Englandskonungur. Hann var af Lancaster ætt en giftist Elísabetu af York skömmu eftir valdatökuna og þar með sameinaði hann ættirnar tvær og lauk Rósastríðunum.
Heimur A Song of Ice and Fire er þó langt frá því bundinn við Rósastríðin. George R.R. Martin hefur notað margt annað úr sögu Bretlands og annarra ríkja í verkinu.
Játvarður I – Tywin Lannister
Játvarður I, kallaður Longshanks eða hinn hávaxni, réði Englandi í lok 13. aldar og er almennt talinn einn mesti harðstjóri í sögu landsins. Hann var valdagráðugur lét ekkert stöðva sig. Grimmd hans gegn t.d. Gyðingum og Skotum er vel þekkt og hann hreinlega hræddi samtímafólk sitt upp úr skónum. Honum var annt um ætt sína og arfleið en sonur hans, hinn veikgeðja Játvarður II, olli honum miklum vonbrigðum.
Anne og George Boleyn – Margaery og Loras Tyrell
Anne Boleyn var ensk aðalskona á fyrri hluta 16. aldar sem vingaðist við marga af helstu ráðamönnum Evrópu uns hún giftist Hinriki VIII Englandskonungi, hjónaband sem hleypti öllu í bál og brand. Á þessari vegferð sinni eignaðist hún marga óvini. Hún var náin bróður sínum George Boleyn, sem sumir telja að hafi verið samkynhneigður. Svo náin reyndar að þau voru sökuð um sifjaspell og tekin af lífi árið 1536.
Veggur Hadríanusar – Veggurinn
Rómarkeisarinn Hadríanus lét byggja vegg snemma á annarri öld þvert yfir norðurhluta Bretlands. Hlutar hans standa enn í dag, ekki langt frá landamærum Englands og Skotlands. Tilgangur veggsins var að verja svæðið sunnan veggsins fyrir innrásum Pikta og annarra villtra ættbálka (Wildlings).
Musterisriddarar – Næturverðirnir
Nokkurs konar blanda af riddara-og munkareglum, stundum kallaðir bardagamunkar. Voru fjölmennar og voldugar á miðöldum, sérstaklega í tengslum við krossferðirnar.
Meginlandið austan við Westeros kallast Essos og þar hefur Martin leyft sér að blanda ýmsu saman.
Ítölsk borgríki – Hinar frjálsu borgir
Vellauðug smáríki sem byggðu á verslun á Miðjarðarhafinu, t.d. Genóa, Písa, Feneyjar og Mílanó.
Hin gullna hjörð – Dothraki
Mongólar frá Asíu lögðu undir sig víðfemt svæði á 13. öld með leiftursókn. Ferðuðust um í stórum hópum á hestbaki og lögðu svæði í eyði.
Mamalúkar – Hinir óspilltu
Herir sem voru samsettir af þrælum í Miðausturlöndum á miðöldum. Voru notaðir til að berjast við og að lokum hrekja krossfarana út úr landinu helga fyrir botni Miðjarðarhafs.
Hringleikahús Rómarveldis – Bardagagryfjurnar
Hinir heimsþekktu leikvangar þar sem Rómverjar öttu saman skylmingaþrælum og rándýrum. Þar voru einnig sett á svið stórar orrustur úr sögu veldisins, jafnvel sjóorrustur.
George R. R. Martin hefur ekki einungis byggt ákveðnar persónur, hópa og staði á sögulegum fyrirmyndum. Hann hefur einnig byggt einstaka atriði á ákveðnum atburðum úr sögunni.
Hinn svarti kvöldverður/Glencoe morðin – Rauða brúðkaupið
Tvær af blóðugustu bakstungum sögunnar áttu sér stað í Skotlandi. Árið 1440 var Vilhjálmi jarli af Douglas sem þá var 16 ára og yngri bróður hans boðið til Edinborgarkastala til að snæða með konunginum, hinum 10 ára gamla Jakobi II. Douglas ættin var orðin valdamikil í landinu, of valdamikil að mati sumra. Douglas bræðurnir voru dregnir út úr miðri veislu og afhöfðaðir á staðnum. Svipað atvik átti sér stað 250 árum síðar í Glencoe í skosku hálöndunum. Það atvik tengdist deilum mótmælenda og kaþólikka í landinu. Um 40 mönnum af MacDonald ætt, seinustu ættinni sem ennþá studdi hinn kaþólska konung Jakob VII, voru drepnir í miðri veislu. Margir hverjir sofandi í rúmum sínum. Bæði þessi tilvik þóttu einhver svívirðilegustu eiðrof í skoskri sögu.
Yfirbót Jane Shore – Skammarganga Cersei
Jane Shore var frilla Játvarðar IV sem hélt einnig við aðra aðalsmenn eftir dauða hans. Ríkharði III var ákaflega í nöp við hana og sakaði hana um hórdóm, galdra o.fl. Hún var látin ganga í gegnum Lundúni berfætt og á nærklæðunum einum saman. Í fylgd hennar voru verðir og kirkjunnar menn sem sungu sálma á meðan niðurlægingunni stóð. Mikill fjöldi var samankominn til að fylgjast með.
Þetta eru aðeins örfá dæmi úr hinu mikla verki sem ennþá er í smíðum. Martin hefur aldrei hafnað því að nota sögulegar persónur og atburði við skrif sín. Þvert á móti lýsir hann sjálfur mörgum af fyrirmyndum sínum. Hann segir:
„Ég hef áhuga á fólkinu í mannkynssögunni. Það eru til svo margar æðislegar sögur um stríð, orrustur, tælingar, svik og kosti sem fólk velur. Svo margir hlutir sem erfitt er að skálda. En auðvitað skálda ég þetta ekki. Ég tek þetta og skafa af númer og nöfn, hækka allt upp í 11 og breyti litnum úr rauðum í fjólubláan og þá er ég kominn með gott atriði í bækurnar.“
Þessi atriði verða þó aldrei fullkomin afrit af fyrirmyndum sínum. Martin nýtur þess að blanda sögunni saman og stundum er erfitt að sjá nákvæmlega hverjar fyrirmyndirnar eru. Galdurinn við A Song of Ice and Fire er einmitt sá að verkið kemur stanslaust á óvart.