Hæstiréttur Danmerkur staðfesti á fimmtudag dóm Eystri- Landsréttar þess efnis að sígaunahöfðinginn Gimi Levakovic (sem ekki vill kalla sig roma) fái áfram að búa í Danmörku. Héraðsdómur hafði áður úrskurðað að Levakovic, sem er króatískur ríkisborgari, skyldi vísað úr landi að lokinni afplánun fangelsisdóms sem hann hlaut í fyrra, fyrir vopnaburð og líflátshótanir. Danskir stjórnmálamenn eru æfir vegna dómsins og stjórnin boðar lagabreytingar. Gimi Levakovic, sem er 46 ára og hefur búið í Danmörku frá tveggja ára aldri er heimavanur, ef svo má að orði komast, í dönskum réttarsölum og fangelsum því hann hefur tuttugu og sjö sinnum hlotið dóm fyrir ýmis konar afbrot og samtals setið í grjótinu í rúm átta ár. Bræður hans og aðrir ættingjar hafa líka verið tíðir gestir í réttarsölum og fangelsum.
„Kerfið” hefur ekki brugðist fjölskyldunni
Levakovic fjölskyldan, sem telur nú fleiri en fjörutíu manns, býr á Amager í Kaupmannhöfn og hefur gert frá því að hún kom sér þar fyrir með hrörlegt hjólhýsi árið 1972. Til að gera langa sögu stutta hefur enginn úr fjölskyldunni stundað launaða vinnu alla þessa áratugi en þegið um það bil jafngildi 1700 milljóna íslenskra króna frá danska ríkinu og þar að auki drýgt framfærslulífeyrinn með ránum og gripdeildum. Gimi Levakovic er höfuð ættarinnar og stjórnar öllu stóru og smáu. Þótt hann og fjölskyldan hafi lengi verið vel þekkt í ”danska kerfinu” einkum því félagslega, og svo dómskerfinu, var það þó fyrst eftir sýningu tveggja sjónvarpsþátta í janúar í fyrra að fjölskyldan varð þjóðþekkt. Danska þjóðin var vægast sagt undrandi á því að stór fjölskylda gæti áratugum saman þegið lífeyri úr sameiginlegum sjóðum landsmanna án þess að nokkur gerði athugasemdir. Margir stjórnmálamenn lýstu undrun sinni og töluðu um að óhjákvæmilegt væri að ”taka á málinu”.
Fangelsisdómar, brottvísun og ekki brottvísun
Héraðsdómur í Næstved á Sjálandi dæmdi í fyrra Gimi Levakovic í tólf mánaða fangelsi og að honum skyldi vísað úr landi að afplánun lokinni. Þeim dómi var áfrýjað til Eystri- Landsréttar sem sneri brottvísunardóminum við en lengdi fangelsisvistina um þrjá mánuði.
Þessi viðsnúningur vakti hörð viðbrögð og saksóknari sagðist ætla að freista þess að fá málinu skotið til Hæstaréttar. Sérstök úrskurðarnefnd fjallar um slíkar beiðnir og hún samþykkti að Hæstiréttur tæki málið til meðferðar. Hæstaréttardómurinn féll sl. fimmtudag og, einsog áður sagði, staðfesti hann úrskurð Eystri- Landsréttar. Gimi Levakovic fær því áfram að búa í Danmörku. Að baki þeirri niðurstöðu vega þau rök þyngst að Levakovic hafi nær alla ævi búið í Danmörku, þótt hann hafi aldrei verið danskur ríkisborgari, og hann eigi þar tvö ung börn, sem hann hafi forræði yfir. Eva Smith, lagaprófessor við Hafnarháskóla, sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að sú staðreynd að Levakovic eigi ung börn skipti mjög miklu í þessu samhengi. Hún benti líka á að þótt sakaferillinn sé langur sé þar fátt að finna sem talist geti mjög alvarlegt, á mælikvarða sakamála. Prófessorinn sagði að dómurinn hefði getað fallið á hvorn veginn sem var, en Hæstiréttur bersýnilega valið að fylgja þeirri stefnu sem Mannréttindadómstóllinn í Strassborg hefur markað. Ef stjórnmálamenn séu ósáttir við dóma Hæstaréttar í málum sem þessum þurfi danska þingið, Folketinget, að setja lög um túlkun Mannréttindasáttmálans. Slíkt hafi ekki verið gert.
Stjórnmálamenn mjög ósáttir við dóminn
Óhætt er að segja að dómsins hafi verið beðið með eftirvæntingu. Þegar hann lá fyrir létu viðbrögðin ekki á sér standa. Í dönskum fjölmiðlum hafa birst fjölmörg viðtöl við ráðherra og þingmenn sem nær allir eru mjög ósáttir við dóminn. Sumir þeirra gátu ekki leynt reiði sinni og sögðu Hæstarétt túlka lagarammann alltof veikt, brottvísun úr landi rúmist innan hans. Aðrir sögðu það fyrir neðan allar hellur að danska lagaumgjörðin skuli vera þannig úr garði gerð að ekki sé nokkur leið að vísa úr landi erlendum ríkisborgara, síbrotamanni, sem hefur kostað samfélagið milljónatugi. Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra sagði strax þegar dómurinn lá fyrir að stjórnin myndi á haustdögum leggja fram frumvarp sem tæki til mála af þessu tagi og Inger Stöjberg ráðherra innflytjendamála sagði í viðtali að það væri ólíðandi að Danir sætu uppi með menn eins og Gimi Levakovic. ”Það er ekki hægt að sætta sig við að ekki sé hægt að reka menn úr landi vegna þess að þeir eigi börn” sagði ráðherrann. Bæði þingmenn og ráðherrar lögðu áherslu á að dómur Hæstaréttar í máli Gimi Levakovic yrði virtur, en forsætisráðherrann sagðist vonast til að saga af þessu tagi ætti ekki eftir að endurtaka sig.
Vi elsker Danmark
Sonur og bróðursonur Gimi Levakovic voru viðstaddir dómsuppkvaðninguna. Þeir voru mjög ánægðir með niðurstöðuna en fámálir við fjölmiðlamenn. ”Vi elsker Danmark, tak Danmark” sagði annar þeirra þegar þeir stigu inn í bíl sinn fyrir utan dómhúsið.