Níu þingfundardagar eru eftir þar til þing fer í sumarfrí, að Eldhúsdeginum meðtöldum. Þing kemur saman á ný í ágúst þar sem gert hefur verið ráð fyrir 13 þingfundardögum, með öðrum Eldhúsdegi. Búist er við þingfrestun 2. september. Alls eru þetta þá 20 almennir þingfundardagar sem ákveðið hefur verið að setja á dagskrá þingsins á þessu síðasta kjörtímabili fyrir kosningar, samkvæmt nýendurskoðaðri starfsáætlun þingsins, og tveir Eldhúsdagar. Enn er ekki komin dagsetning á haustkosningar og ekki er vitað hvenær hún verður ákveðin. Forsætisráðherra er sá eini sem hefur vald til þess að rjúfa þing og þarf til þess leyfi frá forseta Íslands. Þingrof og stjórnarmyndunarviðræður verða því eitt af fyrstu verkefnum nýs forseta.
Gert ráð fyrir sumarfundum
Starfsáætlun þingsins var endurskoðuð í vikunni vegna fyrirhugaðra kosninga. Gert er ráð fyrir sumarfundum, en samkvæmt áætluninni verður síðasti þingfundur vorsins þann 2. júní og hefjast fundir svo á ný þann 15. ágúst. Vikuna eftir 2. júní taka við nefndardagar og síðan fer þing í sumarfrí. Þingmenn mæta á ný til nefnda eftir sumarið, dagana 10., 11. og 12. ágúst áður en þingfundir fara aftur á dagskrá.
LÍN, séreignasparnaður og Fæðingarorlofssjóður enn ekki komið
Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eru enn fjölmörg lagafrumvörp sem enn eru ekki komin inn í þingið. Alls eru það 14 frumvörp, frá öllum ráðherrum, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undanskildum. Öll hans mál eru komin til þingsins.
- Forsætisráðherra (1): Breytingar á stjórnarskránni.
- Félags- og húsnæðismálaráðherra (3): Almannatryggingar, Íbúðarlánasjóður og Fæðingarorlofssjóður.
- Fjármála- og efnahagsráðherra (4): Stöðugleikareikningar, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga, skattfrjáls úttekt á séreignasparnaði kaupenda íbúðarhúsnæðis og verðtryggingu og búnaðargjald.
- Innanríkisráðherra (2): Lögreglulög, meðferð kvartana og kærumála vegna starfa lögreglu, og umferðarlög varðandi gjaldtöku á bílastæðum.
- Mennta- og menningarmálaráðherra (2): Heildarlög um LÍN og lög um samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám.
- Umhverfis- og auðlindaráðherra (1): Timbur og timburvörur bíður einnig, sem og lög utanríkisráðherra um þjóðaröryggisráð.
Tíu mál ekki komin á dagskrá
Tíu stjórnarfrumvörp eru komin inn, en bíða samt enn fyrstu umræðu, þar á meðal lög um Umhverfisstofnun, Menningarminjar, siglingar og loftferðir. Ekkert af þessum tíu frumvörpum er komið á dagskrá, en áðurnefndu frumvarpi forsætisráðherra um menningarminjar var frestað. Þetta er eitt tveggja frumvarpa sem forsætisráðherra hefur lagt fram. Hitt var lög um notkun þjóðfána Íslendinga við markaðssetningu og hafa þau verið samþykkt.
Búið er að samþykkja 39 stjórnarfrumvörp á þessu löggjafarþingi, meðal annars almenn hegningarlög, lög um fjármálafyrirtæki, lög um húsnæðissamvinnufélög, náttúruverndarlög, heildarlög um opinber fjármál, lög um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, lög um stöðugleikaframlag, tekjuskjatt og fleiri skatta og gjöld.
Félagsíbúðir og gististaðir aftur í nefnd
36 mál ríkistjórnarinnar eru enn í nefnd eftir fyrstu umræðu. Þar á meðal eru lög um ársreikninga, búvörulög, heildarlög um fasteignalán til neytenda, lög um fjármálafyrirtæki, húsaleigulög, heildarlög um húsnæðisbætur, lög um skatta og gjöld, lög um Sjúkratryggingar, lög um staðgöngumæðrun, lög um vexti og verðtryggingu og lög um útlendinga.
Eitt mál bíður annarrar umræðu á Alþingi og það eru lög um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi á grundvelli handtökuskipunar.
Tvö frumvörp eru nú í nefnd eftir aðra umræðu á Alþingi: Lög um almennar félagsíbúðir, frá Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, og lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ólöf hefur vinninginn
Séu öll mál skoðuð eftir ráðherrum sést að Ólöf Nordal innanríkisráðherra er með flest mál, 26, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er með 20 og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, er með ellefu. Utanríkiráðherra og forsætisráðherra, sem skiptast á milli Gunnars Braga Sveinssonar og Lilju Alfreðsdóttur, og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar, eru með fæst mál, tvö á hvorn ráðherra.