Það sem þessi þrenning hér að ofan á sameiginlegt er líklega ekki margt annað en að hafa síðustu daga verið til umfjöllunar í dönskum fjölmiðlum. Ástæður þess að hún hefur ratað í miðlana eru jafn ólíkar og dagur og nótt. Þótt þeir Rasmus Klumpur og Sven Hazel séu mjög þekktir í Danmörku, eins og síðar verður rakið, hefur þó „negra“umræðan verið fyrirferðarmest í fjölmiðlunum.
Negri, svertingi, blökkumaður
Margir muna eflaust eftir að hafa séð og heyrt talað um fréttapistilsfyrirsögn í dagblaðinu Degi í febrúar 1977 „Negri í Þistilfirði“. Þetta þótti ekki gott, beinlínis niðurlægjandi, og líklega hefur blaðamaðurinn sem skrifaði pistilinn fengið duglega yfirhalningu hjá ritstjóranum. Á þessum tíma þótti skömminni skárra að nota orðið svertingi, síðar komu svo orðin blökkumaður og þeldökkur eða dökkur á hörund. Margir fá kannski vatn í munninn þegar minnst er á súkkulaðibollurnar, sem einu sinni voru kallaðar negrakossar. Þetta orð er enn í gömlum uppskriftabókum en ekki notað dags daglega og bollurnar kannski ekki framleiddar lengur á Íslandi.
Íslendingar eru ekki eina þjóðin sem hefur verið í vandræðum með þess konar orðanotkun. Í Bandaríkjunum hefur orðið „negro“ að mestu vikið fyrir orðinu „black“, svartur, í daglegu tali. Orðið „nigger“, sem áður fyrr var nokkuð algengt þar í landi þykir í dag niðrandi og niðurlægjandi. Þegar Barack Obama varð forseti Bandaríkjanna varð talsverð umræða um þessi mál þar vestra. Hann er afsprengi hins bandaríska fjölmenningarsamfélags, móðir hans hvít á hörund en faðirinn dökkur. Umræður um hörundslit forsetans hljóðnuðu smám saman sem eðlilegt má telja.
Orðið „negro“ hverfur úr bandarískum lögum og reglum
Síðastliðinn föstudag undirskrifaði Barack Obama lög um að orðið negro hverfi úr bandarískum lögum og reglugerðum. Í staðinn komi allmörg orð sem lýsi uppruna t.d. „African American“ (notað um þeldökka) „Asian American“ í stað „Oriental“ og „Alaska Native“ í stað „Eskimo“. Dönum þykir það sérkennileg tilviljun að þessi lagabreyting skuli verða á sama tíma og orðið „neger“ (negro) er fyrirferðarmikið í dönskum fjölmiðlum.
Auglýsingin með hvíta fólkinu og hundinum
Fyrir skömmu hóf Danski Þjóðarflokkurinn mikla auglýsingaherferð. Auglýsingaspjöld flokksins má víða sjá. Titillinn er: Vores Danmark og undir stendur „der er så meget vi skal passe på“ og svo merki flokksins. Á spjöldunum er líka mynd, þar má sjá átta „hvíta“ Dani og hund. Það er þessi mynd og textinn sem hafa vakið athygli og umræður. Og gagnrýni. Danski Þjóðarflokkurinn vill takmarka eins og mögulegt aðgang útlendinga að landinu, einkum þeirra sem ekki eru hvítir á hörund. „Danmörk fyrir Dani“ segir Danski Þjóðarflokkurinn gjarna, sumir kalla flokkinn þjóðrembu- eða jafnvel rasistaflokk.
Þegar Søren Espersen, þingmaður Danska Þjóðarflokksins og formaður utanríkismálanefndar þingsins (Folketinget) var spurður um hvernig á því stæði að á áðurnefndri mynd væri einungis „hvítt“ fólk sagði hann að það væri einungis tilviljun. „Við hefðum allt eins getað sett negra (neger) á myndina, hverju hefði það breytt?“ Þegar Søren Espersen var, í sjónvarpsviðtali, spurður nánar út í hvort honum þætti í lagi að nota orðið „neger“ sagðist hann ekki sjá neitt athugavert við það og bætti við, orðrétt „Tag sådan en som Obama – hvad er han? Vi ved godt hvad det drejer sig om. Man taler om den förste neger í USA’s præsidentsembede.“
Þingmaður breytti neger í nigger
Jeppe Kofod þingmaður sósíalademókrata á Evrópuþinginu sá ástæðu til að skrifa um þessi ummæli Søren Espersen á twitter síðu sinni. Hann sagði þar hinsvegar að Espersen hefði kallað Barack Obama „nigger“ og það væri „skandale“. Eins og allir vita berst allt sem á annað borð ratar inn á netið á augabragði um víða veröld, þar á meðal í Hvíta húsið í Washington. Þingmenn Danska Þjóðarflokksins urðu æfir og heimtuðu að Jeppe Kofod leiðrétti þessi skrif sín og bæði Søren Espersen afsökunar. Jafnframt var þess krafist að Mette Frederiksen formaður flokks Sosíaldemókrata setti ofan í við þingmanninn. Það hefur ekki gerst, ekki opinberlega að minnsta kosti. Danskir fjölmiðlar hafa harðlega gagnrýnt Jeppe Kofod, einn þeirra sagði að honum færi best að þegja og minnti á að árið 2008 hefði Jeppe Kofod gerst sekur um athæfi sem í Bandaríkjunum teldist nauðgun.
Søren Espersen hættir við Bandaríkjaferð vegna ummælanna
Utanríkismálanefnd danska þingsins, þar sem Søren Espersen gegnir formennsku, fer til Bandaríkjanna í haust til fundar við bandaríska þingmenn. Søren Espersen hefur tilkynnt að hann hyggist ekki fara þessa ferð. „Ég þekki Bandaríkjamenn og ég veit um hvað umræðurnar muni snúast. Ég vil ekki eyðileggja ferðina fyrir hinum nefndarmönnunum.“
Rasmus Klumpur
Rasmus Klumpur er, ásamt finnsku Múmínálfunum, þekktasta teiknimyndapersóna (eða fígúra) sem til hefur orðið á Norðurlöndunum. Hann birtist fyrst í dagblaðinu Berlingske Tidende í nóvember 1951, höfundarnir dönsk hjón, Carla og Vilhelm Hansen. Bækurnar um skapgóða björninn, í doppóttu buxunum og með bláu húfuna og sem veit ekkert betra í henni veröld en pönnukökur, hafa selst í tugmilljónatali og komið út á minnsta kosti þrjátíu tungumálum. Á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi kynnti danski kvikmyndaframleiðandinn Lars Sylvest nýja teiknimyndaseríu um Rasmus Klump.
Serían er ætluð til sýningar í sjónvarpi og í fyrstu verða gerðir 26 þættir, hver um sig 12 mínútur á lengd. Framleiðandinn stefnir þó að því að gera 100 þætti og vonast til að geta selt þá bæði austan hafs og vestan. Í viðtölum við danska blaðamenn í Cannes sagði Lars Sylvest að þegar gera ætti þætti sem ætlaðir væru til sýninga víða um heim væri að mörgu að hyggja. Það sem þætti sjálfsagt í einu landi væri kannski óboðlegt í öðru landi. Hann nefndi sem dæmi söguna um Rasmus Klump og Úrsúlu, í þeirri sögu vill hvalurinn, sem skip Rasmusar strandar á, ekki kafa. Hvalurinn gefur nefnilega frá sér hljóð sem er öðruvísi en hjá öðrum hvölum og þeir stríða honum. „Einelti“ sögðu fulltrúar stórrar bandarískrar sjónvarpsstöðvar „og það getum við ekki boðið bandarískum börnum uppá.“
Lars Sylvest sagði að breyta hefði þurft handritinu en hvalurinn væri enn á sínum stað. Annað dæmi nefndi hann. Rasmus Klumpur klæðist ætíð rauðum buxum með hvítum doppum, í Kína táknar þetta gæfu og heppni. Þar að auki er björninn lukkudýr Kínverja. „Þeir munu taka Rasmusi Klump opnum örmum“ sagði framleiðandinn. Danskir fjölmiðlar telja fullvíst að teiknimyndirnar um Rasmus Klump muni njóta vinsælda víða um heim. „Þótt danskar kvikmyndir séu nú orðnar vinsælar á alþjóðavettvangi hafa danskar teiknimyndir ekki enn hitt á töfraformúluna“ sagði blaðamaður Berlingske „en Rasmus Klumpur mun breyta því.“ Svo er bara að bíða og sjá.
Sven Hazel (eða Hassel)
Fyrir nokkrum dögum kom út í Danmörku bókin „Hersveit hinna fordæmdu“ eftir Sven Hazel. Þetta er ekki fyrsta útgáfa þessarar þekktu bókar, hún kom fyrst út árið 1959. Ef frá er talinn H.C. Andersen og kannski Jussi Adler-Olsen er Sven Hazel sá höfundur danskur sem mestum vinsældum hefur náð á alþjóðavettvangi. Bækur hans, 14 talsins, hafa selst í að minnsta kosti 53 milljónum eintaka. Þekktastar eru þær þrjár fyrstu, Hersveit hinna fordæmdu, sem kom út 1953, Dauðinn á skriðbeltum og Stríðsfélagar.
Sven Hazel, eða Hassel einsog hann kallaði sig líka, hét þó hvorugru þessara nafna, hans rétta nafn, eins og það stendur á skírnarvottorði var Börge Willy Redsted Pedersen, fæddur á Norður-Sjálandi 1917 og lést í Barcelona 2012. Þá hafði hann reyndar breytt nafni sínu að minnsta kosti tvisvar.
Af hverju vekur það athygli og umtal þótt þekkt bók sé endurútgefin?
Í kynningu á bókinni, sem forlagið Turbine gefur út, segir að Sven Hazel hafi barist á austurvígstöðvunum í síðari heimsstyrjöldinni og bækur sínar byggi hann á reynslu sinni úr stríðinu. Sá hængur er á þessari fullyrðingu að mikill vafi er talinn leika á að Sven Hazel, sem skrifar bækur sínar í fyrstu persónu, hafi nokkru sinni komið á vígstöðvarnar. Claus Bundgaard Christensen, sagnfræðingur sem rannsakað hefur sögu danskra nasista fullyrðir að Sven Hazel hafi verið vaktmaður hjá þýska hernum í Kaupmannahöfn nær öll stríðsárin og bækur hans byggðar á samtölum hans við þýska hermenn sem höfðu verið á austurvígstöðvunum. Sagnfræðingurinn undrast að forlagið Turbine skuli vilja leggja nafn sitt við Sven Hazel, án þess að nokkur grein sé gerð fyrir því að innihald bókarinnar sé hreinn skáldskapur sem lítið eigi skylt við raunveruleikann. Framkvæmdastjóri Turbine forlagsins segir að þótt tímarnir séu breyttir og bækur Sven Hazel ekki sagnfræði sé áhugi á bókum hans mikill og bókaforlag eigi ekki að setjast í dómarasæti. Það segi sína sögu að bækur Sven Hazel hafi selst í tugmilljónum eintaka.
Eins og áður sagði kom þessi nýja útgáfa Hersveitar hinna fordæmdu út í Danmörku fyrir nokkrum dögum. Hvort Danir flykkjast í bókabúðirnar til að krækja sér í eintak leiðir tíminn í ljós.