Fjörutíu frumvörp ríkisstjórnarinnar eru orðin að lögum á þessu þingi, en ríkisstjórnin hefur lagt fram 90 frumvörp á þinginu alls. Það þýðir að 44,4% frumvarpa hennar hafa verið samþykkt. Það er nokkuð hærra hlutfall en á sama tíma á síðasta þingi, þegar hlutfall samþykkra frumvarpa var rúmlega 35%, en þá höfðu samt fleiri frumvörp orðið að lögum en nú er, eða 42.
Þingi ætti að vera að ljúka miðað við upprunalega starfsáætlun þingsins fyrir veturinn, en eins og greint hefur verið frá verður þinginu frestað í byrjun júní en mun koma aftur saman í ágúst til að klára þetta þing áður en boðað verður til kosninga í haust. Atburðarásin í kringum Panamaskjölin og það að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hætti sem forsætisráðherra setti auðvitað strik í reikninginn hvað varðar afkastagetu þingsins, en fram að því hafði þessi þingvetur einnig verið afkastaminni hjá ríkisstjórn en verið hefur undanfarna áratugi, eins og Kjarninn hefur greint frá.
Fjöldi frumvarpa frá ríkisstjórn
Fjöldi samþykktra frumvarpa
Hlutfall samþykktra mála af heildarfjölda frumvarpa
Lengi rætt um hversu seint mál koma fram
Í mörg ár hefur verið rætt um það innan og utan þingsins hversu seint mörg stór frumvörp koma inn í þingið. Nú er staðan til að mynda þannig að enn eiga fjórtán frumvörp, sem ríkisstjórnin setti á forgangslista sinn yfir mál til að klára fyrir kosningar, eiga eftir að koma inn í þingið. Mörg frumvörp komu fram eftir að formlegur frestur til að leggja fram frumvörp rann út, þann 1. apríl síðastliðinn. Þannig er ástandið iðulega og misjafnt hverju kennt er um.
Fyrr í vetur vöktu bæði þingmenn í stjórn og stjórnarandstöðu athygli á því að skortur væri á þingmálum frá ríkisstjórninni. Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, vakti athygli á þessu í þinginu þann 10. nóvember síðastliðinn. Hún benti á að þingnefndir hefðu af þessum sökum lítið að gera og þingstörfin væru í uppnámi. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tók undir með henni, og flokkssystir hennar Heiða Kristín Helgadóttir líka. „Hér er fullt af fólki sem er tilbúið að vinna og það er miður að málin komi svo inn í þingið eftir tvær til þrjár vikur og þá séu þau afgreidd á einhverju hundavaði,“ sagði hún. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, benti á að tveir mánuðir væru liðnir af þinginu og þrír ráðherrar hefðu ekki skilað einu einasta þingmáli inn. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lagði til að nefndir væru í verkfall þangað til mál kæmu inn í þær. „Ég tek undir þá hvatningu til ráðherra að fara að koma fleiri málum hérna inn svo að við í þinginu getum tekið það hlutverk okkar alvarlega að vinna að málum vel,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins við umræðurnar.