Samkvæmt könnun Seðlabanka Íslands á verðbólguvæntingum markaðsaðila sem framkvæmd var í byrjun maí væntu þeir að verðbólga yrði 3,2% eftir eitt ár, sem er 0,2 prósentum meira en í síðustu könnun í febrúar síðastliðnum. Væntingar þeirra um ársverðbólgu eftir tvö ár námu 3,4% eða svipað og í febrúar. Verðbólguvæntingar þeirra til langs tíma hafa hækkað lítillega frá síðustu könnun en verið svipaðar undanfarið ár.
Þetta kemur fram í fundargerð Peningastefnunefndar Seðlabankans sem birt var í dag.
Í henni kemur jafnframt fram, að markaðsaðilar búist við að verðbólga verði að meðaltali 3,5% á næstu tíu árum sem er 0,2 prósentum hærra en þeir væntu í febrúar. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til fimm og tíu ára mælist heldur lægra en væntingar markaðsaðila og var að meðaltali um 3% í apríl eða svipað og verið hefur undanfarna mánuði.
Um þessar mundir mælist 1,6 prósent verðbólga, og hefur verðbólga nú haldist vel undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði í meira en ár. Kaupmáttur launa hefur aukist um 11,6 prósent að meðaltali á undanförnum tólf mánuðum.
Spár Seðlabankans um verðbólguskot í kjölfar kjarasamninga, hafa ekki gengið eftir, en Peningastefnunefnd hefur nefnt að þróun á erlendum mörkuðum hafi verið Íslandi hagfelld, ekki síst vegna lækkun á ýmsum hrávörum, sem svo leiði til lægri verðbólgu hér á landi.
Helsti áhrifaþáttur í apríl var hækkun húsnæðisliðarins ásamt hækkun bensínverðs. Einnig hafði hækkun matvöruverðs nokkur áhrif. Verð á símaþjónustu lækkaði í apríl sem og flestir tómstunda- og afþreyingarliðir. Verð almennrar þjónustu var á heildina litið óbreytt milli mánaða og hefur hækkað um 1,8% sl. tólf mánuði.
Peningastefnunefnd nefnir sérstaklega, að áhrif af afnámi tolla á fatnaði og skóm í
ársbyrjun hafa verið minni en vænta mátti en verð á þessum undirlið hefur einungis lækkað
um 3% á undanförnu ári, þrátt fyrir afnám tolla og gengishækkun krónunnar. Ljóst er að ástæðu
þess má að nokkru leyti rekja til hækkunar á innlendum kostnaðarþáttum undanfarið ár, segir í fundargerð nefndarinnar.
Í fundargerðinni segir að mikill kraftur sé einnig á innlendum vinnumarkaði. Heildarvinnustundum fjölgaði um 2,3% milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs. Atvinnuþátttaka mælist nú næstum 83 prósent þegar leiðrétt hefur verið fyrir árstíðarsveiflu og er orðin svipuð og hún var mest í byrjun árs 2007.
Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi mældist 3,1% á fjórðungnum. Atvinnuleysi er því líklega orðið minna en ætla má að samræmist verðstöðugleika en búist er við að það verði 3,3% á árinu í heild. Aðrar vísbendingar af vinnumarkaði hníga í sömu átt, segir nefndin. „Gert er ráð fyrir að heildarvinnustundum fjölgi um 3% í ár og eru horfur á meiri fjölgun á næsta ári í takt við bættar hagvaxtarhorfur. Hlutfall starfandi heldur áfram að hækka og nær hámarki í tæplega 81% á næsta ári en það fór hæst í 81,5% árið 2007. Áfram er gert ráð fyrir því að framleiðnivöxtur verði um 1% á ári að meðaltali á spátímanum. Er það nokkuð undir sögulegu meðaltali en í takt við meðalframleiðnivöxt síðastliðinna tíu ára,“ segir í fundargerðinni.