Danska lögreglan hefur ákært 27 ungmenni sem hafa notað fölsuð prófskírteini til að komast í háskólanám. Flestir hinna ákærðu eru útlendingar, búsettir í Danmörku.
Orðrómur um fölsuð lokaprófsskírteini úr framhaldsskóla hefur árum saman verið á kreiki í Danmörku. Lengst af voru slíkar sögur einungis kvittur sem hvorki fékkst sannaður né staðfestur. Árið 2013 uppgötvaði nefnd, sem fer með eftirlit háskólanáms, að 19 manns með fölsuð prófskírteini höfðu sótt um skólavist í dönskum háskólum. Undir venjulegum kringumstæðum væri um slík mál fjallað í samvinnu lögreglu, viðkomandi skóla og handhafa skírteinisins. Eftirlitsnefndinni þótti hinsvegar þessi 19 skírteini líkjast hvert öðru og það vakti grun um að þau hefðu verið gerð hjá hjá einum og sama „framleiðandanum“. Í framhaldi af þessu ákvað eftirlitsnefndin að kæra málið til lögreglu og jafnframt að framvegis yrðu öll slík mál kærð.
Flestir hinna ákærðu útlendingar
Fyrir nokkrum dögum ákærði lögreglan í Kaupmannahöfn 27 ungmenni vegna falskra prófskírteina. Lögreglan hefur upplýst að margir hinna ákærðu hafi ekki lokið framhaldsskólaprófi en í hópnum er líka fólk sem hafði lokið slíku prófi en með mun lægri einkunn en kom fram á „nýja“ skírteininu. Einkunn sem ekki dugir til að komast inn í danska háskóla,eða aðra sambærilega skóla, þar sem kröfur um einkunnir hafa verið hertar mjög á síðustu árum.
Árið 2015 sóttu tæplega 100 þúsund um skólavist
Í gögnum danska menntamálaráðuneytisins má sjá að á síðasta ári sóttu tæplega 100 þúsund manns um skólavist í dönskum háskólum og öðrum sambærilegum menntastofnunum í landinu. Af þessum hópi fengu um það bil 29 þúsund skólavist.
Algengasta aðferðin við að senda inn umsókn er að nota sérstaka vefsíðu, Optagelse.dk. Til þess að geta farið þessa leið þarf umsækjandinn að hafa danska kennitölu og auðkennislykil (Nem-id). Þá sækir viðkomandi skóli einkunnir umsækjandans í sérstakan einkunnabanka, þar sem framhaldsskólinn hefur fært þær inn. Þarna er engin leið að breyta einkunnum. Þessa aðferð notuðu um það bil 90 þúsund manns á síðasta ári.
Önnur leið til að sækja um skólavist er að senda inn gögn, annaðhvort sem skjöl á netinu, eða á pappír eins og lengstum tíðkaðist. Þessa leið notuðu um það bil 9 þúsund nemendur í fyrra, í langflestum tilvikum útlendingar sem ekki hafa danska kennitölu og þar af leiðandi ekki auðkennislykilinn Nem-id. Það er fólk úr þessum hópi sem lögreglan segir að hafi reynt að nota fölsk skírteini til að detta í lukkupottinn eins og fulltrúi lögreglunnar komst að orði.
Þrír taldir hafa útbúið fjölda falskra skírteina
Meðal þeirra 27 sem nú hafa verið ákærðir fyrir að nota fölsk skírteini til umsóknar um skólavist eru þrír sem lögreglan telur að hafi útbúið öll skírteinin. Algengasta aðferðin varðandi þá sem lokið hafa framhaldsskólaprófi er að einkunn sé breytt, hærri tala sett í stað lægri. Varðandi þá sem ekki hafa lokið prófi hafa falsararnir notað þá aðferð að breyta nafninu á skírteini nemanda sem útskrifast hefur með háar einkunnir á spjaldinu. Hvernig falsararnir hafa komist yfir slík skírteini vill lögreglan ekki tjá sig um.
Hvað kostar falsað útskriftarskírteini?
Lögreglan telur að falsararnir hafi viljað fá greiddar 20 þúsund danskar krónur (ca 380 þúsund íslenskar) fyrir hvert skírteini. Þeir hafi ekki í öllum tilvikum borið svo mikið úr býtum, sumum hafi tekist að prútta um verðið. Þetta teljast ekki háar upphæðir í „falsarabransanum“ að sögn lögreglu, sem ekki vildi nefna refsikröfur.
Eftirsóttustu skólarnir
Kröfur danskra háskóla til einkunna verðandi nýnema eru mismunandi. Þeir skólar sem mestar kröfur gera eru: Kaupmannahafnarháskóli, Copenhagen Business School, Copenhagen Business Academy og Professionshöjskolen Metropol. Þessir fjórir skera sig nokkuð úr hvað kröfur um einkunnir nýnema varðar. Aðrir skólar miða við lægri meðaleinkunn til inngöngu.
A og B skólar
Nokkrir danskir sérfræðingar um skólamál telja að hinar mismunandi inntökukröfur hafi í för með sér að danskir háskólar séu að breytast í það sem sérfræðingarnir kalla A og B skóla. Í hópi A skólanna séu þeir fjórir sem áður voru nefndir og Háskólinn í Árósum og Danski tækniháskólinn, DTU. Þetta telja sérfræðingarnir frekar slæma breytingu. Hætta sé á að háskólar þar sem nemendahópurinn er með lægri einkunnir úr framhaldsskóla geri minni kröfur til nemendanna. Þessi umræða er ekki sérdanskt fyrirbæri, þekkist til dæmis á Íslandi.
Skólarnir vilja fyrirbyggja svindl
Fréttir um ákærurnar á hendur ungmennunum hafa vakið talsverða athygli í Danmörku. Rektorar háskólanna og embættismenn danska menntamálaráðuneytisins eru sammála um að leita þurfi leiða til að tryggja að fólk geti ekki komist inn í háskólana á fölskum forsendum. Þeir sem komist þannig inn í háskólana hafi ekki það sem til þurfi til að ná árangri í náminu og gefist fljótlega upp. Alvarlegra sé þó að þeir sem fá skólavist út á fölsuð skilríki taki pláss frá öðrum sem undir eðlilegum kringumstæðum hefðu fengið inngöngu.