Danski þjóðarflokkurinn (DF) vill að Bertel Haarder menningarmálaráðherra Danmerkur boði sendiherra Kína í Kaupmannhöfn á sinn fund vegna afskipta hans af komu kínversks dansflokks til Danmerkur. Dansflokkurinn hélt tvær sýningar fyrir fullu húsi í Árósum í apríl.
Kínverski dansflokkurinn Shen Yun Performing Arts (SYPA) var stofnaður árið 2006 í New York. Stofnendurnir tengdust Falun Gong hreyfingunni, sem var bönnuð í Kína árið 1999 en Li Hongzhi stofnandi Falun Gong flutti til New York 1998. Kenningar Falun Gong eru runnar upp úr búddisma, taóisma, siðakenningum Konfúsíusar o.fl.
Í SYPA flokknum eru um það bil 200 dansarar. Þriðjungur hópsins er einskonar farandflokkur, ferðast víða um heim stóran hluta ársins og sýnir listir sínar. Forsvarsmenn SYPA hafa sagt að kínversk stjórnvöld hafi, allt frá stofnun flokksins, reynt að koma í veg fyrir sýningar hans. Fyrir nokkrum mánuðum var fjórum sýningum í Seoul í Suður-Kóreu skyndilega aflýst, án skýringa. Talsmaður SYPA segist sannfærður um að Kínverjar hafi beitt stjórnvöld í Suður-Kóreu þrýstingi.
Konunglega leikhúsið synjaði beiðni dansflokksins
SYPA flokkurinn hefur á undanförnum árum margoft reynt að ná samningum við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn um leigu á Óperunni eða gamla aðalsviðinu við Kóngsins Nýja-torg. Danskir umboðsmenn dansflokksins telja sig vita að kínverska sendiráðið hafi beitt sér og reynt að koma í veg fyrir sýningarnar. Marianne Jelved fyrrverandi menningarmálaráðherra krafði á sínum tíma stjórnendur Konunglega skýringa. Í svari leikhússins kom fram að Kínverjar hefðu ekki beitt hótunum en hins vegar hefði fulltrúum leikhússins, sem sáu sýningu SYPA í Berlín ekki þótt hún eiga erindi á svið Konunglega, hún væri ekki nægilega heilsteypt „af alt for svingende kvalitet.”
Sendiherrann skrifar bréf
Þegar kínverska sendiherranum í Kaupmannahöfn barst til eyrna að SYPA flokkurinn væri væntanlegur til Árósa skrifaði hann stjórnanda Tónlistarhússins. Í bréfinu sagði að Falun Gong berðist gegn samfélagslegum gildum og reyni, í þessu tilviki, að skaða samband Kína og Danmerkur. „Þið eruð vinsamlegast beðin að segja sannleikann, en ekki það sem ósatt er, og halda ykkur frá þessu svokallaða Shen Yun, sem er á vegum Falun Gong, þannig að þið verðið ekki verkfæri í höndum þeirra”.
Þingmenn Danska þjóðarflokksins vilja sendiherrann á teppið
Talsmaður Danska Þjóðarflokksins í menningarmálum, Alex Arendtsen sagði í blaðaviðtali að með skrifum sínum hefði kínverski sendiherrann farið „langt yfir strikið. Kínverjar hafa rétt á að segja skoðun sína en að þeir reyni að segja stjórnvöldum fyrir verkum er ekki hægt að líða.” Þingmaðurinn ætlar að fara fram á það við Bertel Haarder menningarmálaráðherra að hann kalli kínverska sendiherrann á sinn fund og geri honum grein fyrir að afskiptasemi af þessu tagi sé ekki umborin í Danmörku.
Húsfyllir í tvígang
Stjórnendur Tónlistarhússins í Árósum létu skrif sendiherrans sem vind um eyru þjóta. Dansflokkurinn sýndi tvisvar á stóra sviði Tónlistarhússins sem tekur um þrjú þúsund manns í sæti. Uppselt var á báðar sýningarnar.