Barack Obama, Bandaríkjaforseti, lét hafa eftir sér í viðtali í apríl að mestu mistök sem hann bæri ábyrgð á, í forsetatíð hans, fælust í því að hafa ekki undirbúið og skipulagt hernaðaraðgerðir betur í Líbíu, í kjölfar þess að Gaddafí var steypt af stóli, árið 2011. „Við – bandalagsþjóðirnar sem stóðum fyrir nauðsynlegum hernaðaraðgerðum – vorum ekki nægilega tilbúin fyrir daginn eftir Gaddafí,“ sagði Obama. Í kjölfarið á því að Gaddafí var drepinn, 20. október 2011, logaði landið í átökum og pólitískur glundroði var algjör. Þetta var ekki aðeins viðkvæmt út frá því að stríð væri að brjótast út, sem gæti smitast út í nágrannaríki, heldur einnig fyrir efnhagaslegt og pólitískt jafnvægi á svæðinu til lengri tíma.
Til einföldunar, þá óttast Obama að langan tíma til viðbótar – mörg ár – muni taka að koma efnahagslegum innviðum Líbíu í samt lag
Frakkar og Bretar bera mikla ábyrgð
Hernaðaraðgerðirnar í landinu, í kringum 20. október, voru fjölþjóðlegar en sérsveitir franska og breska hersins báru ábyrgð á kortlagningu aðgerða í kjölfar þess að Gaddafí var drepinn.
Þær áttu að miða að því að lágmarka stjórnleysið og koma í veg fyrir að öfgahópar gætu varanlega skotið rótum. Aðgerðirnar byggðust á tillögu Obama, sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti 17. mars 2011. Alþjóðasamfélagið ber því sameiginlega ábyrgð á þessum aðgerðum, þó Obama viðurkenni sjálfur að Bandaríkin beri mikla forystuábyrgð í aðgerðum sem þessum. „Aðgerðin var nauðsynleg, til að bjarga mannslífum, og það tókst, en það tókst ekki nægilega vel upp með framhaldið,“ sagði Obama.
Faldir sjóðir og ófriður
Faldir sjóðir Gaddafí upp á milljarða Bandaríkjadala, voru eitt helsta áhyggjuefnið. Þrátt fyrir að stór hluti þeirra hafi verið gerður upptækur með frystingu á bankareikningum, meðal annars í Sviss, London og Hong Kong, þá er talið að miklar fjárhæðir hafi komist undan til trúnaðarmanna Gaddafí, og þaðan flætt til öfgahópa, sem síðan hafa alið á ófriði og átökum, með miskunnarlausu ofbeldi. Meðal annars undir merkum íslamska ríkisins.
Glundroði í Líbíu, sem býr yfir olíuauðlindum, hefur átt sinn þátt í að magna upp átökin í Sýrlandi og einnig grafa undan gangi efnahagsmála á ákveðnum svæðum í Egyptalandi. Alsír, Túnis og Egyptaland eiga landamæri að Líbíu sem er staðsett á áhrifamiklu svæði, með tilliti til hernaðaraðgerða. Þó aðeins 6,2 milljónir manna búi í Líbýu, þá var stjórn á aðgerðum í Líbíu talin lykillinn að því að skipuleggja hernaðaraðgerðir vel í nágrannaríkjum, meðal annars í Sýrlandi.
Viðvarandi átök
Viðvarandi átök hafa verið í Írak, Sýrlandi, Afganistan og einnig í Norður-Afríku, þar sem Líbía er meðtalin. Í umfjöllun Foreign Policy, um aðgerðir í Líbíu, eftir að Gaddafí féll, segir að Bandaríkjaher hafi frestað því að þjálfa upp sex til átta þúsund manna herlið, árið 2014, skipað af heimamönnum. Þetta hafi ekki verið talið nauðsynlegt, en eftir því sem tíminn leið þá hafði komið í ljós að þetta hafi verið mikil mistök. Staðan hefði hratt breyst til hins verra í fyrra, og mikilvægi þess að ná stjórn á tilteknum svæðum í landinu, einkum nærri olíuauðlindum, flugvöllum og öðrum mikilvægum svæðum, hafi gert slæma stöðu hættulega og enn verri.
Þá hafi straumur flóttafólks í gegnum Líbíu, og þaðan yfir Miðjarðarhafið, verið mikill alveg síðan borgarstyrjöld í landinu braust út í Arabíska vorinu 2011. Þrátt fyrir allt, hafi ekki tekist að koma í veg fyrir að illa útbúnir bátar, með alltof marga innanborðs, leggi upp í för yfir hafið, oft með þeim skelfilegu afleiðingum að farþegar hafa drukknað, í þúsundatali yfir margra ára tímabil.
Þrátt fyrir að viðurkenna mistök í Líbíu, þá segir Obama að hernaðaríhlutun í landinu hafi verið nauðsynleg, og gert mikið gagn. En eftirfylgni í hernaði er flókin og erfið í framkvæmd, eins og dæmin sanna úr sögunni.