Staða efnahagsmála hefur gjörbreyst á tiltölulega skömmum tíma. Þar vegur uppgjörið vegna slitabúa föllnu bankanna þungt, en með því voru sjö þúsund milljarða skuldir þjóðarbússins erlendis þurrkaðar út, og ríkið fékk til sín miklar eignir, þar á meðal Íslandsbanka að fullu. Hagstofa Íslands birti hagspá í síðustu viku, þar sem fram kemur að gert sé ráð fyrir kröftugu hagvaxtarskeiði næstu fimm árin.
1. Á þessu ári gerir Hagstofa Íslands ráð fyrir 4,3 prósent hagvexti, miðað við árið í fyrra. Það er í sögulegu tilliti fremur mikill hagvöxtur. Á árinu 2017 er gert ráð fyrir 3,5 prósent hagvexti og árin 2018 til 2021, um þrjú prósent hagvexti á ári. Árleg landsframleiðsla Íslands var í fyrra um tvö þúsund milljarðar króna.
2. Mikill gangur verður í aukningu fjárfestingar, næstu tvö árin, samkvæmt spá Hagstofu Íslands. Á þessu ári eykst fjárfesting í hagkerfinu um sextán prósent. Þar vegur meðal annars þungt mikil fjárfesting í hótelbyggingum og iðnaði. Á næsta ári verður aukningin enn meiri, eða um sautján prósent. Þá er gert ráð fyrir mikilli fjárfestingu vegna uppbyggingar stóriðju, meðal annars á Bakka við Húsavík og í Helguvík. Á árunum 2018 til 2021 mun hún aukast minna, eða um tvö til fjögur prósent árlega.
3. En hvernig hefur staðan erlendis áhrif á Ísland? Undanfarin misseri hefur staða mála á alþjóðamörkuðum verið Íslandi um margt hagfelld. Frá árinu 2013 hefur hrávöruverð lækkað um þrjátíu prósent að meðaltali. Meginástæðan er almennur hægagangur í heimsbúskapnum, og minnkandi eftirspurn. Olíuverð hefur hækkað nokkuð undanfarna mánuði, eftir mikla lækkun árið þar á undan. Frá því í janúar og til dagsins í dag hefur hráolíutunnan farið úr 27 Bandaríkjadölum í 48 dali nú. Verðþróun á ýmsum hrávörum skiptir máli fyrir útflutning á Íslandi, og einnig fyrir verðþróun á innfluttum vörum á Íslandi.
4. Hagvöxturinn á Íslandi hefur breyst mikið á undanförnum árum. Ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega hratt. Árið 2010 komu innan við 500 þúsund ferðamenn til Íslands en því er spáð að þeir verði 1,6 milljónir í ár. Þetta hefur mikil áhrif á samsetningu hagvaxtar, sem er nú er mun útflutningsdrifnari en áður. Áframhaldandi vexti í ferðaþjónustu er spáð, og gera spár ráð fyrir því að fjöldi ferðamanna verði 2,2 milljónir á ári eftir tvö ár.
5. Ólíkt mörgum öðrum hrávörum, þá hefur verð á sjávarafurðum farið hækkandi á alþjóðamörkuðum, að meðaltali. Töluverður markaðsbrestur er þó víða, meðal annars í Nígeríu, sem er mikilvægur markaður fyrir þurrkaðar afurðir. Þar er gjaldeyrisskortur sem hefur hamlað viðskiptum. Heilt yfir er þó íslenskur sjávarútvegur á góðu róli, og hafa undanfarin ár verið bestu rekstrarár í sögu sjávarútvegsins.
6. Kaupmáttur ráðstöfunartekna, sem ræður mestu um svigrúm heimilanna til einkaneyslu, eykst sérstaklega mikið árin 2014–2018, samkvæmt spá Hagstofu Íslands. Miklar launahækkanir, lítil verð- bólga, gengisstyrking og skattalækkanir er allt þættir sem styðja aukna einkaneyslu. Þennan tíma er vöxtur einkaneyslu einnig mestur en gert er ráð fyrir að einkaneyslan hafi aukist um 4,8% árið 2015, aukist um 6% árið 2016 og 4,8% árið 2017, 3,6% árið 2018 en nærri 3% árlega árin 2019–2021. Verðbólga gæti aukist nokkuð á næstu árum, en hún mælist nú 1,7 pr´rósent
7. Á síðasta ári jókst atvinnuvegafjárfesting um 29,5 prósent. Þessi mikla aukning var á breiðum grunni þó fjárfestingar í tengslum við ferðaþjónustu hafi verið áberandi vegna hótelbygginga, innflutnings bílaleigubíla og fjárfestingar í flugvélum.
8. Atvinnuleysi er í lægstu lægðum, og hefur mælst tvö til þrjú prósent á síðustu misserum. Útlit er fyrir mikla vöntun á vinnuafli, á næstu árum og mun það ekki síst koma erlendis frá. Krefjandi verður fyrir mörg fyrirtæki að ná að ráða hæft starfsfólk, á þeim litla vinnumarkaði sem Ísland er. Um 200 þúsund eru á vinnumarkaði á Íslandi.
9. Íbúðafjárfesting reyndist talsvert minni árið 2015 en útlit var fyrir framan af síðasta ári. Líklegast er að byggingariðnaðurinn hafi að einhverju leiti beint kröftum sínum að byggingu atvinnuhúsnæðis, t.d. hótela og gististaða. Í spánni er nú gert ráð fyrir að íbúðafjárfesting verði nokkru meiri í ár en í fyrra og vöxturinn verði umtalsverður út spátímann. Yfirstandandi, fyrirliggjandi og áformuð íbúðaverkefni duga til að standa undir þeim vexti sem spáð er að minnsta kosti framan af, segir í hagspá Hagstofunnar. Áhrifin ferðaþjónustunnar á fasteignamarkað á höfuðborgarsvæðinu hafa verið töluverð, þar sem Airbnb og fleiri fyrirtæki, hafa verið áhrifamikil og leitt til þess að hátt í tvö þúsund íbúðir hafa farið af almennum markaði.
10. Gengi krónunnar getur styrkst nokkuð gagnvart helstu viðskiptamyntum á næstu misserum. Evran kostar nú um 140 krónur en gert er ráð fyrir því, meðal annars í hagspá Landsbankans og Íslandsbanka, sem birt var í morgun, að gengið geti styrkst nokkuð á næstu árum. Farið í átt að því að evran kosti 120 krónur á næstu tveimur árum.