Þrátt fyrir að um þrjú og hálft ár sé síðan að EFTA-dómstólinn hafnaði öllum kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Icesave-málinu svokallaða, að morgni dags þann 28. janúar 2013, er umræðum um málið síður en svo lokið. Samkvæmt leit Kjarnans í fjölmiðlavakt Creditinfo hefur það komið fyrir í alls 321 mismunandi fréttum það sem af er árinu 2016.
Á því hálfa ári sem liðið er af árinu 2016 hefur Icesave komið fram í fleiri fréttum en það gerði allt síðasta ár, þegar á málið var minnst í 291 slíkri. Raunar hefur verið oftar minnst á Icesave í ár en allt árið 2014 líka.
Árið 2016 á þó enn langt í land með því að ná Icesave-árinu mikla, árinu 2013, í fjölda frétta þar sem minnst var á málið. Á því ári voru alls gerðar 914 fréttir hjá íslenskum fjölmiðlum þar sem Icesave kom með einhverjum hætti fyrir.
Ástæða þess að Icesave hefur ratað svona sterkt inn í umræðuna að nýja hérlendis er auðvitað yfirstandandi kosningabarátta milli þeirra sem sækjast eftir því að verða næsti forseti Íslands. Sú barátta hefur oft snúist fyrst og síðast um afstöðu frambjóðenda til mismunandi Icesave-samninga. Þar hefur einn frambjóðandi, Davíð Oddsson, verið afar duglegur við að ásaka annan, Guðna Th. Jóhannesson, um að hafa ekki haft rétta afstöðu til þeirra.
Þorskastríðið snýr aftur
Forsetakosningarnar hafa líka snúist, að einhverju leyti, um afstöðu forsetaframbjóðenda til þorskastríðanna, sem stóðu yfir á árunum 1958 til 1976. Í yfirstandandi kosningabaráttu hefur Davíð einnig gagnrýnt Guðna fyrir skrif hans og ræður um þau.
Alls hafa þorskastríðin komið fyrir í 98 fréttum sem unnar hafa verið af íslenskum fjölmiðlum á þessu ári. Athygli vekur að 93 prósent þeirra frétta voru gerðar eftir að Davíð tilkynnti um framboð sitt til forseta í byrjun mars síðastliðins.
Það hafa verið fleiri fréttir gerðar á Íslandi þar sem minnst er á þorskastríð á síðustu tveimur mánuðum en voru gerðar samanlagt árin 2014 og 2015. Vert er að taka fram að 40 ár voru liðin frá því að síðasta þorskastríðinu lauk þann 1. júní síðastliðinn. Þau tímamót höfðu þó ekki afgerandi áhrif á fréttaskrif um málið. Þau hafa fyrst og síðast tengst forsetaslagnum.
Fávís kemst í tísku
Guðni Th. hefur einnig verið gagnrýndur harðlega, sérstaklega af Davíð, stuðningsmönnum hans og Morgunblaðinu, fyrir ummæli sem hann lét falla í fyrirlestri í Háskólanum við Bifröst árið 2013. Þar fjallaði hann um aðalátakamál forsetakosninganna 2016, þorskastríðin, Icesave og Evrópusambandið. Í fyrirlestrinum sagði Guðni Th: „„Jess, Íslandi allt og spurningin vaknar: Er fávís lýðurinn aftur að pródúsera „rangar“ sameiginlegar minningar? Og kemur enn til kasta okkar sagnfræðinganna því því er ekki að leyna í okkar hópi eru þeir til, og kannski er ég þar framarlega þó ég segi sjálfur frá, sem hafa lýst efasemdum um þessa sýn en vissulega aðrir tekið í sama streng.“
Í kjölfarið var athyglinni beint að ræðu sem Davíð Oddsson hélt árið 2002, þegar til stóð að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Þá sagði Davíð: „Það hlutverk Þjóðhagsstofnunar, að uppfræða fávísan eða fyrirtæki og félög, hefur gjörbreyst.“
Alls hefur verið talað um einhverja sem eru fávísir 59 sinnum í íslenskum fjölmiðlum á þessu ári, þar af 43 sinnum á síðustu þremur mánuðum. Orðið fávís hefur því, í einhverri mynd, komið oftar fyrir í fréttum íslenskra fjölmiðla það sem af er árinu 2016 en það gerði þorra ársins 2013, og öll árin 2014 og 2015 samanlagt.