Íslenskir eigendur Domino's Pizza hérlendis fá 20 milljónir punda, um þrjá og hálfan milljarð króna fyrir þann 49 prósent hlut í móðurfélagi keðjunnar sem seld hefur verið til Domino's Pizza Group í Bretlandi. Íslenska félagið, Pizza-Pizza ehf. á allan rekstur Domino's á Íslandi auk þess sem það er með sérleyfi fyrir rekstri pítsakeðjunnar í Noregi og Danmörku. Íslenska félagið á 51 prósent í þeim félögum á móti öðrum fjárfestum.
Auk kaupanna í Pizza-Pizza hefur Domino's Pizza Group keypt 20 prósent hlut í norska rekstrarfélaginu á um fjórar milljónir punda, tæplega 500 milljónir króna, af norsku fjárfestum. Heildarfjárfesting breska félagsins í rekstri Domino's pítsustaða í meirihlutaeigu Íslendinga nemur því um fjórum milljörðum króna.
Birgir Bieltvedt, stjórnarformaður Domino's á Íslandi og stærsti einstaki eigandi móðurfélags þess, segir að hann verði áfram stærsti eigandi félagsins og starfandi stjórnarformaður eftir viðskiptin. Breska Domino´s fær þó kauprétt í viðskiptunum og núverandi meirihlutaeigendur sölurétt. Því getur vel farið svo að Domino's á Íslandi verði að öllu leyti í breskri eigu í náinni framtíð.
Keyptu á 210 milljónir og tóku yfir skuldir
Birgir keypti, ásamt vinum og fjölskyldu Pizza-Pizza ehf., sem rekur Domino's Pizza á Íslandi, árið 2011. Samkvæmt tilkynningu frá Landsbankanum, sem seldi fyrirtækið, var kaupverðið 210 milljónir króna auk þess sem nýir eigendur tóku yfir 350 milljón króna skuldir fyrirtækisins.
Birgir hafði áður komið að rekstri Domino's, en hann var upphafsmaður fyrirtækisins hérlendis árið 1993. Eftir að hafa hætt þar störfum 1996 keypti Birgir sig aftur inn 2004. Ári síðar, 2005, keypti Magnús Kristinsson Domino's á 1.100 milljónir króna. Þaðan rataði fyrirtækið í hendur Landsbankans eftir bankahrun, en bankinn tapaði einum og hálfum milljarði króna á lánveitingum sínum til kaupa á pítsakeðjunni.
Vinsælasti veitingastaður á Íslandi
Rekstur Domino's hefur, svo vægt sé til orða tekið, gengið frábærlega á undanförnum árum. Pizza-Pizza ehf. rekur alls 19 pítsustaði á landinu öllu. Á árunum 2012 til 2014 var hagnaður af rekstrinum samtals 494 milljónir króna. Velta félagsins á árinu 2014 var 3,3 milljarðar króna og samkvæmt upplýsingum frá því jókst hún um 20 prósent til viðbótar í fyrra.
Samkvæmt tölum frá Meninga er Domino's enda vinsælasti veitingastaður landsins. Nítján þúsund Meniganotendur fengu sér Domino's pítsu árið 2015. Þetta þýðir að um 81 prósent þeirra sem versluðu sér tilbúinn mat versluðu einu sinni eða oftar við Domino´s.
Í mars síðastliðnum keypti framtakssjóðurinn EDDA, sem er rekinn af Virðingu en er í eigu lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta, fjórðurshlut í Domino's á Íslandi. Aðrir eigendur félagsins í dag eru Birgir Þór Bieltvedt og eiginkona hans Eygló Björk Kjartansdóttir, sem einnig situr í stjórn móðurfélagins, Högni Sigurðsson, Birgir Ö. Birgisson framkvæmdastjóri og nokkrir aðrir lykilstjórnendur Domino‘s á Íslandi. Kaupverðið var ekki gefið upp.
Í útrás til Norðurlanda
Pizza-Pizza ehf. rekur ekki bara Domino's staði á Íslandi. Félagið er með sérleyfi fyrir rekstri slíkra í Noregi og Svíþjóð og hefur farið inn á Noregsmarkað af miklum krafti undanfarið ár. Það rekur nú tíu staði þar í landi og ætlar sér að opna slíka í Svíþjóð og Færeyjum. Markaðurinn fyrir pítsur í þeim löndum telst óþroskaður í samanburði við aðrar markaði í sambærilegum löndum og því hafa þótt mikil sóknartækifæri þar.
Þessi útrás, og möguleikarnir sem taldir eru vera í henni, er ein ástæða þess að Domino's Pizza Group, sem skráð er í bresku kauphöllina, metið á 315 milljarða króna og rekur um 900 pítsastaði í Bretlandi, ákvað að fjárfesta í Domino's á Íslandi.
Birgir segir að með fjárfestingunni sé breska félagið vissulega að taka þátt í fyrirhugaðri útrás á Norðurlöndunum. En hann segir það líka vera að fjárfesta í mannauðnum sem sé til staðar hjá Domino's á Íslandi. Reksturinn hérlendis sé mjög þekktur innan Domino's samstæðunnar í heiminum og árangurinn sem hér hefur náðst hafi vakið verðskuldaða athygli. Þar vísar hann meðal annars til þess hversu vel hefur gengið að koma út Domino's appinu og fjölga stafrænum pöntunum og vinsælda hinnar íslensku Megaviku fyrirtækisins.
Hagnast vel á aðkomu sinni
Ljóst er að íslensku eigendurnir sem eru að hlut í Domino's á Íslandi eru að hagnast ákaflega vel á aðkomu sinni að félaginu. Miðað við söluverðið er heildarvirði móðurfélags Domino's hérlendis rúmlega sjö milljarðar króna.
Í fréttatilkynningu sem send var út vegna kaupa Domino's Pizza Group í íslenska móðurfélaginu er enda haft eftir Hannesi Frímanni Hrólfssyni, forstjóra Virðingar sem stýrir EDDU-sjóðnum sem keypti sig inn fyrir rúmu ári, að sú „frábæra ávöxtun sem EDDA innleysir með sölu á hluta af sinni eign í Domino's á Íslandi til breska félagsins sýnir að það var góð ákvörðun hjá sjóðnum að koma þarna inn í fyrra.“