Stjórnmálaflokkar sem teljast þjóðernispópúlískir spretta upp eins og gorkúlur víða í Evrópu og ná fylgi sem hefði talist óhugsandi fyrir aðeins örfáum árum. Andstaða þeirra gegn innflytjendum og hælisleitendum frá múslimaríkjum er það sem hæst ber í umræðunni og miðað við fjölmiðlaumfjöllun mætti halda að það væri þeirra eina stefnumál. Dæmin sýna þó að fordómarnir eru alls ekki bundnir við múslima. Þetta ristir mun dýpra en það.
Þjóðernispópúlismi
Kynþáttahatur og fordómar gegn minnihlutahópum er ekkert nýtt af nálinni í sögu Evrópu. Eftir hildarleik seinni heimstyrjaldarinnar og endalok nýlendutímans virtist þó sem slíkar kenndir væru á undanhaldi í álfunni. Á sjöunda áratugnum fleygði kvenréttindabaráttunni fram og seinna fór samkynhneigð að verða almennt viðurkennd sem eðlilegur hlutur. Með tækniframförum, aukinni menntun og velmegun varð samfélagið opnara og blandaðra. Stjórnmálaflokkar sem boðuðu andúð á útlendingum og fyrirlitningu á minnihlutahópum voru utangarðs og náðu litlu sem engu fylgi.
Kynþáttahatur birtist helst í mjög fámennum hópi krúnurakaðra nýnasista og knattspyrnubullna, nokkurs konar úrhök samfélagsins sem virtust frekar vera að leita sér að slagsmálum en að berjast fyrir einnhverri pólitískri hugsjón. Upp úr aldamótunum fór þetta að breytast. Flokkar sem áður höfðu talist öfgamenn og algerlega óstjórntækir eru nú komnir í eldlínu evrópskra stjórnmála. Þetta er mikið til vegna hinnar svokölluðu boots to suits (úr stígvélum í spariföt) stefnu, þ.e. hvernig flokkarnir hafa mildað ásjónu sína, lagt af ofbeldis og skemmdarverk, og losað sig við mestu öfgamennina. Efnahagshrunið árið 2008 og flóttamannastraumur vegna stríðsins í Sýrlandi hafa virkað eins og vatn á myllu þessara flokka. Þeir hafa nú víða fjölmarga kjörna fulltrúa á þjóðþingum, í sveitarstjórnum og á Evrópuþinginu. Sums staðar, t.d. í Noregi og Austurríki, hafa flokkar sem nú eru kallaðir þjóðernispópúlískir komist í ríkisstjórnir. Háværust er andstaða þeirra við múslima og þá sér í lagi innflytjendur og flóttamenn af þeirri trú, þ.e. Íslamófóbía. Stjórnmálaleiðtogar slíkra flokka hafa þó alið á fordómum í garð ýmissa annarra hópa á seinustu árum.
Gyðingar
Gyðingar voru fjölmennir í Evrópu á fyrri öldum en sá hópur hefur löngum átt undir högg að sækja. Á miðöldum lentu þeir iðulega í ofsóknum og jafnvel fjöldamorðum, svokölluðum pogrom. Í seinni heimstyrjöldinni var um 2/3 þeirra útrýmt á skipulagðan hátt, samanlagt um 6 milljónum. Í dag er áætlað að gyðingar í Evrópu séu um 2 milljónir. Stækasta gyðingahatrið í dag birtist í Ungverjalandi þar sem óvenju margir gyðingar búa, tæplega 50 þúsund talsins. Liðsmenn þriðja stærsta stjórnmálaflokks landins, Jobbik, hafa gengið þar fremstir í flokki. Varaþingflokksformaður flokksins, Marton Gyöngyösi, fullyrti að það stafaði ógn af gyðingum á ungverska þinginu og í ungversku ríkisstjórninni. Judit Szima, Evrópuframbjóðandi flokksins studdi vopnaða baráttu gegn gyðingum og núverandi Evrópuþingmaður flokksins skrifaði á netinu:
“Ég væri glöð ef hinir svokölluðu stoltu ungversku gyðingar færu aftur að leika sér að sínum litlu umskornu limum í stað þess að gera Grýlu úr mér.”
Jobbik-liðar hafa notað myndmál nasismans, búninga og fleira, og hafa haldið á lofti nafni Miklos Horthy, leiðtoga Ungverjalands í seinni heimstyrjöldinni og náins samverkamanns Adolfs Hitlers. Annar flokkur sem leitar í þennan sama brunn er Gullin Dögun í Grikklandi. Sá flokkur er hreinræktaður nýnasistaflokkur og liðsmenn hans hafa ítrekað beitt ofbeldi og valdið usla. Andstaðan þar við gyðinga er töluverð þó að þeir séu innan við 5000 í landinu. Gyðingahatur kemur víða annars staðar fram hjá stjórnmálaleiðtogum Evrópu. Jean Marie le Pen, stofnandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, sagði að helförin væri smáatriði í sögunni og Björn Söder, fyrrum þingflokksformaður Svíþjóðardemókrata, sagði að gyðingar sem ekki afneituðu gyðinglegri sjálfsmynd sinni gætu aldrei orðið eiginlegir Svíar.
Roma fólk
Roma fólkið á rætur sínar að rekja til Indlands en stærstur hluti þess býr nú í Evrópu. Fólksfjöldinn er óljós þar sem skráning er misjöfn milli landa en áætlað er að hann sé um 10 milljónir í álfunni. Flest býr Roma fólkið á Balkansakaga, þá sérstaklega í Rúmeníu og Búlgaríu, en einnig er töluverður fjöldi á Spáni og í Frakklandi. Roma fólk hefur verið utangarðs í gegnum tíðina og mikið á flakki. Það hefur yfirleitt mætt fyrirlitningu annarra íbúa og títt verið uppnefnd sígaunar. Sú mýta að Roma fólk sé þjófótt og óheiðarlegt er lífseig í hugum fólks og stjórnmálaleiðtogar í þjóðernispópúlískum flokkum hafa verið duglegir að halda henni á lofti. Gabor Vona, leiðtogi Jobbik flokksins í Ungverjalandi sagði t.d.:
„Við verðum að snúa við þessum hundruð þúsunda Roma útlaga. Við megum ekki sýna neitt umburðarlyndi gagnvart glæpum og sníkjulífi Roma fólks.”
Félagi hans, þingmaðurinn Elod Novak, sagði einnig nýverið að fjöldi Roma fólks væri stærsta vandamál Ungverjalands. Volen Siderov, leiðtogi Ataka flokksins í Búlgaríu segir að Búlgörum sé slátrað og nauðgað af “sígaunagengjum”. Í auglýsingabæklingi frá Marian Kotleba, leiðtoga slóvaska flokksins Okkar Slóvakíu, er talað um “sígauna sníkjudýr”. Jean Marie le Pen, stofnandi frönsku Þjóðfylkingarinnar sagði að þegar Rúmeníu og Búlgaríu væri hleypt inn í Evrópusambandið myndi Roma fólk flæða yfir Evrópu með sína illa þefjandi nærveru og það væri í eðli þeirra að stela. Landi hans, þingmaðurinn Gilles Bourdouleix, komst í fréttirnar fyrir að segja að Hitler hafi ekki drepið nógu mikið af Roma fólki. Um 100 til 200 þúsund Roma fólks fórst í helförinni.
Samkynhneigðir
Við lifum á tímum þar sem samkynhneigt fólk hefur náð fram umtalsverðum mannréttindum og jafnrétti. Ört bætast ríki á þann lista sem heimila giftingar samkynhneigðra, þá sérstaklega í Vestur-Evrópu. Uppgangur þjóðernispópúlískra flokka er þó töluvert bakslag í þá baráttu því að þeir flokkar berjast nær undantekningalaust gegn réttindum samkynhneigðra og fyrir hina hefðbundnu kjarnafjölskyldu. Undir niðri kraumar mikil hómófóbía eins og ummæli ýmissa leiðtoga þeirra sýna. Pentti Oinonen, þingmaður Sannra Finna, neitaði að mæta á dansleik í forsetahöllinni á þjóðhátíðardaginn þar sem þar yrðu samkynhneigt fólk. Ef hann yrði forseti fengju „hommatittir” ekki að dansa í höllinni. Félagi hans úr Sönnum Finnum, þingmaðurinn Teuvo Hakkarainen, sagði að ef „hommatittir” eignuðust börn yrðu þau „tvöfaldir hommatittir”. Björn Söder þingmaður Svíþjóðardemókrata sagði í bloggfærslu sinni í tenglsum við Gay Pride gönguna:
„Af hverju ætti normalíseringin að enda með lesbísku, samkynhneigðu, tvíkynhneigðu og transgender fólki? Við gætum alveg eins normalíserað fólk sem fremur dýraníð og barnaníðinga? Þessi kynferðislega brenglun er ekki eðlileg og mun aldrei verða eðlileg. Eðlilegt er það sem við vorum sköpuð til að gera, þ.e. að geta afkvæmi og koma ættarnafni okkar áfram.”
Árið 2012 reyndi Jobbik flokkurinn að koma í gegn breytingu á ungversku stjórnarskránni sem bannaði útbreiðslu á „kynferðislegri brenglun”. Samkynhneigð var þar sett undir sama hatt og barnaníð. Flokksmenn töldu rétt að viðurlögin við slíkri útbreiðslu yrði á bilinu 3 til 5 ára fangelsisdómur.
Húðlitur
Fordómar og mismunun á grundvelli húðlitar er eitt elsta og augljósasta form rasisma. Hið mismikla magn melaníns í húð manna hefur valdið ótrúlegri sundrungu, ánauð og ofbeldi í gegnum tíðina. Helst hefur það bitnað á þeim sem hafa meira magn melaníns í húðinni og þar af leiðandi þola útfjólubláa geisla sólarinnar betur, þ.e. dekkra fólki. Þetta form af kynþáttahatri ristir djúpt hjá þjóðernispópúlistum þó að margir hverjir telji sig ekki rasista. Velski Evrópuþingmaðurinn Nick Griffin úr Breska Þjóðarflokknum sagði að það væri ekki til neitt sem héti svartur Wales-verji. Landi hans úr UKIP, David William Griffiths, sagði við andlát Nelson Mandela að sumu fólki væri ætlað að vera þrælar. Anne Sophie Leclere, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar, birti færslu á Facebook þar sem hún líkti innanríkisráðherranum Christiane Taubira (sem er frá frönsku Gíneu) við apa. Annar frambjóðandi flokksins, Jean-Francois Brugiere, stóð að mótmælum gegn ráðherranum þar sem kallað var að henni „Api, éttu bananann þinn”. Brugiere varði það fólk. Jussi Halla-aho, þingmaður Sannra Finna, lét hafa þessi ummæli eftir sér á bloggsíðu.
„Við skulum ekki kenna Afríkumanninum um, sem getur aðeins tjáð sig á þann máta sem vélarbúnaður hans leyfir. Aðal sökudólgurinn og skotmark réttmæturs haturs er stjórnmálaelítan sem lifir í draumheimi, heldur að niggari sé aum vera sem þarfnast hjálpar, en hugsar ekki um félagslegan frið.”
Flokksfélagi hans á finnska þinginu, James Hirvisaari, sagði einnig að Afríkumenn væru haldnir „frumstæðum hvötum” og „glæpsamlegri frumskógarmenningu”. Andreas Molzner, þingmaður austurríska Frelsisflokksins, sagði að ef Evrópa yrði að „samsteypu negra” myndi ríkja alger ringulreið. Mario Borghezio, þingmaður Norðurbandalagsins á Ítalíu, sagði að engir snillingar hefðu nokkru sinni komið frá Afríku. Mogens Camre, Evrópuþingmaður úr danska Þjóðarflokknum, kvartaði yfir því að sjá tvo litaða menn ræða um dönsk stjórnmál í sjónvarpi. Mennirnir eru þó báðir Danir.
Þjóðernispópúlistar hafa einnig tjáð sig um húðlit og knattspyrnu. Jean Marie le Pen gagnrýndi val á leikmönnum í franska landsliðið, þar væru ekki nægilega margir hvítir leikmenn og það endurspeglaði þar af leiðandi ekki frönsku þjóðina. Liðið vann engu að síður bæði heims og Evrópumeistaratitilinn fyrir Frakkland. Alexander Gauland, einn af stofendum og leiðtogum þýska flokksins Valkost fyrir Þýskaland, komst nýverið í fréttirnar fyrir ummæli um landsliðsmanninn Jerome Boateng (sem á föður frá Ghana). Gauland sagði að þó að Boateng væri góður knattspyrnumaður myndi fólk ekki vilja eiga hann sem nágranna.
Þjóðerni
Andstaða við innflytjendur er ein helsta forsenda tilvistar þjóðernispópúlískra flokka. Það er auðvelt að kenna útlendingum um vandamál heimafyrir og til þess að gera það þarf að taka mennskuna af þeim og setja þá alla undir sama hatt. Ein helsta leiðin til þess er að halda á lofti staðalímyndum um þjóðir sem hafa byggst upp í gegnum aldirnar sökum fordóma. Andre Lampitt, auglýsingafulltrúi UKIP flokksins fullyrti að Nígeríumenn væru yfir höfuð slæmt fólk. Liðsmenn UKIP hafa þó verið afhafnasamari í að benda á meinta lesti Rúmena. Þingmaðurinn Diane James sagði að þeir væru óumdeilanlega tengdir glæpastarfsemi og leiðtogi flokksins, Nigel Farage, sagði að hann yrði áhyggjufullur ef Rúmenar byggju við hliðina á honum. Þegar hann var spurður hvers vegna svaraði hann: „Þú veist hvers vegna”
Evrópuþingmanninum Eleftherios Synadinos, sem sat fyrir gríska flokkinn Gullna Dögun, var nýverið vikið af þinginu fyrir ummæli sem hann lét falla um Tyrki. Hann kallaði þá skítuga, mengaða og líkti þeim við villihunda. Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins á Ítalíu, fullyrti að fólk frá ríkjum Norður Afríku flytti með sér berkla og kláðamaur. Geert Wilders, Leiðtogi hollenska Frelsisflokksins, sem ávallt hefur haldið því fram að afstaða hans sé bundin við trúnna islam, beraði sig á kosningakvöldi í Haag árið 2014. Þar ávarpaði hann stuðningsmenn sína með orðunum:
„Viljið þið, hér í þessari borg, og í öllu Hollandi, fleiri eða færri Marokkóbúa?”
Mannfjöldinn svaraði „Færri!” og þá sagði Wilders „Þá lögum við það!”
Þjóðernið þarf ekki einu sinni að vera útlenskt. Svíþjóðardemókratarnir hafa lengi barist gegn réttindum Sama í Norður-Svíþjóð. Með orðræðu sinni hafa þeir reynt að gera þá að útlendingum með því að segja að Samar geti ekki verið eiginlegir Svíar. Einnig hafa þeir sagt að hentugt væri að landamæri færu eftir þjóðernislegum línum.
Ekki á Íslandi…?
Þjóðernispópúlískir flokkar í Evrópu hafa risið hratt. Sumir sem voru nánast ósýnilegir á hinu pólitíska landakorti fyrir örfáum árum síðan mælast nú með 20% eða 30% fylgi og sitja jafnvel í ríkisstjórnum. Hér á Íslandi hefur það sama ekki gerst. Frjálslyndi flokkurinn fetaði inn á þessar brautir en innanflokksdeilur og lítill hljómgrunnur gerði út af við flokkinn fyrir alþingiskosningarnar 2009. Einstaka alþingismenn og sveitarstjórnarmenn hafa daðrað við innnflytjenda og múslimaandúð en mætt mikilli hörku af öðrum stjórnmálamönnum, jafnvel þeirra eigin flokksmönnum.
Umræðan í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum ber þess þó merki að frjór jarðvegur sé fyrir slíkan flokk og nýverið voru ein slík samtök sett á legg. Ekki er þó vitað hversu mikil alvara er á bak við samtökin og hvort þau muni yfir höfuð bjóða fram til kosninga. Það þó ekki óumflýjanlegt að þjóðernispópúlískur flokkur geti náð töluverðu fylgi og áhrifum hér á landi. Við höfum meira að segja dæmi frá t.d. Skotlandi og Spáni þar sem þjóðernissinnaðir flokkar beita sér ekki gegn minnihlutahópum og ná samt miklum áhrifum. Þar hafa þjóðernispópúlískir flokkar aftur á móti nánast ekkert fylgi. Við Íslendingar höfum val um hvers konar stjórnmálamenningu við viljum sjá hérna. Ofangreind dæmi sýna glöggt hvaða box við opnum með því að gefa þjóðernispópúlisma undir fótinn.