Er maðurinn við hliðina á þér í biðröðinni með Rolex úr og konan við hliðina á honum með tösku merkta Louis-Vutton? Ef svo er, hvernig veistu hvort þessir hlutir eru „ekta” eða keyptir á götumarkaði í stórborg? Þig getur grunað hið síðarnefnda en þú veist það ekki. Ef annað þeirra er ennfremur með bronsstyttu af „Hugsuðinum” eftir Rodin undir arminum er síður en svo öruggt að hún sé „ekta”.
Margir sem ferðast hafa erlendis hafa ugglaust litið við á götumörkuðum sem er að finna í borgum og bæjum um allan heim. Meðal þess sem þar er iðulega að finna eru svokallaðar merkjavörur, svosem armbandsúr, handtöskur, strigaskór og íþróttafatnaður af ýmsu tagi, ferðatöskur og snyrtivörur svo fátt eitt sé nefnt. Það sem þessar götumarkaðsvörur eiga sameiginlegt er að verðið er allt annað og lægra en sjá má í verslunum. Við fyrstu sýn er kannski ekki ýkja mikill útlitsmunur á handtösku frá þekktum tískuvöruframleiðanda, og keypt er í verslun hans, og annarri sem keypt er á götumarkaði. Kunnáttufólk segist samstundis sjá hvort viðkomandi taska er „ekta” eða ekki. Það sem hinsvegar skilur á milli er verðið. Taska frá þekkta framleiðandanum kostar kannski sem svarar til tvö til þrjú hundruð þúsunda króna, eða jafnvel miklu meira, en á götumarkaðnum má fá ”samsvarandi” tösku á tvö til þrjú þúsund krónur! Þótt hér sé handtaska tekin sem dæmi gildir þetta um ótal margt annað.
Margir muna kannski eftir fjölmiðlaumfjöllun um húsgögn í ráðhúsi Reykjavíkur haustið 2014 en þá hafði komið í ljós að sófar þar voru eftirlíkingar. Borgin brást við með því að eyðileggja eftirlíkingarnar en ítalski framleiðandi „ekta” sófans hafði ella hótað málssókn líkt og gert hefur verið í mörgum löndum. Þótt ugglaust séu þess mörg dæmi að fólk hafi keypt eftirlíkingar í góðri trú eru þeir án efa fleiri sem vita vel að viðkomandi hlutur er ekki ”ekta” en kæra sig kollótta. Þess eru líka dæmi að stórar verslanakeðjur hafi selt eftirlíkingar þekktra vörumerkja. Fyrir þrem árum var danska verslanasamsteypan Dansk Supermarked dæmt fyrir að hafa auglýst og selt nokkur þúsund bómullarboli merkta Ralph-Lauren fyrirtækinu, sem voru framleiddir á lítilli saumastofu í Tælandi og hafði engin tengsl við Ralph-Lauren.
Danska forsætisráðherrafrúin með eftirlíkingartösku
Árið 2006 gerðu danskir fjölmiðlar sér mikinn mat úr því að danska forsætisráðherrafrúin, Anne-Mette Rasmussen, hefði margoft sést með ódýra tösku, eftirlíkingu af tösku frá hinu þekkta fyrirtæki Louis-Vutton. Meðal annars á mynd með bandarísku forsetahjónunum George og Laura Bush. Myndin birtist í nær öllum dönskum dagblöðum og sömuleiðis í tískuritinu Cosmopolitan. Í kjölfarið var mikið fjallað um falsaðar vörur í dönskum fjölmiðlum en danskir húsgagnaframleiðendur hafa orðið illilega fyrir barðinu á fölsurunum.
Fölsunarmarkaðurinn stækkar og stækkar
Í nýrri skýrslu Efnahags-og framfarastofnunarinnar, OECD, kemur fram að viðskipti með falsaðar vörur og eftirlíkingar fer sívaxandi. Að mati stofnunarinnar námu viðskiptin með slíkar vörur jafngildi 120 þúsund milljarða íslenskra króna. Þrátt fyrir margháttaðar aðgerðir stjórnvalda vinda þessi viðskipti stöðugt uppá sig
Fölsuð lyf og matvörur alvarlegast
Þótt flestum detti kannski Rolex úr, sólgleraugu og handtöskur í hug þegar minnst er á eftirlíkingar og falsanir veldur framleiðsla slíks tískuvarnings ekki yfirvöldum mestum áhyggjum. Sala á fölsuðum lyfjum er mjög fyrirferðarmikil, reyndar stærsti einstaki vöruflokkurinn, og þrátt fyrir að yfirvöld reyni hvað þau geta til að koma í veg fyrir slíka sölu eykst hún stöðugt. Á eftir lyfjunum koma matvæli og fæðubótarefni, skótau og fatnaður, rafmagnsvörur, snyrtivörur, ekki síst ilmvötn, og svo úrin og töskurnar. Þessi sala fer einkum fram á netinu og þótt slíkum netverslunum hafi á síðustu árum verið lokað í hundraðatali spretta samstundis upp nýjar.
Kínverjar lang stórtækastir í framleiðslunni
Af einstökum löndum er Kína, með Hong Kong, langstærst á þessu sviði samkvæmt áðurnefndri skýrslu OECD. Þaðan koma um það bil 85% framleiðslunnar en 15% frá Tyrklandi, Singapúr, Tælandi, Indlandi, Marokkó og fleiri löndum.
Af hverju kaupir fólk eftirlíkingar?
Svarið við þessari spurningu er einfalt. Í flestum tilvikum er verðið einungis brot af því sem borga þarf fyrir „ekta” vöru. Margir segja sem svo: af hverju ætti ég að borga hundruð þúsunda fyrir Rolex úr eða Gucci tösku þegar ég get keypt slíka hluti, sem líta næstum eins út, fyrir nokkra þúsundkalla? Þarna liggur vandinn því að í þessum efnum, eins og mörgum öðrum, stjórnast innkaupin af buddunni.
Rodin réttarhöldin í Kaupmannahöfn
Þessa dagana standa yfir í Bæjarrétti Kaupmannahafnar réttarhöld í fölsunarmáli. Þar er ekki tekist á um úr og töskur, heldur er það listaverk sem um er deilt. Nánar tiltekið 37 sentimetra háa styttu af Hugsuðinum, einu þekktasta verki franska myndhöggvarans Auguste Rodins (1840 – 1917). Listamaðurinn gerði allmargar útgáfur af þessu verki, í mörgum stærðum, og hefur stundum verið kallaður fyrsti fjöldaframleiðslulistamaðurinn. Rodin safnið í París hefur einkarétt á svokölluðum ”ekta afsteypum” verka hans sem seljast fyrir háar upphæðir. Sú staðreynd, að ”gangverðið” er hátt hefur freistað margra falsara. Styttan sem réttarhöldin í Kaupmannahöfn snúast um er talin tengjast stærsta fölsunarmáli Frakklands fyrr og síðar. Þrír Danir eiga í hlut.
Hertoginn af Búrgúndí
Í ársbyrjun 1992 stöðvaði franska lögreglan flutningabíl í eigu manns sem árum saman hafði selt kúabændum ýmis konar lyf handa bústofninum. Lögreglan taldi að í bílnum væru ólögleg efni, vaxtarhormónar ætlaðir nautgripum. Eigandi bílsins var maður að nafni Guy Hain, hann fékk síðar viðurnefndið Hertoginn af Búrgúndí. Lögregluþjónarnir ráku upp stór augu þegar þeir sáu farminn.
+Þar voru engin fæðubótarefni handa nautgripum en hinsvegar fjöldinn allur af listaverkum úr bronsi. Verkin voru öll afsteypur verka þekktra franskra listamanna, afsteypur verka Rodins í miklum meirihluta. Lögreglan var þarna komin á slóð afkastamesta höggmyndafalsara Frakklands fyrr og síðar. Guy Hain var handtekinn og lögreglan fann síðar afsteypuverkstæði í eigu hans í París og Búrgúndí og samtals rúmlega 400 afsteypur af verkum Rodins, auk annarra listamanna. Guy Hain hafði um tíma rekið listverkaverslun í París undir nafninu Hertoginn af Búrgúndí og þaðan kom viðurnefnið. Lögreglan taldi að hann hefði þénað sem samsvarar fimm milljörðum íslenskra króna á sölu eftirlíkinganna og Guy Hain hlaut fjögurra ára fangelsisdóm. Eftir að hann var laus úr prísundinni tók hann aftur til við fyrri iðju og árið 2002 hlaut hann annan dóm, að þessu sinni fimm ára fangelsi.
Heimilt að gera tólf númeraðar afsteypur
Samkvæmt frönskum lögum er listamanni heimilt að gera tólf númeraðar afsteypur af verkum sínum. Hafi listamaðurinn ekki gert þetta meðan hann lifði er afkomendum hans heimilt að láta gera slíkar afsteypur síðar. Guy Hain komst í samband við fyrirtæki sem annast hafði gerð afsteypna verka Rodins, og fleiri listamanna, og komst þannig yfir mót sem gerð höfðu verið til að vinna afsteypurnar. Sérfræðingar eru á einu máli um að afsteypur þær sem Guy Hain gerði séu mjög vel gerðar og það sé einungis á færi örfárra einstaklinga að þekkja þær frá þeim ”upprunalegu”. Talið er að Guy Hain hafi samtals gert um það bil sex þúsund afsteypur af verkum franskra listamanna, langflestar af verkum Rodins, og einungis sé vitað hvar um það bil þriðjungur þessara verka er niðurkominn. Vitað er að virt uppboðshús hafa margoft selt afsteypur Guy Hain, Hertogans af Búrgúndí, þótt slíkt sé fátítt í dag. Ein slík sala tengist réttarhöldunum sem nú standa yfir í Kaupmannahöfn.
Christie´s uppboðshúsið seldi styttuna árið 1996
Árið 2012 kom dönsk kona með bronsstyttu í uppboðshús Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn. Styttan var Hugsuðurinn (Grubleren). Konan sagðist hafa erft styttuna eftir stjúpföður sinn sem hafi keypt hana hjá Christie´s í New York árið 1996 og þá greitt fyrir hana 200 þúsund dollara. Christie´s taldi styttuna á þeim tíma ekta.
Bruun Rasmussen fékk. Jérome le Blay, einn helsta sérfræðing Frakka á þessu sviði til að skoða styttuna. Hann sagði hana falsaða. Ekkert varð því af sölunni hjá Bruun Rasmussen og konan fór heim með styttuna. Hún hefur síðar greint lögreglu frá því að hún hafi selt einum mannanna sem nú eru ákærðir styttuna fyrir 200 þúsund krónur danskar, sem er hátt verð fyrir eftirlíkingu.
Reyndu að selja hana gegnum Christie´s
Þremenningarnir sem keyptu styttuna, af dönsku konunni, fóru með hana til Christie’s í Lundúnum árið 2013 og óskuðu eftir að fyrirtækið seldi hana á uppboði. Christie´s óskaði eftir vottorði um að styttan væri “ekta” afsteypa en það gátu mennirnir af skiljanlegum ástæðum ekki lagt fram. Christie´s hafði samband við dönsku lögregluna sem hefur nú styttuna í sinni vörslu. Í janúar á þessu ári voru þremenningarnir ákærðir og réttarhöldin standa enn yfir. Ákæran hljóðar uppá að þeir hafi vísvitandi reynt að selja falsað listaverk í hagnaðarskyni. Mennirnir neita en segja að ætlunin hafi verið að fá Christie´s til að borga skaðabætur vegna þess að uppboðshúsið seldi listaverkið árið 1996 sem “ekta” afsteypu. Þessi skýring vakti hlátur viðstaddra en saksóknari vakti athygli á að ábyrgð uppboðshússins vegna hugsanlegra svika gilti einungis í fimm ár og væri því löngu útrunnin.
Nöfn þremenninganna hafa ekki verið gefin upp en þeir eru að sögn fjölmiðla þekktir í Danmörku. Tveir þeirra hafa fengist við listaverkasölu og sá þriðji, sem er málarameistari er umsvifamikill í dönsku viðskiptalífi.
Dómur á að falla síðar í þessum mánuði. Þangað
til bíður Hugsuðurinn í pappakassa (utan af kaffinu sem lögreglan drekkur) í
kjallaranum á lögreglustöðinni í Kaupmannahöfn.