Á hverjum degi deyja að meðaltali um 36 einstaklingar vegna byssuglæpa í Bandaríkjunum. Séu sjálfsvíg og voðaskot meðtalin, þá eru það 90 manns á dag. Heildarfjöldi þeirra sem féll fyrir byssuskotum var svipaður fjöldi þeirra sem lést vegna bílslysa, eða um 34 þúsund.
Ekkert þróað ríki er með nærri því eins hátt hlutfall og Bandaríkin. Þau skera sig alveg úr. Munurinn er sláandi. Um þrjátíufaldur munur er á Bandaríkjunum og Bretlandi, svo dæmi sé tekið. Um 2,9 mannslíf á hverja 100 þúsund íbúa, en 0,1 í Bretlandi. Á Íslandi er hlutfallið með allra lægsta móti (innan við 0,1) enda byssuglæpir afar fátíðir í alþjóðlegum samanburði.
Ógnvekjandi tölur
Í fyrra létust 13.629 vegna byssuglæpa í Bandaríkjunum, samkvæmt opinberum tölum heilbrigðisyfirvalda í Bandaríkjunum. Í heiminum öllum, einnig á skilgreindum stríðssvæðum í miðausturlöndum og Norður-Afríku, þá létust ríflega 18 þúsund vegna hryðjuverkaárása í fyrra, þar með talið vegna sprenginga.
„Þjóðarskömm, stöðvið brjálæðið.“ Þannig skrifaði New York Times í leiðara á forsíðu sinni – í fyrsta skipti sem það er gert síðan 1920 – 5. desember í fyrra. Þetta var gert skömmu eftir að par hafði skotið 14 til bana í San Bernardino í Kaliforníu.
Í leiðaranum sagði meðal annars, að það væri siðferðislegt hneyksli og þjóðarskömm að Bandaríkjamenn geti með löglegum hætti keypt vopn sem eru hönnuð til þess að drepa fólk með miklum hraða og skilvirkni. „Þessi vopn eru stríðsvopn.“
Yfirheyrður
Atburðirnir hrikalegu í Orlando, þar sem mannskæðasta skotárás í sögu Bandaríkjanna var framkvæmd á skemmtistaðnum Pulse, þar sem hinsegin fólk kom saman, hafa sett þessi mál aftur í kastljósið hér vestra. Þrátt fyrir að árásin sé rannsökuð sem hryðjuverkaárás og hatursglæpur, þá er það aðgengi Omars Mateen, hins 29 ára gamla ódæðismanns, að byssum sem hefur verið uppspretta umræðunnar í dag, hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi, á netinu eða í forystugreinum dagblaða.
Alríkislögreglan FBI hafði ítrekuð afskipti af Mateen, á árunum 2013 og 2014, og yfirheyrði hann í tvígang. Árið 2013 og 2014 var rannsókn á honum lokað, en beinar tengingar hans við hryðjuverkasamtök fundust ekki. Það var hins vegar vitað að hann væri ekki í jafnvægi, og frá árinu 2011 þá höfðu lögregluyfirvöld upplýsingar um að hann væri uppstökkur, ofbeldishneigður og ætti það til að tala með afar niðrandi hætti um hinsegin fólk. Foreldrar hans staðfestu síðan, eftir árásina, að Mateen hefði orðið æstur við að sjá samkynhneigða kyssast opinberlega, og blótað þeim í sand og ösku. Eiginkona hans fór frá honum vegna ofbeldis, en Mateen gekk ítrekað í skrokk á henni, án þess að fá á sig ákæru eða opinbera rannsókn, þrátt fyrir að hún hefði tilkynnt um ofbeldið til lögreglu.
Forsetinn berst áfram
Þrátt fyrir þessa sögu, þá gekk hann inn í verslun og keypti AR 15 árásarriffil og Glock skammbyssu. Hann hafði til þess lögverndaðan rétt. Vopnin notaði hann síðan til að drepa fólkið í Pulse, í mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna.
Tilvik eins og þetta eru þau sem Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur ítrekað rætt um að sé mikilvægt að greina nánar. „En við höfum ekki náð breytingum í gegn,“ sagði Obama og fórnaði höndum, þegar hann ræddi um byssumálin við PBS, fyrir ellefu dögum. Hann bar þá byssuglæpina saman við aðgerðir sem ráðist var fyrir mörgum áratugum, til að greina orsakir bílslysa. Það hefði mestu máli skipti, að yfirvöld hafi sett á fót rannsóknarvinnu sem að lokum leiddi til þess að bílbeltanotkun varð almenn, og öryggi fólks í umferðinni jókst strax með áhrifamiklum hætti. „Þegar kemur að byssuglæpunum, þá hefur hagsmunasamtökum eins og NRA (National Rifle Association, samtök byssueigenda) tekist að koma í veg fyrir, að rannsóknir fari fram og upplýsinga sé aflað!,“ sagði Obama í þætti PBS. Hann sagði þetta vera grafalvarlegt mál, því að það sem reyndist best þegar væri verið að greina vandamál, væri að bera virðingu fyrir starfi vísindamanna og rannsakenda. Til þess þyrftu þeir aðgengi að öllum gögnum, og tíma til að vinna úr rannsóknum sínum. Aðgerðir kæmu svo í kjölfarið.
Á meðan ekki tekst að greina vandamálin – eins og það háa hlutfall byssuglæpa er skýr vísbending um – þá verður vafalítið erfitt að búa til lög og reglur sem geta unnið gegn byssuglæpunum. Obama hefur sjálfur talað fyrir því, að bakgrunnsskoðun þeirra sem vilja kaupa vopn, sé mun nákvæmari en hún er núna, og að þeir sem grunur leiki á að séu hættulegir samborgurum sínum geti ekki nálgast hættuleg skotvopn. „En við þurfum að taka saman upplýsingar um þessi mál,“ ítrekaði Obama, endurtekið, og augljóslega pirraður á því hve illa hefur gengið að vinna gegn byssuglæpunum. Í yfirlýsingu sem hann flutti vegna árásarinnar í Orlando sagði hann síðan að það væri ábyrgðarhluti að gera ekki neitt.
Frá því að Obama varð forseti, í nóvember 2008, hefur hann síendurtekið haldið blaðamannafundi, oft með tárin í augunum, eftir að skotárásir á óbreytta borgara.
Blaðamannafundir Obama verið margir, um skotárásir. Þeir hafa komið eftir árásir á eftirfarandi stöðum, eins og New York Times listaði þá upp, á sjö og hálfs árs valdatíð hans.
-
Skotárásir í valdatíð Obama
- 12. júní 2016. Orlando
- 2. desember 2015. San Bernardino
- 27. nóvember 2015. Colorado Springs
- 1. október 2015. Roseburg
- 16. júlí 2015. Chattanooga
- 17. júní 2015. Charleston
- 24. október 2014. Marysville
- 23. maí 2014. Isla Vista
- 2. apríl 2014. Killeen,
- 16. september 2013. Washington, D.C.
- 7. Júní 2013 Santa Monica
- 14. desember 2012. Newtown
- 21. október 2012. Brookfield
- 27. september 2012. Minneapolis
- 5. ágúst 2012. Oak Creek
- 20. júlí 2012. Aurora
- 5. nóvember 2009. Killeen
- 2. apríl 2012. Oakland
- 12. október 2011. Seal Beach
- 8. janúar 2011. Tucson
- 3. ágúst 2010. Manchester
- 12. febrúar 2010. Huntsville
- 5. nóvember 2009. Killeen
- 3. apríl 2009. Binghamton
Hatursglæpur gegn hinsegin fólki
Brotalöm í byssulöggjöfinni er eitt, en hatursglæpur gegn hinsegin fólki annað. Mikil samstaða hefur skapast meðal hinsegin fólks um allan heim eftir árásina í Orlando. Hún hitti samfélag hinsegin fólks í hjartastað, enda staðir eins og Pulse var, hálfgert athvarf fyrir fólk innan þessa samfélags. Það sækir styrk til fólks í svipuðum aðstæðum. „Pulse var griðarstaður fjölbreyttrar flóru hinsegin fólks, sem sumu hverju hafði verið úthýst af fjölskyldum sínum. Þar fann fólk nýja fjölskyldu, vini, gleði og ást. Árásin er því árás á hjarta hinsegin samfélagsins.
Árásin er hatursglæpur sem beinist gegn hinsegin fólki um allan heim. Hinsegin fólk er með kerfisbundnum hætti beitt ofbeldi, jaðarsetningu og útskúfun víða um heim og þessi árás er af sama meiði. Hún er öfgafull birtingarmynd hinsegin haturs sem hinsegin fólk þekkir því miður of vel á eigin skinni,“ segir í yfirlýsingu sem Samtökin 78 sendu frá sér í dag. Hún er í takt við yfirlýsingar samtaka hinsegin fólks um allan heim, sem hafa fordæmt glæpinn og minnt á, að ekki megi horfa framhjá því að árásin beinist beint gegn hinsegin fólki. Þetta sé ekki hryðjuverk sem beinist gegn fólki að handahófi, heldur hafa árásarmaðurinn valið þennan stað. Regnbogalitir eru víða sjáanlegir, ekki síst hér í New York. Í gærkvöldi var efsta nálin á Empire State byggingunni lituð í regnbogalitum, hinsegin fólki til stuðnings. Það sama má segja um skólasvæði Columbia skólans, þar sem víða mátti sjá regnbogalitina og stuðningsyfirlýsingar. „Við erum með ykkur!“ stóð á einum fánanum, sem var á tröppunum fyrir utan bókasafnið á skólasvæðinu.
Hvað gerðist?
Enn eru að berast upplýsingar, sem munu gefa betri mynd af því sem gerðist, frá mínútu til mínútu, inn á Pulse. Ljóst þykir nú, að aðgerðir sérsveitar lögreglunnar í Orlando, kunna að hafa leitt til þess að nokkrir létust, þegar lögreglumenn skutu í átt að Mateen. Á blaðamannafundi í morgun, greindi talsmaður lögreglunnar frá því að rannsókn stæði yfir á aðgerðunum, þar sem meðal annars væri rætt við vitni inni á staðnum og í nágrenni. Lögreglumaður á frívakt, sem var inni á staðnum, var sá fyrsti sem greip til varna gegn Mateen, og skiptust þeir á skotum. Eftir nokkurn tíma tókst að króa hann inni á klósetti, en lögreglan virðist ekki hafa haft nákvæmar upplýsingar um hversu margir voru þar inni. Sérsveitin ákvað að brjóta sér leið í gegnum vegg, inn á baðherbergið, þar sem Mateen var að lokum skotinn til bana.
Nákvæmari upplýsingar hafa ekki fengist, en FBI, lögreglan í Orlando og stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa sagt að öllum steinum verði velt við til að skýra hvernig 50 einstaklingar létu lífið í þessari mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna, og 53 til viðbótar særðust, sumir alvarlega.
Því miður segir sagan okkur það, að ekki þurfi að líða svo langur tími þar sem næsta brjálæðislega árás mun eiga sér stað. Þá, eins og nú, mun salti verða stráð í opið sár á bandarísku þjóðinni, sem síendurteknar skotárásir hafa skilið eftir.