Styrkingin krónunnar vinnur gegn því að verðbólgan komist af stað á nýjan leik, að mati hagfræðideildar Landsbankans. Hún mun þó hækka úr 1,7 prósent í 2 prósent, næst þegar Hagstofa Íslands birtir verðbólgumælingu sína, 28. júní næstkomandi.
Það sem er að þrýsta verðbólgunni upp á við eru hækkun á bensínverði eftir hækkanir á olíu á alþjóðamörkuðum að undanförnu, hækkun á húsaleigu og húsnæðiskostnaði, hækkun á flugfargjöldum og hækkun á veitinga- og gistiþjónustu.
Styrking krónu í kortunum
Það sem helst vinnur á móti hækkun á vörum og þjónustu innanlands er hvernig gengið hefur þróast að undanförnu, en Bandaríkjadalur kostar nú 122 krónur og evra 138 krónur. Fyrir ári síðan kostaði dalurinn 136 krónur og evran rúmlega 150 krónur. Þetta skilar sér í því, að innfluttar vörur kosta minna, sem leiðir út í verðlagið og þar með verðbólgumælingar.
Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði í meira en tvö ár. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sem ákvarðar vexti, hefur gefið til kynna í fréttatilkynningum að það sé mat nefndarinnar, að verðbólga muni aukast nokkuð á næstunni og geti verið farið yfir markmiðið á næsta ári. Ástæðan er meðal annars launahækkanir að undanförnu og síðan hækkun á hrávörum á alþjóðamörkuðum, sem hefur áhrif á verð á innfluttum vörum.
Skuldastaðan batnað hratt
En á sama tíma hefur staða hagkerfisins sjaldan veriði sterkari, þegar horft er til skulda erlendis. Eftir að rúmlega sjö þúsund milljarða skuldir sem tilheyrðu slitabúum föllnu bankanna, voru þurrkaðar út úr hagtölunum, þá lítur staðan mun betur út, svona til einföldunar sagt. Erlendar opinberar skuldir nema um 230 milljörðum króna, og skuldir ríkissjóðs innanlands 1.250 milljörðum. Samtals nema opinberar skuldir nú um 60 prósent af árlegri landsframleiðslu, sé miðað við stöðu mála í fyrra.
Ferðaþjónustan eins og vítamínsprauta
Mikið gjaldeyrisinnstreymi vegna sífelldrar aukningar í ferðaþjónustu, virkar því eins og vítamínsprauta fyrir hagkerfið og er þrýstingur fyrir sterkara gengi krónu gagnvart helstu viðskiptamyntum. Þannig er gert ráð fyrir að gjaldeyrisinnstreymi frá erlendum ferðamönnum verði yfir 400 milljarðar á þessu ári, sem gerir ferðaþjónustuna að langsamlega stærstu gjaldeyrisskapandi grein þjóðarinnar.
Seðlabankinn hefur komið í veg fyrir sterkara gengi krónu, með inngripum á gjaldeyrismarkaði, á undanförnu ári. Samkeppnisstaða útflutningsins á mikið undir því, að gengi krónunnar styrkist ekki of mikið. En á sama tíma getur hún dregið úr verðbólguþrýstingi, eins og bent er á skýrslu hagfræðideildar Landsbankans í dag, og peningastefnunefnd hefur einnig fjallað í fundargerðum, sem birtar eru tveimur vikum eftir vaxtaákvörðunardag. Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 5,75 prósent, en víðast hvar í heiminum eru þeir mun lægri, eða á milli 0 og 1 prósent.