Þrátt fyrir verstu skotárás í sögu Bandaríkjanna, þar sem 49 létu lífið og 53 særðust þegar Omar Mateen - sem var einnig skotinn til bana á endanum - hóf skothríð á skemmtistaðnum Pulse í Orlando, þá virðist bandaríska þingið ekki geta komið sér saman um aðgerðir til að vinna gegn því að hættulegt fólk komist yfir byssur sem hannaðar eru til þess að drepa fólk. Í dag felldi öldungadeild Bandaríkjaþings í atkvæðagreiðslu, frumvörp og reglubreytingar sem tóku til byssulöggjafar, og var ætlað að koma í veg fyrir að hættulegt fólk – meðal annars það sem væri á svonefndum hryðjuverkavaktlista (Terror watchlist) – gæti gengið inn í næstu byssubúð og komið út alvopnað.
Voru skrefin útfærð í fjórum meginþáttum í fjórum frumvörpum, sem tóku til þess að nákvæmari bakgrunnsupplýsingar þyrfti um byssukaupendur, betra upplýsingaflæði milli þeirra sem hafa leyfi til selja byssur og yfirvalda, algjört bann við sölu á vopnum til þeirra sem grunaðir eru um tengsl við hryðjuverkasamtök, og síðan heimild til að efla rannsóknir á byssuárásum og hvort mögulega geti verið tengsl milli árásanna og þess hve auðvelt er að kaupa byssur í Bandaríkjunum.
Horfa undan
Öll málin fjögur náðu ekki 60 atvæðum, og fengu því ekki brautargengi hjá öldungadeildinni. Tilfinningarþrungnar ræður þeirra sem voru á með og á móti, sýndu glögglega hversu heitt umræðuefni byssuárásir í Bandaríkjunum er orðið.
„Það er ólýsanlegur harmleikur þegar fólk missir ástvini sína, eða nágranna. En það er enn hrikalegra þegar leiðtogar landsins og stjórnmálamenn, líta undan og gera ekkert,“ sagði Chris Murphy, fulltrúi Demókrata. Hann hefur talað fyrir þörfinni á hertari byssulöggjöf, og þá einkum að komið sé formlega í veg fyrir það með lögum, að maður sem grunaður er um tengsl við hryðjuverkasamtök, geti keypt byssu. Þá hefur hann einnig talað fyrir þörfinni á frekari rannsóknum, til að undirbyggja aðgerðir sem geta unnið gegn fjölda byssuárása í landinu.
„Á villigötum“
John Cornyn, Repúblikani frá Texas, sagði marga í öldungadeildinni vera á villigötum, þegar þeir væru að horfa á byssulöggjöfina. Það sem við væri að eiga, væri vaxandi ógn af „öfgasinnuðum Islam-trúðum hryðjuverkamönnum“. Árásin í Orlando ætti mun fremur rætur í því, en nokkru öðru. Við þessu þyrfti að bregðast.
Cornyn sagði enn fremur, að það væri mikil ákvörðun, að taka frá fólki möguleikann á því að verja sig með byssu, og fara þyrfti varlega í allar lagabreytingar í þá veru. Fleiri tóku undir með honum. Flestir Repúblikanar, en Demókratar einnig.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, segir öldungadeildina hafa brugðist Bandaríkjamönnum, með því að koma í veg fyrir að málin næðu fram að ganga.
Morð daglegt brauð
Að meðaltali deyja um 34 einstaklingar á hverjum degi í Bandaríkjunum í byssuárásum, sé miðað við tölur frá því í fyrra. Þá dóu um 12.400 manns í byssuárásum, og yfir 40 þúsund særðust. Þá hafa verið um þúsund skotárásir á fjölda fólks í einu (Mass shootings) á síðustu 1.260 dögum, samkvæmt upplýsingum sem The Guardian tók saman.
Hvergi í heiminum, í þróuðum ríkjum, eru morð með skotvopnum jafn algeng og í Bandaríkjunum, en þau eru um 2,9 á hverja 100 þúsund íbúa á ári, en algengt er öðrum þróuðum ríkjum að hlutfallið sé vel undir 0,1.
Hneyksli
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur barist fyrir hertari byssulöggjöf frá því hann varð forseti, en þó einkum fyrir því að nákvæmari rannsóknir geti farið fram á orsökunum þess, að svo margir deyja vegna byssuárása í landinu. Hefur hann borið stöðuna saman við aðgerðir til að sporna við bílslysum, á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar í Bandaríkjunum. Þá hafi verið gripið til ýmissa aðgerða, svo sem lögleiðingu öryggisbelta og fleira, sem hefði leitt til stórkostlegra framfara á sviði öryggismála í bílaiðnaði.
Hann segir þetta ekki hafa tekist með byssumálin, þrátt fyrir að ítrekaðar tilraunir til þess. Hagsmunaaðilar nái sínu fram, og þá einkum NRA (National Rifle Association), sem skilar umsögnum gegn næstum öllum lagabreytingum, sem einstaka fulltrúar í þinginu gera síðan að sínum málstað. Þá hefur NRA stutt dyggilega á bak við stjórnmálaflokka og einstaka stjórnmálamenn, með beinum fjárhagslegum stuðningi.
Obama hefur sagt, að stjórnmálin í Bandaríkjunum standi frammi fyrir því að láta söguna meta þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Ein þeirra sé sú að gera ekkert, til að sporna við þessu þjóðarmeini sem byssuárásirnar séu. „Því fylgir mikil ábyrgð,“ sagði Obama, alvörugefinn, þegar hann tjáði sig eftir árásina á Pulse í Orlando í síðustu viku.