Stundum er sagt að ekkert sé svo einfalt að það geti ekki orðið flókið. Þessi fullyrðing á kannski vel við fyrirsögn pistilsins. Svarið virðist augljóst: Þingmenn mega ekki og eiga ekki að ljúga. Frekar en aðrir myndi margur segja. Það kann þess vegna að hljóma undarlega að danska þingið, Folketinget, hafi rætt þessa, að því er virðist, einföldu spurningu og ekki getað komið sér saman um svarið. Í þinginu eru allir sammála um að þingmenn og ráðherrar megi ekki ljúga, hvorki að þinginu né almenningi. En málið er kannski ekki alveg svona einfalt, því komust þingmennirnir að þegar þeir ætluðu að svara spurningunni. En af hverju eru danskir þingmenn að ræða mál sem þetta? Jú, það á sér skýringu.
Kristjaníuferðin
Í febrúar árið 2012 ákvað dómsmálanefnd danska þingsins, ásamt nokkrum yfirmönnum úr lögreglunni að heimsækja Kristjaníu, í tilkynningu danska þingsins stóð að ætlunin væri að kynna sér mannlífið og atvinnustarfsemina. Meðal þeirra þingmanna sem ætluðu í þessa ferð var Pia Kjærsgaard þáverandi formaður Danska þjóðarflokksins, hún hefur iðulega lýst miklum efasemdum um tilvist Kristjaníu. Áður en af heimsókninni varð var ferðinni frestað og Morten Bødskov dómsmálaráðherra tilkynnti dómsmálanefnd þingsins að lögreglustjórinn í Kaupmannahöfn kæmist ekki þennan tiltekna dag. Þegar Leyniþjónustan, sem sá um skipulagningu ferðarinnar, nefndi daga sem hentuðu til heimsóknarinnar, voru það alltaf dagar þar sem Pia Kjærsgaard var að heiman og gat ekki farið.
Til að gera langa sögu stutta var sagan með lögreglustjórann fyrirsláttur. Hin raunverulega ástæða kom síðar í ljós og var sú að Leyniþjónustan taldi sig ekki geta tryggt öryggi Piu Kjærsgaard. Kristjaníuferðin, þar sem Pia Kjærsgaard var meðal þátttakenda var hinsvegar farin í júní 2012 og gekk snurðulaust.
Lygavefur ráðherrans
Piu Kjærsgaard hafði grunað að Leyniþjónustan hefði snuðrað í dagbók hennar í gegnum tölvukerfi þingsins, en slíkt er harðbannað. Pia Kjærsgaard skráði þessvegna ekki hina fyrirhuguðu Kristjaníuferð í dagbókina og Leyniþjónustan vissi þess vegna ekki að hún væri meðal þátttakenda fyrr lagt var af stað. Þetta taldi Pia Kjærsgaard sönnun þess að kíkt hefði verið í dagbókina.
Sautján mánuðum eftir Kristjaníuferðina komu trúnaðarmenn innan Leyniþjónustunnar fram með fjölmargar alvarlegar ásakanir á hendur yfirmanni sínum, Jacob Scharf. Þar á meðal að hann hefði fyrirskipað að kíkt yrði í dagbók Piu Kjærsgaard. Jacob Scharf hrökklaðist í kjölfarið úr Leyniþjónustunni. Upplýsingar trúnaðarmannanna staðfestu grun Piu Kjærsgaard og jafnframt að Morten Bødskov dómsmálaráðherra hefði logið að dómsmálanefnd þingsins. Ráðherrann viðurkenndi þetta á fundi með nefndinni en hann hefði neyðst til að segja ósatt. ”Nödlögn” sagði ráðherrann, neyðarlygi, til að afhjúpa ekki ólöglegt athæfi Leyniþjónustunnar (að kíkja í dagbókina). Söguna um lögreglustjórann hafði hann sett saman í samráði við ráðuneytisstjórann (sem síðar var fluttur í annað ráðuneyti) og annan hátt settan embættismann í dómsmálaráðuneytinu. Nokkrum dögum eftir að Morten Bødskov sagði frá neyðarlyginni tilkynnti hann afsögn sína og Karen Hækkerup tók við dómsmálaráðuneytinu.
Getur verið nauðsynlegt að ljúga eða sveigja sannleikann
Karen Hækkerup skipaði strax sérstaka nefnd, undir forsæti hæstaréttardómara til að kanna hlut embættismannanna tveggja sem höfðu aðstoðað Morten Bødskov við lygasöguskrifin. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að lygasagan hefði verið neyðarlygi (forklarelig og undskyldelig nødløgn) og væri þess vegna ekki tilefni áminningar eða brottrekstrar. Lagði semsagt blessun sína yfir athæfið.
Niðurstaða nefndarinnar, sem skilaði af sér í maí 2014, vakti ekki ánægju þingmanna og margir þeirra lýstu mikilli óánægju með að rannsóknarnefndin gæfi „grænt ljós“ á að ráðherrar mættu með aðstoð embættismanna segja þingnefnd og þingheimi öllum ósatt. Þingmenn voru hinsvegar sammála um að þær aðstæður gætu skapast að ráðherra neyddist til að „sveigja sannleikann“. Þingmenn voru líka sammála um að í slíkum tilvikum yrði þingið með einhverjum hætti að fjalla um málið. Spurningin var bara hvernig ætti að búa um hnútana.
Flókið mál
Það sýnir kannski best hvað málið er snúið og viðkvæmt að þótt tvö ár séu liðin síðan rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni og þingmenn urðu sammála um að bregðast við hefur engin niðurstaða fengist. Þingflokkarnir hafa rætt fram og til baka og sérstökum hópi, skipuðum fulltrúum allra flokka, var falið að gera tillögur að reglum. Þingmaður sem dagblaðið Jótlandspósturinn ræddi við sagðist fyrirfram hafa talið að einfalt yrði að setja saman einhverjar vinnureglur varðandi neyðarlygi en það væri nú öðru nær. „Það stríðir auðvitað gegn öllum skráðum, og óskráðum reglum að ljúga, en svo sitjum við og reynum að smíða regluverk, sem gengur að vissu leyti gegn þessum gildum. Hljómar kannski sem einfalt viðfangsefni en annað hefur komið á daginn“ sagði þessi þingmaður.
Annar þingmaður sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að líklegast yrði farin sú leið að skipa sérstaka nefnd innan þingsins sem ráðherrar gætu leitað til þegar „sveigja verður sannleikann.“ Allir í þinginu væru sammála um að það væri aðeins í algjörum undantekningatilvikum sem ráðherra þyrfti að beita slíkum aðferðum.
Hópurinn sem skipaður var til að útbúa reglurnar hefur ekki lokið störfum en þegar því verki lýkur verða tillögurnar lagðar fyrir þingflokkana.