Örvænting. Reiði og yfirþyrmandi sorg. Þannig er viðbrögðum aðstandenda fórnarlamba sprengingarinnar í Karrada, þéttasta verslunarsvæðisins í Bagdad, höfuðborgar Íraks. Önnur sprengja til viðbótar sprakk í úthverfi borgarinnar, skömmu eftir spreninguna í Karrada. Samtals hafa 213 látið lífið í þessum tveimur sprengingum, og eru margir til viðbótar eru alvarlega slasaðir.
Aftur og aftur
Samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC hafa aðstandendur í örvæntingu sagt að stjórnvöld geti ekki látið þessar sprengingar halda áfram. Á þessu ári hefur íslamska ríkið lýst yfir ábyrgð á sjö aðskildum sprengingum í Íraksem hafa leitt til dauða yfir 300 einstaklinga, til viðbótar við þá sem létust í sprengingunum um helgina.
Fyrsta mannskæða sprengingin, sem beindist gegn almenningi, var 28. febrúar þegar 70 létust í tveimur sjálfsmorðsárásum í Sadr City. Viku seinna, 6. mars, létust 47 í Hilla.
Tuttugu dögum síðar létust 32 í sjálfsmorðsárás sem beindist að börnum sem voru að spila fótbolta, í Iskandariya. Árásin var harðlega fordæmd og hún sögð sýna að meðlimir íslamska ríkisins væru tilbúnir að ganga lengra og fremja hrikalegri glæpi en flest önnur hryðjuverkasamtök.
Næsta mannskæða árás var 1. maí, þegar tvær bílasprengjur leiddu til dauða 33 einstaklinga í suðurhluta Samawa. Tíu dögum síðar, 11. maí, sprungu aftur tvær bílasprengjur í Bagdad sem leiddu til þess að 93 létu lífið. Sex dögum síðar létust 69 í fjórum aðskildum bílasprengjum. Hinn 9. júní létust svo 30 til viðbótar í tveimur sjálfsmorðsárásum.
Grýttu bílalest ráðamanna
Reiðir íbúar Bagdad grýttu bílalest Haiders Abadis forsætisráðherra í gær, þegar hann fór að kanna aðstæður eftir sprengjutilræðið í borginni í gærkvöld. Þeir sökuðu forsætisráðherrann um að svíkja loforð um aukna öryggisgæslu og taka sjálfan sig fram yfir almenning. Afleiðingin birtist í síendurteknum hræðilegum glæpum.
Írak er auðlindaríkt land, en innviðir þess eru í molum, eftir þrálát stríði. Undanfarin ár hafa orðið framfarir við uppbyggingu öryggis, og hafa stjórnvöld lagt mikið upp úr því að sannfæra almenning um að það sé ekkert að óttast, þegar kemur að daglegu lífi. Íbúarnir, sem eru ríflega 37 milljónir, eigi að geta lifað eðlilegu lífi í öllum stærstum borgum landsins. En síendurteknar sprengingar á þessu ári, eru að grafa undan öryggisvitund almennings og sá árangur sem náðst hefur, gæti þurrkast út og leitt til enn meiri glundroða í landinu.
Bandaríkjamenn fari ekki frá ókláruðu verki
Þrýst hefur verið á bandarísk stjórnvöld, að undanförnu, að fylgja uppbyggingarstarfinu í Írak enn meira eftir. Allt frá innrásinni í landið, árið 2003, hafa Bandaríkjamenn verið með mannafla í landinu, en hafa reynt að koma stjórnun á uppbyggingarstarfinu í hendur heimamanna og stjórnvalda í Írak, einkum og sér í lagi í seinni tíð. Það hefur ekki gengið vel, og eins og áður segir, þá er nú talin mikil hætta á því að tíðar sprengingar íslamska ríkisins, einkum í Bagdad, muni grafa undan því uppbyggingarstarfi sem þegar hefur náðst fram.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur sagt að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi skyldum að gegna, en þurfi um leið að virða sjálfsákvörðunarrétt Íraka. Þeir muni ráða örlögum sínum, á endanum, en alþjóðlegt uppbyggingarstarf, með Bandaríkjamenn í forsvari, verði að vera viðvarandi og taka mið af því hvernig þróun mála er á hverjum tíma.