Tólf til fjórtán manns munu vinna við að greiða út húsnæðisbætur í nýju kerfi sem tekur gildi í byrjun næsta árs. Ný skrifstofa verður sett á laggirnar hjá Vinnumálastofnun sem sér um bæturnar. Hún verður staðsett á Sauðárkróki.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að fleiri staðir hafi komið til greina þegar farið var að skoða hvar þessi nýja skrifstofa ætti að vera. „Ég var mikill talsmaður þess að þessu yrði fundinn staður einhvers staðar á landsbyggðinni. Það er mín skoðun að það falli sjaldan til verkefni hjá ríkinu sem eru eins vel til þess fallin.“ Það hafi verið skoðað hvort hægt væri að bæta þessari skrifstofu við á einhvern þeirra staða sem Vinnumálastofnun er þegar með starfsemi á. Það hafi gefist mjög vel að vera með skrifstofur á landsbyggðinni þar sem rafræn þróun leyfi það að þjónustueining sé ekki þar sem kúnnarnir séu.
Gissur segir hins vegar að reynslan hafi sýnt að svona sérhæfður vinnustaður af þessari stærðargráðu þarfnist öflugs baklands. Því hafi fljótt orðið ljóst að ekki myndi henta að finna skrifstofunni stað á Hvammstanga eða Skagaströnd, þar sem séu þjónustuskrifstofur.
„Þá fórum við svona að skoða og það vill nú svo til að þarna á Sauðárkróki er önnur stofnun sem heyrir undir velferðarráðuneytið sem er Íbúðalánasjóður, sem er að minnka við sig og fækka fólki og það varð niðurstaðan að við myndum stíga inn í það eftir samtöl við þá stofnun.“
„Skemmdi ekki fyrir“ að vera í Norðvesturkjördæmi
Gissur segir að ákvörðunin um staðsetningu skrifstofunnar hafi verið tekin í samráði við velferðarráðuneytið. Spurður að því hvort þessi ákvörðun sé tekin með hliðsjón af loforðum ríkisstjórnarinnar um að fjölga störfum í Norðvesturkjördæmi, segir hann að það „skemmdi ekki fyrir“. Með tilliti til loforða stjórnvalda hafi Vinnumálastofnun verið að reyna að styrkja starfsemi sína á Hvammstanga.
Ríkisstjórnin tilkynnti um það rétt fyrir síðustu jól að ákveðið hefði verið að „styrkja innviði, atvinnulíf og samfélag á Norðurlandi vestra með margvíslegum aðgerðum.“ Markmiðið var að skapa þjóðhagslegan ávinning og aðstæður svo að góðum framtíðarstörfum á svæðinu fjölgi. Þessi ákvörðun vakti athygli og umtal, eins og Kjarninn greindi frá í fréttaskýringu þá.
Tilgangur aðgerða stjórnvalda var að snúa við neikvæðri byggðaþróun á Norðvesturlandi. Íbúum þar hefur fækkað talsvert og hagvöxtur er minni en víða annars staðar.
Engu að síður hefur atvinnuleysi verið minnst eða næstminnst á þessu svæði síðustu tíu árin. Þá er fjórðungur allra starfa á Norðurlandi vestra í opinberri þjónustu, eða 26%. Hvergi var hlutfall opinberrar þjónustu hærra en á Norðurlandi vestra árið 2013, samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar sem kom út í fyrra.
Kostar 140 að koma kerfinu á laggirnar
Það er Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem fer með íbúðamál og ákvað að fela Vinnumálastofnun framkvæmd húsnæðisbóta, en frumvarp um húsnæðisbætur var samþykkt í þinginu fyrir sumarfrí. Samkvæmt því hækka bæturnar og ríkið tekur yfir hefðbundnar húsaleigubætur í stað sveitarfélaga, sem munu áfram sjá um sérstakar húsaleigubætur.
Samkvæmt upplýsingum úr velferðarráðuneytinu er kostnaður vegna húsnæðisbótanna 140 milljónir króna vegna rekstrar- og stofnkostnaðar á þessu ári. Þá er áætlað að það muni kosta 111 milljónir króna árlega að reka húsnæðisbótakerfið.