Það sem af er ári hefur gengi hlutabréfa í þýska bankanum Deutsche Bank, fallið um tæplega 60 prósent. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabanki Bandaríkjanna hafa sagt að bankinn sé í „áhættusamri“ stöðu, og hafa meðal annars vitnað til þess að bankinn hafi ekki staðist strangt próf bandaríska yfirvalda um fjárhagslegan styrk banka. Tveir af 33 stórum bönkum í Bandaríkjunum, stóðust ekki próf yfirvalda, og var Deutsche Bank í Bandaríkjunum annar þeirra.
Heildarstaðan erfið
En það eru ekki aðeins einstaka starfsstöðvar bankans sem valda áhyggjum heldur er það heildarefnahagsstaða bankans. Í pistli sem Simon Jack, ritstjóri efnahagsfrétta hjá breska ríkisútvarpinu BBC, skrifaði á vef BBC 6. júlí síðastliðinn, þá er Deutsche Bank með einkennilegan verðmiða í augnablikinu. Í síðustu viku var heildarvirði bankans 20 milljarðar evra (Evran = 136 ISK), sem er innan við þriðjungur af bókfærðu hans. Fjárfestar virðast því hafa afar litla trú á því í augnablikinu, að bankinn geti haldið áfram rekstri nema með verulegri uppstokkun eða breytingum, þar sem eignahlið bankans þykir óstöðug og að lítið þurfi til þess að þurrka út allt eigið fé bankans.
Aðalgreinandinn opinberar áhyggjur
Í viðtali við Welt am Sonntag í gær segir David Folkerts-Landau, aðalhagfræðingur Deutsche Bank, að evrópska banka vanti í það minnsta 150 milljarða evra, til að endurfjármagna skuldir og rétta af slæma stöðu. Hann talaði ekki sértækt um Deutsche Bank en í ljósi þess að bankinn hefur áratugum saman verið hryggjarstykki í evrópska bankakerfinu, þá er óhjákvæmilegt að spjótin beinist að honum. Upphæðin sem hann nefnir er líka há, eða sem nemur margföldu markaðsvirði bankans miðað við stöðu mála í síðustu viku. „Ég sé fram á langa, hæga og djúpstæða niðursveiflu,“ sagði Folkerts-Landau í viðtalinu. Hann sagði efnahagslega stöðu Evrópu vera veika. Ekki væru komnar upp sömu aðstæður og í aðdraganda hremmingana 2007 og 2008, en til lengri tíma litið þá benti fátt til annars en erfiðleika í Evrópu. En hann ítrekaði að tafarlausra aðgerða væri þörf, til að bæta slæmt ástand í evrópska bankakerfinu.
Deutsche Bank og Ísland
Óhætt er að segja að þýski risabankinn hafi verið með mikla tengingu við Íslands og íslenska fjárfesta fyrir hrunið hér landi, í október 2008. Þá hefur bankinn oft verið nærri ýmsum málum sem tengjast kröfuhöfunum eftir hrunið.
Eftir hrunið hefur bankinn verið með puttana í ýmsum stærstu hagsmunamálum hagkerfisins og augljóslega verið að gæta hagsmuna sinna. Þar má nefna ýmis atriði til sögunnar.
Bankinn bauðst til að taka yfir Icesave-skuldina, og eignir á móti, þegar deilur um innstæðurnar stóðu sem hæst milli íslenskra stjórnvalda, þrotabús Landsbankans og yfirvalda í Hollandi og Bretlandi.
Þá hefur bankinn komið að skuldabréfaútgáfu fyrir íslensk fyrirtæki í töluvert miklu mæli eftir hrunið, meðal annars sem milligönguaðili fyrir Landsvirkjun árið 2010, þegar flest sund voruð lokuð erlendis fyrir íslensk fyrirtæki. Samtals var útgáfan upp á 180 milljónir evra í það skiptið, eða tæplega 30 milljarða króna. Hún var mikilvæg fyrir Landsvirkjun og eigandann íslenska ríkið, þó vextirnir hafa sögulega verið óhagstæðir.
Deutsche Bank fékk einnig greidda 35 milljarða frá Peru, dótturfélagi Lýsingar, innan úr haftahagkerfinu í mars 2012 en Pera var veðsett bankanum til tryggingar fyrir lánveitingum til Lýsingarsamstæðunnar á þessum tíma.
Stærsta einstaka skuldbinding Deutsche Bank gagnvart Íslandi fyrir hrunið var ríflega fjögurra milljarða evra lán sem bankinn beitt Björgólfi Thor Björgólfssyni, til að yfirtaka Actavis. Eftir hrunið var bankinn svo stærsti kröfuhafinn í endurskipulagningu á öllu eignasafni Björgólfs Thors, en með sameiningu við önnur lyfjafyrirtæki, og mikla endurskipulagningu í rekstri, hefur bankinn fengið þessa skuld til baka.