1. Fjöldi rafbíla á Íslandi fimmfaldaðist á tæpum tveimur árum, frá janúar 2014 til september í fyrra. Þeir voru þá orðnir yfir 500 talsins en eru nú orðnir meira en 800. Tvinnbílarnir svokölluðu, þeir bílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni, eru vinsælli og voru síðasta haust um 1.500 talsins.
2. Orka náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, á og rekur þrettán hraðhleðslustöðvar á landinu. Flestar eru á höfuðborgarsvæðinu, en einnig eru stöðvar á Akureyri, Borgarnesi, Selfossi, Fitjum, Akranesi og sú nýjasta er við Hellisheiðarvirkjun. Hér er hægt að sjá hvort þær séu í lagi eða ekki.
3. Noregur er með hæsta hlutfall rafbíla í heimi, en 22,4 prósent bílaflota Norðmanna eru rafbílar. Það er engin tilviljun, því norsk stjórnvöld ákváðu að auka hvatann fyrir notendur rafbíla, til dæmis með lækkun tolla á rafbílum, veita gjaldfrjáls bílastæði, búa til sérstakar akreinar fyrir umhverfisvæna bíla og veita ókeypis aðgang í gegn um tollahlið.
4. Það tekur um það bil hálftíma að hlaða rafbíl um 80 prósent með hraðhleðslustöð. Alla rafbíla er hins vegar hægt að hlaða í venjulegri innstungu (220 til 240 volt) og tekur þá að jafnaði um fjóra til átta tíma að fullhlaða bílinn ef rafhlaðan er alveg tóm.
5. Mannvirkjastofnun mælir með því að eigendur rafbíla komi fyrir sérstakri innstungu heima fyrir sem henti sérstaklega fyrir rafbíla. Leiðbeiningar um það má nálgast hér.
6. Það er töluvert ódýrara að keyra rafbíl heldur en bensínbíl. Samkvæmt rafbílareikni Orkuseturs kostar 3,18 krónur að keyra Nissan Leaf rafbíl. Til samanburðar kostar 12,06 krónur á kílómeter að keyra Toyota Yaris, sem eru mjög eyðslugrannir bílar.
7. Vinsælustu rafbílarnir á íslenskum markaði eru meðal annars rafbílar Nissan, Golf, Tesla.
8. Einn eftirsóttasti, og dýrasti, rafmagnsbíllinn á markaðnum er Teslan. Þegar nýjasta módelið var kynnt opinberlega í Los Angeles í Bandaríkjunum í apríl síðastliðnum var búið að leggja inn um 250 þúsund pantanir á tveimur sólarhringum. Hver bíll kostaði um 35 þúsund dollara, eða um 4,3 milljónir króna. Þetta var langódýrasta Teslan til þessa. Model 3 Tesla verður tilbúin til afhendingar í lok árs 2017.
9. Það eru um 50 Teslur á götunni á Íslandi. Fyrirtækið Even sérhæfir sig í sölu á rafbílum á Íslandi. Á heimasíðu þeirra er verðskrá yfir Tesla Model S og kostar sá ódýrasti 11,7 milljónir króna. Dýrasta týpan kostar 17,55 milljónir. Fyrstu 5 Model X, sem eru rafjeppar, koma til landsins í ágúst og september. Til samanburðar má taka fram að einungis tíu Teslur keyra um götur Indlands.
10. Í rafbílum eru mun færri hlutir sem geta bilað heldur en í venjulegum bensínbíl. Í rafbílum eru oftast einungis þrír til fjórir hreyfanlegir hlutir í mótor, en oft meira en þúsund í bensín- eða díselvél og gírkassa, er fram kemur á vefsíðu Even.
Uppfært 25. júlí klukkan 14.45: Sjöundi liður var uppfærður og við bætt á listann rafbílum Volkswagen Golf. Tesla og Zoe voru tekin út.