Ef svo fer að Hillary Clinton verði kjörin forseti Bandaríkjanna í kosningunum 8. nóvember næstkomandi yrði það sögulegt, í fleiri en einum skilningi. Hillary Clinton yrði fyrsta konan í sögu Bandaríkjanna til að gegna þessu valdamikla embætti og bóndi hennar, Bill, fyrsti karlkyns forsetamakinn, fyrsti forsetaeiginmaðurinn. Auk þess yrði þetta í fyrsta sinn sem hjón hefðu stólaskipti, ef svo má að orði komast, í Hvíta húsinu.
Síðan Martha Washington stóð við hlið George Washington þegar hann sór embættiseið sem fyrsti forseti Bandaríkjanna 30. apríl 1789 hefur það verið hlutverk “the first lady”, forsetafrúarinnar, að standa við hlið manns síns, vera fyrirmynd annarra kvenna, ætíð vel til höfð, stoð og stytta forsetans.
Bill í húsverkunum
Formlega hefur forsetamakinn engar skyldur, en það er hinsvegar löng hefð fyrir því að makinn sé við hlið forsetans við opinberar athafnir, stórar og smáar, annist í samráði við starfsfólk Hvíta hússins skipulagningu veislna og iðulega í hlutverki gestgjafans við slík tækifæri. Bill Clinton er vissulega mjög veisluvanur, þykir einstaklega skemmtilegur ræðumaður og kann alla siðina. Kannski myndi hann ekki kunna illa við sig í hlutverkinu, hver veit? Annað mál er svo það að löndum hans myndi þykja það einkennilegt í meira lagi að vita af honum í húsverkunum. Raða til borðs, ákveða hvernig servíetturnar skuli brotnar, hvaða glös skuli nota og svo framvegis. Bandaríkjamenn eru íhaldssamir þegar kemur að hlutverkaskiptingu kynjanna og margir þar vestra ættu líklega erfitt með að venjast Bill Clinton í hlutverki sem hefðin býður að kona gegni. Ef svo færi að Hillary Clinton bæri sigur úr býtum í forsetakosningunum er því líklegt að hlutverk makans breytist að þessu leyti.
Fyrirmyndin
Eins og áður var getið fylgjast Bandaríkjamenn ætíð grannt með forsetafrúnni. Hverju hún klæðist, hvernig hárgreiðslan er o.s.frv. Þeir mynda sér líka ákveðnar skoðanir á framkomu hennar við öll möguleg tækifæri, hvort hún tali við börnin og hvernig hún svari spurningum almennings og fréttamanna. Bill Clinton yrði ekki í vandræðum með að spjalla við börnin né heldur stæði í honum að svara fréttamönnum. Sagan sýnir að þar á hann fáa jafnoka. Þegar kemur að klæðnaði og hárgreiðslu er kannski annað upp á teningnum. Það er ekki mikil fjölbreytni í fatavali Bills, frekar en svo margra annarra karla og sama má segja um hárgreiðsluna.
Það er líka útbreidd skoðun meðal Bandaríkjamanna að maki forsetans eigi að vera góð fyrirmynd, hið trygga og trausta bakland sem ætíð er til staðar. Þarna vandast málið hvað Bill varðar. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að í einkalífi þeirra Clinton hjóna hefur gengið á ýmsu, að ekki sé meira sagt. Blaðamaður New York Times komst einhverju sinni svo að orði að forsetanum fyrrverandi hefði skroppið fótur á vegi dyggðarinnar, ekki þarf að hafa fleiri orð um þá fullyrðingu.
Eleanor Roosevelt - Edith Wilson – Hillary Clinton
Þótt flestar forsetafrúrnar hafi fyrst og fremst sinnt því sem stundum hefur verið kallað hefðbundið eiginkonuhlutverk er það þó ekki algilt. Eleanor Roosevelt eiginkona Franklin D. Roosevelt, sem var forseti 1933 - 1945, tók mikinn þátt í stjórnmálum og eftir að verunni í Hvíta húsinu lauk átti hún meðal annars þátt í að semja mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Edith Wilson tók við, bakvið tjöldin, mörgum af störfum eiginmannsins Woodrow Wilson, sem var forseti 1913 – 1921, eftir að hann fékk slag árið 1919 þegar tvö ár voru eftir af kjörtímabilinu.
Hillary Clinton var mjög virk á sviði stjórnmálanna í forsetatíð eiginmannsins 1993 - 2001 og var síðar kjörin á þing. Hún var utanríkisráðherra í stjórn Barack Obama 2009 – 2013. Verði hún næsti forseti Bandaríkjanna má telja öruggt að Bill forsetamaður taki virkan þátt í stjórnmálum. Í viðtali við vikuritið People Magazine var hún spurð um hlutverk bóndans ef hún yrði kjörin forseti. Hún svaraði því til að hann yrði ekki í húsverkunum, hún myndi njóta aðstoðar hans í efnahagsmálum, finna leiðir til að fjölga störfum og sinna sérstökum verkefnum. „Hann kann þetta allt og þekkir marga” sagði Hillary.
Bill Clinton hefur sagt að verði Hillary forseti muni hann gera allt sem í sínu valdi standi til að aðstoða hana í hinu vandasama og erfiða embætti. „Að verða forsetaeiginmaður yrði spennandi verkefni” sagði Bill Clinton.