Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hagnaðist um 1.221 milljón króna á árinu 2015. Þegar búið er að draga vörunotkun tóbaks frá tekjum ÁTVR af sölu tóbaks standa eftir 1.469 milljónir króna, eða 248 milljónir króna umfram hagnað ÁTVR. Fyrirtækið hefur aldrei viljað opinbera hver rekstrarkostnaður þess vegna tóbakssölu í heild er, en fyrir liggur að tóbakssalan, sem er heildsala, útheimtir mun umfangsminni rekstur en áfengissalan, sem er smásala.
Í formála ársskýrslu ÁTVR 2015 gengst forstjóri fyrirtækisins þó við því að hlutfallslega meiri hagnaður sé af tóbakssölunni en áfengissölunni.
Tóbaksala þriðjungur allra tekna
Tekjur ÁTVR af áfengissölu í fyrra voru 29,4 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2015. Þar af komu 19,8 milljarðar króna í kassann vegna sölu áfengis.
Tekjur ÁTVR af tóbakssölu voru hins vegar 9,5 milljarðar króna. Það er um þriðjungur allra tekna fyrirtækisins á árinu. Sala tóbaks útheimtir hins vegar mun minna umstang en áfengissala ÁTVR, sem fer fram í 50 verslunum víðsvegar um landið. Kjarninn hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum leitað upplýsinga hjá ÁTVR um hver beinn kostnaður af tóbakssölu fyrirtækisins er. Stjórnendur ÁTVR hafa ekki viljað upplýsa um það.
Það er þó hægt að lesa ýmislegt út úr ársreikningi fyrirtækisins um hver slíkur kostnaður er. Í fyrsta lagi er öll tóbaksdreifing ÁTVR nú miðlæg og fer því fram á einum og sama staðnum. Sá staður er Útgarður, dreifingarmiðstöð fyrirtækisins í Reykjavík. Í ársreikningi ÁTVR fyrir árið 2013 sagði að „mikið hagræði“ hefði fylgt þessari breytingu þar sem birgðahald og vörumeðhöndlun hafi minnkað og dreifingakostnaður lækkað. Samhliða hafi verið lögð áhersla á rafrænar pantanir, sem sparaði enn meira umstang.
Vilja ekki upplýsa um aðskilinn kostnað
Þegar Kjarninn fór fram á að fá upplýsingar um hver kostnaður ÁTVR af tóbakssölu væri, með fyrirspurn sem send var í ágúst 2014, var svarið nei. Í svari Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, sagði að „Kostnaður vegna tóbakssölu er ekki færður sérstaklega í bókhaldi ÁTVR nema vörunotkun tóbaks[...] Tóbaksgjaldið er skilgreint sem hluti af kostnaðarverði seldra vara í bókhaldi ÁTVR og fært undir vörunotkun“.
Vörunotkun tóbaks nam 8,1 milljarði króna í fyrra. Ef vörunotkun tóbaks, hinn eiginlegi rekstrarkostnaður tóbakssölu ÁTVR, er dregin frá tekjum ÁTVR af sölu á tóbaki standa eftir 1.469 milljónir króna. Það er 248 milljónum krónum meira en hagnaður ÁTVR var á árinu 2015. Þar sem ÁTVR neitar að gefa upp hvernig sameiginlegur kostnaður vegna áfengissölu og tóbakssölu skiptist - kostnaður sem er til að mynda til kominn vegna húsnæðis og starfsfólks sem starfar við umsýslu beggja vara - þá er ekki hægt með fullri vissu að segja til um hversu mikill hluti af hagnaði ÁTVR er tilkomin vegna tóbakssölu.
Í ljósi þess að stjórnendur ÁTVR segja í ársskýrslum fyrirtækisins að mikil hagræðing hafi orðið í tóbakssölunni, og að hún fer fram á mjög einfaldan hátt á einum og saman staðnum, má þó með nokkurri vissu ætla að þorri hagnaðar ÁTVR komi úr tóbakssölu en að áfengissalan sé rekin í tapi eða nálægt núlli.
Í formála Ívars J. Arndal, forstjóra ÁTVR, í ársskýrslu fyrirtækisins fyrir árið 2015, er þessi staða viðurkennd að einhverju leyti. Þar segir forstjórinn að heildsala tóbaks skili „ÁTVR hlutfallslega meiri hagnaði en smásala áfengis. Munurinn ræðst fyrst og fremst af ákvörðun Alþingis um álagningu.“
Er munurinn Alþingi að kenna?
Alþingi tekur ákvörðun um hvert áfengis- og tóbaksgöld eigi að vera. Á árinu 2015 voru greiðslur ÁTVR vegna tóbaksgjalda 5.650 milljónir króna, eða 59 prósent af öllum tekjum fyrirtækisins vegna tóbakssölu. Þessar tekjur myndu renna í ríkissjóð óháð því hver myndi selja tóbakið.
Áfengisgjald sem greitt var til ríkissjóðs var 9.230 milljónir króna, eða 47 prósent af tekjum ÁTVR vegna sölu áfengis.
Því liggur fyrir að mun minna hlutfall af tekjur ÁTVR vegna áfengissölu rennur til ríkisins vegna áfengissgjalds en tóbaksgjalds, og þar af leiðandi fer stærri hluti af tekjum fyrirtækisins vegna áfengissölu í rekstrarkostnað en vegna tóbakssölu. Stærsti hluti þess rekstrarkostnaðar er vegna reksturs 50 áfengisverslana um allt land, þar af 16 stórra verslana. Fjöldi vínbúða hefur tæplega fjórfaldast frá árinu 1986. Alls var heildarfjöldi starfsmanna sem fengu greidd laun hjá fyrirtækinu í fyrra 717 og ársverk 287. Umfang verslanareksturs ÁTVR gerir fyrirtækið að einum umsvifamesta smásala á landinu. Bónus, stærsta matvöruverslun landsins, rekur til að mynda 31 verslun um allt land.
Hafna því að tóbakið niðurgreiði áfengisverslun
ÁTVR hefur alltaf brugðist hart við þegar því hefur verið haldið fram að tóbakssalan niðurgreiði umfangsmikla smásölu á áfengi sem fyrirtækið stundar. Fyrir rúmu ári vann fyrirtækið Clever Data skýrslu um rekstur ÁTVR þar sem niðurstaðan var sú að ekki væri eiginlegur hagnaður af starfsemi ÁTVR á föstu verðlagi ársins 2014. Ein helsta ástæða þess sé sú að langtum meiri rekstrarhagnaður væri af sölu tóbaks en sölu áfengis, enda sé tóbakinu einungis dreift í heildsölu á meðan að áfengið er selt í verslunum sem ÁTVR á og rekur út um allt land.
ÁTVR sendi frá sér fréttatilkynningu í kjölfar skýrslunnar þar sem fyrirtækið hafnaði alfarið niðurstöðum Clever Data. Þar stóð m.a.: "Niðurstöður hennar eru vangaveltur sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum og ÁTVR hafnar þeim alfarið. ÁTVR hefur aldrei verið rekin með tapi frá því að áfengisgjöld og tóbaksgjöld voru aðskilin frá rekstrartekjum verslunarinnar."
Ríki í ríkinu
Engin stjórn er yfir ÁTVR, sem skilgreind er sem stofnun samkvæmt lögum. Slík hefur ekki verið til staðar í nokkur ár heldur heyrir stofnunin beint undir fjármála- og efnahagsráðherra. Yfirstjórn fyrirtækisins, sem samanstendur af Ívari J. Arndal forstjóra og framkvæmdastjórum, tekur þess í stað ákvarðanir tengdar rekstri ÁTVR. Fyrirtækið sker sig þannig frá öðrum stórum fyrirtækjum í opinberri eigu, eins og til dæmis orkufyrirtækjum, þar sem eigandinn kemur ekki að beinni stjórn þess.
Mikil pólitískt átök hafa átt sér stað á liðnum árum um hvort að gefa eigi sölu og auglýsingar á áfengi frjálsa, og afnema þar með einokun ÁTVR á sölunni. Frumvarp sem hefur það markmið að afnema einokum ríkisins á sölu áfengis var lagt fram í september í fyrra. Frumvarpið var afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd í mars 2016 en hefur ekki fengið frekari þinglega meðferð.
Vill ekki að Hagar komist í yfirburðarstöðu
Forstjóri ÁTVR hefur ítrekað gert þessi pólitísku átök að umtalsefni í formála sínum við ársskýrslu ÁTVR á undanförnum árum. Í þeirri nýjustu, fyrir árið 2015, segir hann að fórnarkostnaðurinn við það að gefa sölu á áfengi frjálsa verði hár. „Málið er einmitt að einkaaðilar eru ótrúlega góðir að selja. Þeir vilja alltaf selja meira og meira, auka markaðshlutdeildina og auðvitað skila hagnaði í vasa eigendanna. Það er kjarni frjáls markaðar og samkeppnisrekstrar. Þar eru einkaaðilar bestir. Þess vegna eru þeir ekki heppilegir þegar markmiðið er ekki að auka söluna eða hagnast á henni heldur að þjónusta almenning við að kaupa og neyta vöru sem getur verið mjög skaðleg heilsu manna. Þá er best að hafa hlutlausan aðila sem hefur engan persónulegan ávinning af sölunni. Ekki þarf að leita lengra en til Danmerkur til þess að átta sig á þessu. Þar sjá einkaaðilar um áfengissöluna og hirða ágóðann. Neysla áfengis á mann í Danmörku er miklu meiri en á Íslandi og kostnaður danska samfélagsins af misnotkun áfengis gríðarlegur. Skattborgurum er sendur reikningurinn.“
Ívar beinir síðan spjótum sínum að Högum, stærsta smásölufyrirtæki á Íslandi sem rekur meðal annars Bónus og Hagkaup. Hagar hafa ítrekað lýst því yfir að fyrirtækið vilji að áfengissala ríkisins verði lögð niður. Ívar hefur töluverðar áhyggjur af markaðshlutdeild Haga. „Nú þegar er keðjan með ríflega 50% af matvörumarkaðinum á sinni hendi. Með helming af áfengissölunni myndi veltan hjá matvörurisanum aukast um rúmlega 12 þúsund milljónir á ári. Nú þegar ber hann ægishjálm yfir allri matvöruverslun í landinu. Með áfengissölunni væri matvörurisinn kominn í algera yfirburðastöðu. Varla er það til hagsbóta fyrir neytendur.“