Sumarið 2015 varð uppi fótur og fit þegar bandaríska rannsóknarlögreglan (FBI) komst að því að kínverskir tölvuþrjótar höfðu komist yfir persónuupplýsingar fjögurra milljóna opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum. Upplýsingarnar vörðuðu heilsufar,fjárhagslega stöðu, hjúskaparmál og ýmislegt fleira sem flokkast undir viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Rannsóknarlögreglan leit þetta mjög alvarlegum augum og benti á að erlendir aðilar gætu notað slíkar upplýsingar í margskonar tilgangi. Til að þvinga fram upplýsingar var sérstaklega nefnt í yfirlýsingum rannsóknarlögreglunnar vegna málsins.
Þótt þetta hafi þótt stórmál vestra, ekki síst vegna þess að málið varðaði fjórar milljónir Bandaríkjamanna er hliðstætt mál, og hlutfallslega margfalt stærra, komið upp í Danmörku. Fyrir nokkrum dögum greindu danskir fjölmiðlar frá því að skrifstofu kínverskra ferðamálayfirvalda í Kaupmannahöfn hefðu snemma á árinu 2015 verið sendar, á geisladiskum, persónuupplýsingar rúmlega fimm milljóna Dana. Það eru rúmlega níutíu prósent landsmanna. Skrifstofan sem fékk umrædda geisladiska annast einkum vegabréfaáritanir fólks sem ætlar að ferðast til Kína.
Eins og í lélegri lygasögu
Fréttin um geisladiskana með persónupplýsingunum vakti mikla athygli í Danmörku. „Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst?“ var spurt. Svarið er ekki flókið: geisladiskarnir (tveir) voru sendir í pósti, póstmaðurinn hringdi dyrabjöllu á kínversku ferðamálaskrifstofunni, starfsmaður þar tók á móti umslaginu og kvittaði fyrir móttökunni. Ekki hefur fengist hvort heimilisfangið á umslaginu var hjá kínversku skrifstofunni eða dönsku hagstofunni sem er þar skammt frá og átti að fá diskana, en yfirmaður hjá póstinum sagði augljóst að mannleg mistök ættu sök á því sem gerðist. Sendandinn var Statens Serum Institut sem er rannsóknastofnun danska ríkisins sem annast alls kyns læknisfræðilegar rannsóknir og framleiðslu bóluefna. Starfsmenn Serum Institut hafa fullyrt að bæði nafn viðtakanda og heimilisfang hafi verið rétt en póstmaðurinn einfaldlega lesið rangt á umslagið og kínverski starfsmaðurinn kvittað án þess að lesa utanáskriftina.
Opnaði umslagið og skilaði því svo á réttan stað
Um það sem svo gerðist er einungis einn til frásagnar. Nefnilega hinn kínverski starfsmaður ferðamálskrifstofunnar. Að hans sögn opnaði hann umslagið og sá þá á pappírum sem fylgdu diskunum tveimur að umslagið átti að fara til Hagstofunnar. Hann rölti þvínæst yfir í Hagstofuna, sem er eins og áður sagði skammt frá, og afhenti umslagið þar. Lét jafnframt svo ummælt að hann hefði ekki tekið diskana úr umslaginu, einungis lesið á pappírana sem fylgdu og strax séð að þetta væri ekki ætlað kínversku ferðamálaskrifstofunni. Þessa yfirlýsingu starfsmannsins hefur kínverska ferðamálaskrifstofan síðar staðfest skriflega.
Segir hann satt?
Það er stóra spurningin. Ef starfsmaðurinn segir satt og rétt frá, semsé að hann hafi ekki einu sinni tekið geisladiskana með upplýsingum um rúmlega fimm milljónir Dana uppúr umslaginu er enginn skaði skeður, að mati danska Tölvueftirlitsins (Datatilsynet). Ekki sé ástæða til annars en trúa því að kínverski starfsmaðurinn segi satt. Danskir fjölmiðlar setja stórt spurningarmerki við þessa yfirlýsingu. Tölvueftirlitið geti ekki með nokkru móti, þrátt fyrir yfirlýsingar kínverska starfsmannsins, fullyrt að diskarnir hafi ekki annaðhvort verið skoðaðir eða afritaðir áður en þeim var komið til Hagstofunnar.
Dagblaðið Politiken sem hefur fjallað ítarlega um geisladiskamálið segir engan vafa á að kínversk stjórnvöld hafi mikinn áhuga á hvers konar upplýsingum um danska ríkisborgara, rétt eins og ríkisborgara annarra landa. Gögnin á geisladiskunum yrðu því, að mati Politiken, hvalreki á fjörur stjórnvalda í Beijing. Kínversk stjórnvöld hafi á undanförnum árum aflað mikilla upplýsinga um íbúa annarra landa og þótt enginn viti hvort eða hvernig slíkar upplýsingar gagnist sé það afar óþægileg tilhugsun að kínversk stjórnvöld hafi slík gögn undir höndum.
Innihald diskanna var ekki dulkóðað
Upplýst hefur verið að innihald geisladiskanna tveggja var ekki dulkóðað. Danskir tölvusérfræðingar fullyrða að þótt Kínverjum yrði ekki skotaskuld úr að ráða fram úr dulkóðuðum upplýsingum af þessu tagi sé það í meira lagi undarlegt að stofnun eins og Serum Institut skuli senda frá sér viðkvæmar upplýsingar sem hver sem er geti lesið, einfaldlega með því að stinga geisladiskinum í heimilistölvuna. Slíkt sé ekki í lagi. Sérfræðingar í tölvumálum hafa reyndar lengi sagt að Danir séu afar kærulausir varðandi tölvuöryggismál, einsog margoft hafi komið í ljós á undanförnum árum.
Henrik Kramshøj, danskur sérfræðingur í öryggismálum, tekur jafnvel svo djúpt í árinni að Kínverjar hafi nú þegar allar þær upplýsingar um danska ríkisborgara sem þeir telji sig nokkru sinni hafa þörf fyrir og þess vegna hafi innihald geisladiskanna tveggja ekki verið neinn búhnykkur.
Þingmenn vilja breytt vinnulag
Þingmenn þriggja flokka á danska þinginu, Folketinget, krefjast þess að Sophie Løhde, ráðherra heilbrigðismála, láti málið til sína taka. Þeir segja það fyrir neðan allar hellur að viðkvæmar persónuupplýsingar séu sendar með póstinum, þær eigi starfsmaður sendanda að afhenda viðtakanda milliliðalaust, sé þess nokkur kostur. Sama gildi auðvitað um fjölmörg önnur gögn. Ráðherrann sagðist í viðtali vera jafn undrandi og allir aðrir á „geisladiskafréttinni“ og augljóslega þyrfti að finna leiðir til að tryggja að svona klúður geti ekki endurtekið sig.