Bandarískir stjórnmálamenn reyna að koma í veg fyrir að Danir heimili lagningu gasleiðslu sem fyrirtækið Nord Stream hyggst leggja, frá Vyborg í Rússlandi til Greifswald í Þýskalandi. Ætlunin er að leiðslan liggi, að hluta, á dönsku hafsvæði í nágrenni Borgundarhólms og hún er því háð samþykki Dana.
Lagning leiðslunnar, sem nefnist Nord Stream 2 hefur verið lengi í undirbúningi en áætlanir gera ráð fyrir að verkinu verði lokið á árinu 2019.
Nord Stream var stofnað árið 2005, hét þá North European Gas Pipeline Company en fékk núverandi heiti ári síðar. Fyrirtækið varð til í samvinnu Rússa og Þjóðverja, Gerhard Schröder kanslari Þýskalands og Vladimir Putin forseti Rússlands undirrituðu stofnsamninginn, í Sviss en undirbúningur hófst átta árum fyrr, árið 1997. Rússneska fyrirtækið Gazprom á rúmlega helmings hlut í Nord Stream, þýsku fyrirtækin Wintershall og E.ON eiga hvort um sig 15.5% hlutafjár og nokkur önnur fyrirtæki minni hlut.
Nord Stream fyrirtækið var stofnað í þeim tilgangi að leggja gasleiðslu, sem síðar fékk nafnið Nord Stream 1, sjóleiðina frá Vyborg í Rússlandi til Greifswald í Þýskalandi. Leiðslan, sem er 1224 kílómetra löng, var tekin í notkun í september 2011. Nord Stream 1 er í raun tvær leiðslur, hlið við hlið á sjávarbotninum. Ætlunin er að nýja lögnin, Nord Stream 2, liggi við hlið þeirra, um Finnlandsflóa og Eystrasalt.
Rússar leggja mikla áherslu á nýju leiðsluna
Nord Stream 1 gasleiðslan leysti úr brýnni þörf. Rússar vinna geysimikið gas og selja stóran hluta þess til annarra landa. Stór gasleiðsla liggur um Hvíta-Rússland og Úkraínu til Póllands, þrjár aðrar stórar leiðslur liggja um Úkraínu, tvær þeirra til Vestur-Evrópu og sú þriðja til Rúmeníu. Stærst þessara þriggja er leiðsla sem ber heitið Bræðralag. Ekki er beinlínis hægt að segja að það sé réttnefni, það hefur nefnilega verið allt annað en bræðraþel sem einkennt hefur samskipti Rússlands og Úkraínu að undanförnu.
Úkraínumenn, sem kaupa gas af Rússum, hafa ekki alltaf getað staðið í skilum með greiðslur og Rússar hafa þá hótað að loka fyrir gasstreymið. Þá hafa Úkraínumenn á móti hótað (og stundum ekki látið standa við orðin tóm) að loka fyrir gegnumstreymið til Vestur-Evrópu. Rússum þykir lítt þolandi að vera þannig háðir Úkraínu að þessu leyti og það er helsta ástæða þess að rússnesk stjórnvöld, með Pútín í broddi fylkingar, leggja mikla áherslu á lagningu Nord Stream 2 leiðslunnar.
Er þörf fyrir nýju leiðsluna?
Svarið við þeirri spurningu fer eftir því hver svarar. Rússar segja brýna þörf fyrir þessa nýju leiðslu. Hún tryggi öryggi í gasflutningum, gasnotkun aukist með ári hverju og ekki sé útlit fyrir að það breytist. Innan Evrópusambandsins eru margir á þeirri skoðun að núverandi lagnakerfi anni fullkomlega flutningsþörfinni og ekki sé útlit fyrir að það breytist á næstu árum. Lítil sem engin þörf sé því fyrir nýju leiðsluna og því sé rétt að flýta sér hægt.
Innan Evrópusambandsins er sú skoðun útbreidd að öryggi í gasflutningum og aukin sala á næstu árum sé ekki efst í huga Rússa varðandi nýju leiðsluna. Þeir hafi annað í huga. Nefnilega það að þeim þætti ákjósanlegt að gasleiðslur til Úkraínu yrðu algjörlega aðgreindar frá öðrum leiðslum. Þá hefðu þeir „gasráð“ Úkraínu algjörlega í hendi sér og gætu lokað fyrir streymið að vild. Þetta snýst semsé, að mati ESB miklu frekar um samband Rússlands og Úkraínu en um gasflutningaöryggi íbúa Vestur-Evrópu. Þetta sé með öðrum orðum milliríkjapólitík þar sem Rússar vilji hafa tögl og haldir í samskiptum sínum við Úkraínu.
Bandaríkjamenn þrýsta á Evrópusambandið og Dani
Á leiðtogafundi NATO fyrir skömmu ræddi Barack Obama Bandaríkjaforseti um nýju gasleiðsluna við Andrzej Duda forseta Póllands. Obama sagði þar að Nord Stream 2 leiðslan væri „slæm hugmynd“. Fyrir tíu dögum sendu sex virtir bandarískir öldungadeildarþingmenn (svokallaðir þungavigtarmenn), repúblikanar og demókratar, Jean-Claude Juncker formanni framkvæmdastjórnar ESB bréf þarsem þeir lýsa áhyggjum sínum vegna Nord Stream 2. Í bréfinu segja þingmennirnir að tilgangur Rússa sé augljóslega að gera Vestur-Evrópu háðari rússneskri orku og styrkja þannig stöðu sína. Bandarísku þingmennirnir benda jafnframt á leiðir til að koma í veg fyrir lagningu leiðslunnar og nefna þar sérstaklega danska hafsvæðið við Borgundarhólm, en Danir verða að samþykkja lagningu leiðslunnar áður en hægt verður að hefjast handa. Framkvæmdastjórn ESB hefur ekki brugðist við bréfi bandarísku þingmannanna en fulltrúar á Evrópuþinginu hafa einnig lýst áhyggjum vegna málsins. Pólverjar og fleiri austur-evrópsk ríki hafa sömuleiðis hvatt framkvæmdastjórnina til að koma í veg fyrir að leiðslan verði lögð. Robin L. Dunnigan aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna var fyrr á árinu í Kaupmannahöfn til að ræða þessi mál við danska ráðherra og lýsti þar áhyggjum Bandaríkjastjórnar.
Hvað gera Danir?
Á danska þinginu, Folketinget, eru skoðanir skiptar. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra hefur sagt að rétt sé að fara sér hægt, enn sé talsvert í að Danir þurfi að ákveða hvernig brugðist skuli við þegar umsókn um „grænt ljós“ vegna leiðslunnar berst. Í blaðaviðtölum hefur Lars Løkke Rasmussen sagt að Danir vilji halda góðum tengslum við Rússa en hinsvegar vegi sjónarmið ESB ríkjanna, sem mörg hafa lýst andstöðu, þungt í þessu sambandi. Best væri að ESB ríkin stæðu einhuga þegar að ákvörðun kæmi sagði ráðherrann. „Þar þurfum við skýrari línur áður en til ákvörðunar kemur.“ Búast má við að umsókn um leyfi Dana verði lögð fram á næsta ári, 2017.