Ísland hefur frá því á föstudaginn verið dæmt í fimm málum fyrir EFTA dómstólnum, og í öllum tilvikum hefur íslenska ríkið verið dæmt til þess að greiða allan málskostnað vegna málaferlanna. Dómar voru kveðnir upp á föstudag og þriðjudag.
Fjögur málanna voru höfðuð af ESA, eftirlitsstofnun EFTA, vegna þess að Ísland hafði ekki innleitt Evróputilskipanir á réttum tíma. Það fimmta snýr að því að Ísland endurheimti ekki ólögmæta ríkisaðstoð frá fimm fyrirtækjum eins og ESA hafði kveðið á um að ætti að gera.
Sem fyrr segir eru fjögur mál tilkomin vegna þess að Ísland innleiddi ekki Evróputilskipanir, sem ríkinu ber að gera vegna EES samningsins. Tímarammi er settur öllum ríkjum til þess að taka upp tilskipanir af þessu tagi, og þegar Ísland innleiðir ekki á réttum tíma fer eftirlitsstofnun EFTA í málið. Íslensk stjórnvöld fá þá formleg bréf þar sem þeim er tilkynnt að þau hafi með því brotið gegn EES samningnum. Í þremur þessara mála svöruðu íslensk stjórnvöld ekki bréfum ESA.
Næsta skref ESA er þá að senda frá sér rökstutt álit með niðurstöðu, þar sem Íslandi er gert að grípa til aðgerða innan tveggja mánaða. Í sömu þremur málunum var því ekki heldur svarað.
Þá er síðasta skrefið að fara í mál fyrir EFTA dómstólnum og fá brot á EES samningnum staðfest, sem var gert í öllum tilvikum.
Innleiðingarhallinn verstur hér
Ísland stendur sig verst allra þeirra 31 ríkja sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) í að innleiða tilskipanir sem ríkin hafa skuldbundið sig til að innleiða í lög innan tímamarka. Þetta er iðulega kallað innleiðingarhalli, og innleiðingarhalli Íslands er 1,8 prósent. Hin EFTA-ríkin sem eru aðilar að EES, Liecthenstein og Noregur, standa sig mun betur. Í Liecthenstein er innleiðingarhallinn 1,2 prósent en í Noregi enginn. Meðal innleiðingarhali í Evrópusambandsríkjum er 0,7 prósent.
Í nýjasta frammistöðumati ESA frá því um miðjan júlí kemur fram að Ísland hafi ekki innleitt 16 tilskipanir innan tímamarka. „Þegar EES-ríki innleiðir ekki tilskipun innri markaðarins á réttum tíma fá einstaklingar og fyrirtæki ekki notið þeirra réttinda sem hún felur í sér. Íslensk fyrirtæki kunna til dæmis að útilokast frá aðgangi að innri markaðinum ef samræmdar tæknilegar reglur eru ekki innleiddar. Því lengur sem innleiðing dregst, því alvarlegri geta afleiðingarnar orðið,“ sagði í frammistöðumatinu.
ESA hefur ítrekað sagt að Ísland þurfi að standa sig miklu betur til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart innleiðingu á lögum og reglum EES samningins.
Þvert gegn Evrópustefnunni
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í kjölfar þess að frammistöðumatið var birt um miðjan júlí. Þar kom fram að Ísland hafi stöðugt verið að bæta þessa hlið á framkvæmd EES samningsins. Í nóvember 2014 hafi hallinn verið 2,8% og 3,1% í apríl sama ár.
Í mars 2014, stuttu eftir að íslensk stjórnvöld höfðu sent bréf til Evrópusambandsins þar sem því var lýst yfir að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að ESB, kynntu stjórnvöld nýja Evrópustefnu sína.
Þar var því lýst yfir að ráðast ætti í mikið átak til að gera betur í þessum málum. Á árinu 2014 átti upptöku gerða í EES-samninginn að vera hraðað umtalsvert og eigi síðar en á fyrri hluta árs 2015 átti innleiðingarhalli EES gerða að vera kominn undir 1%. Á sama tíma átti ekkert dómsmál að vera fyrir EFTA dómstólnum vegna skorts á innleiðingu EES gerða.
Málunum fyrir EFTA dómstólnum hefur hins vegar fjölgað, en sjö mál gegn Íslandi hafa verið í vinnslu hjá dómstólnum undanfarið.