Zíkaveiran virðist ekki ætla að verða eins mikið áhyggjuefni á Ólympíuleikunum í Brasilíu eins og óttast var í fyrstu. Ekki hefur ræst úr verstu spám hvað varðar faraldurinn og sökum veðurfars smitast nú mun færri heldur en í janúar, þegar það var sem heitast í Brasilíu. Sjúkdómavarnarstofnun Bandaríkjanna mælist þó til þess að allar ófrískar konur sem hafa ferðast til Brasilíu láti skoða sig þegar þær snúa heim.
Árstíðabundið ástand
Gunnar Jóhannsson læknir sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gærmorgun að moskítóflugurnar, sem eru aðal-smitberarnir, séu mjög árstíðarbundnar og því sé staðan ekki eins slæm og óttast var í fyrstu.
„Nú er vetur í Suður Ameríku og ekki eins mikill raki, en þá eru færri moskítóflugur á sveimi heldur en í heitustu mánuðunum,“ sagði Gunnar. „Sem dæmi má nefna að í janúar smituðust um 2.000 manns í Rio de Janeiro en í síðasta mánuði komu 200 ný smit fram.“
Smit í 65 löndum
Sóttvarnarlæknir gaf út uppfærðar leiðbeiningar vegna zíkaveirunnar í gær. Þar segir að í byrjun ágústmánaðar 2016 hafi verið vitað um zikaveirusmit með moskítóflugum í alls 65 löndum. Þar af var 51 land þar sem smit zíkaveiru með moskítóflugum varð fyrst vart á árinu 2015. Flest smit hafa orðið í mið og Suður-Ameríku. Í lok júlí varð í fyrsta sinn vart við smit zíkaveiru með moskítóflugum í Bandaríkjunum, því í byrjun ágústmánaðar höfðu alls 14 manns smitast á afmörkuðu svæði í Miami, Florida. Talið er að rekja megi smitið í Miami aftur til 15. júní á þessu ári.
Algengasta smitleið zíkaveirunnar í menn er með biti moskítóflugna. Sýkingin getur líka borist frá móður til fósturs, með blóðgjöf og með kynmökum. Lifandi zíkaveira hefur fundist í sæði í allt að 24 daga frá upphafi einkenna zíkaveirusýkingar.
Fyrsta smit í manni árið 1952
Veiran greindist fyrst í apa í Úganda árið 1947. Fyrsta tilfellið sem greindist í manni var árið 1952. Síðan hafa flest tilfelli greinst í Afríku, Suðaustur Asíu og á Kyrrahafseyjunum þar til faraldurinn braust út í Brasilíu árið 2015.
Talið er að veiran valdi svokölluðu höfuðsmæðarheilkenni hjá fóstrum ef barnshafandi konur eru smitaðar. Heilkennið er alvarlegur fæðingarkalli hjá nýburum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að veiran hafi valdið um 4.000 tilvikum þess í Brasilíu árið 2015, samanborið við 147 tilvik 2014.
Fjölskyldan áttaði sig á tengslunum
Gunnar sagði í Morgunútvarpinu frá tilurð þessarar kenningar. Hún kom til þegar brasilísk fjölskylda, sem samanstóð af barnataugalæknum, fór að skoða málið. Móðirin, dóttir og sonurinn voru öll barnataugalæknar og ráku sínar stofur.
„Móðirin fór að taka eftir því að mörg tilfelli höfuðsmæðarheilkennis komu á stofuna til hennar. Hún spurði dóttur sína hvort hún tæki eftir þessu á stofunni sinni, sem hún gerði. Bróðirinn sagði það sama. Í kjölfarið sendu þau út tilkynningu til heilbrigðisyfirvalda sem hófu skimun og þá kom í ljós að margfallt fleiri tilfelli voru að greinast og mæður barnanna höfðu smitast áður af zíkaveirunni,“ sagði Gunnar. Tengsl zíkaveirunnar og höfuðsmæðarheilkennis hafa þó ekki verið sönnuð, þó að líkindin séu töluverð.
Nota smokk alla meðgönguna
Sóttvarnarlæknir beinir því til karlmanna sem hafa verið á svæðum þar sem zíkaveiran er og eiga kynmök við barnshafandi konu, að nota smokk þar til meðgöngu er lokið. Þeir sem hafa dvalið á svæðinu geta komið í veg fyrir að smita aðra með því að nota smokka. Mælt er með notkun smokka í átta vikur, ef einstaklingurinn hefur ekki haft einkenni zíkaveiru sýkingar, en í sex mánuði ef viðkomandi hefur fengið einkenni zíkaveiru.