Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa skipað 536 nefndir á kjörtímabilinu. Þar af er nákvæmlega helmingur skipaður af frumkvæði ráðherra en hinn helmingurinn eru lögbundnar nefndir. Af þessum 536 nefndum höfðu 124 lokið störfum í vor, eða rúmur fimmtungur. Kostnaður vegna hópanna er alls rúmur 1,1 milljarður króna, en kostnaður er afar misjafn eftir ráðuneytum. Til að mynda kostuðu nefndir utanríkisráðuneytisins ekki neitt, en félags- og húsnæðismálaráðherra greiddi 437 milljónir til sinna nefnda.
Hátt í 3.000 nefndarmenn
Alls hafa 2.910 einstaklingar unnið í þessum nefndum, verkefnisstjórnum eða starfshópum ráðherranna. Langflestir búa á höfuðborgarsvæðinu og er hlutfall kvenna og karla tiltölulega jafnt, að undanskildum hópum sem unnið hafa fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, þar sem hlutfall kvenna var 34 prósent.
Þetta kemur fram í svörum ráðherranna við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna. Bjarkey lagði fram fyrirspurnir til ráðuneytanna í apríl síðastliðnum þar sem meðal annars var spurt um heildarfjölda nefnda, heildarkostnað, fjölda nefnda sem ráðherra skipaði að eigin frumkvæði og hversu margar hefðu lokið störfum. Þá var spurt um fjölda nefndarmanna, kynjahlutfall og búsetu nefndarmanna. Svör ráðherranna miðast við upphaf kjörtímabilsins, vorið 2013, til vorsins 2016. Síðast var svar umhverfis- og auðlindaráðherra birt á síðu Alþingis, föstudaginn 5. ágúst.
Langflestar nefndir hjá Illuga
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað langflestar nefndir, 150 talsins. Þar af eru langflestar lögbundnar, eða 121, og heildarkostnaður fimm milljónir króna. Alls störfuðu 587 manns í nefndum, verkefnisstjórnum eða starfshópum ráðuneytisins. Af þessum 150 nefndum höfðu þó einungis sjö lokið störfum. Hlutfall kvenna er 40 prósent og búa 84 prósent nefndarmanna á höfuðborgarsvæðinu.
Dýrustu nefndirnar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur eytt mestu fé í þær nefndir sem hún skipaði. Kostnaðurinn var alls 437 milljónir króna fyrir 63 nefndir, þar af var 41 skipuð af frumkvæði ráðherra. 500 manns störfuðu í hópunum, þar af voru konur í meirihluta, eða 53 prósent. Búseta nefndarmanna er ekki tilgreind í svari ráðherra. 11 nefndir af 63 hafa lokið störfum.
Þrír ráðherrar, 74 nefndir
OInnanríkisráðuneytið hefur skipað 74 nefndir á kjörtímabilinu, þar af 43 að eigin frumkvæði. Þrír ráðherrar hafa setið í stólum á tímabilinu, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem var um hríð dómsmálaráðherra, og síðast Ólöf Nordal innanríkisráðherra. 20 nefndir sem ráðherra skipaði að eigin frumkvæði hafa lokið störfum, staða lögbundinna nefnda er ekki tilgreind í svarinu. Heildarfjöldi nefndarmanna var 412, þar af voru karlar 58 prósent. 78 prósent nefndarmanna eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Heildarkostnaður vegna nefndanna var 251 milljón og var það næstmesti kostnaðurinn á eftir félags- og húsnæðismálaráðherra.
Skakkt kynjahlutfall
Kynjahlutfall nefndarmanna í nefndum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var ójafnast, en karlar voru 66 prósent nefndarmanna. Ráðherrarnir hafa verið tveir, fyrst Sigurður Ingi Jóhannsson og svo Gunnar Bragi Sveinsson, en svarið nær einungis til ráðherratíðar Sigurðar Inga. Hann skipaði 35 nefndir, þar af 25 að eigin frumkvæði. 15 nefndir hafa lokið störfum. Kostnaður við hina 174 nefndarmenn voru 174 milljónir. 79 prósent þeirra voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.
Nefndarmenn utan af landi
Hæsta hlutfall nefndarmanna sem býr utan höfuðborgarsvæðisins er í nefndum umhverfis- og auðlindaráðherra, en 32 prósent búa á landsbyggðinni. Ráðherra hefur skipað 56 nefndir með 311 nefndarmönnum innanborðs. Flestar, eða 41, voru skipaðar að frumkvæði ráðherra, sem fyrst var Sigurður Ingi Jóhannsson, þegar ráðuneytið var hluti af atvinnuvegaráðuneytinu, og svo Sigrún Magnúsdóttir þegar ráðuneytinu var skipt upp. Kostnaður var 54 milljónir og kynjahlutfall nokkuð jafnt.
102 milljónir í 33 nefndir
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur skipað 35 nefndir, þar af 19 að eigin frumkvæði. Sex hafa lokið störfum. Heildarfjöldi nefndarmanna er 173 og kynjahlutfall nokkuð jafnt. 84 prósent þeirra búa á höfuðborgarsvæðinu og var kostnaður vegna nefndanna 102 milljónir króna.
Höfuðborgarnefndir
BjarnNær allir nefndarmenn hjá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, búa á höfuðborgarsvæðinu, eða 97 prósent. 46 prósent hinna 214 nefndarmanna í 44 nefndum ráðherra eru konur og 54 prósent karlar. Af 44 nefndum eru langflestar skipaðar að frumkvæði ráðherra, eða 36. 18 hafa lokið störfum. Kostnaður vegna nefndanna var 47 milljónir króna.
Fleiri konur en karlar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað 46 nefndir, þar af 32 að eigin frumkvæði. 13 hafa lokið störfum og voru alls 283 manns í nefndunum. Eins og hjá félags- og húsnæðismálaráðherra, voru konur í meirihluta, eða 53 prósent og búseta nefndarmanna ekki tilgreind. Heildarkostnaður var 106 milljónir.
190 í 28 nefndum
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skipaði 28 nefndir á sínu tímabili, þar af 18 að eigin frumkvæði. Kostnaður var 110 milljónir og nefndarmenn voru 190 talsins. Kynjahlutfall var nokkuð jafnt, karlar 52 prósent og konur 48 prósent. 75 prósent nefndarmanna voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Sex nefndir höfðu lokið störfum þann 1. mars 2016.
Enginn kostnaður og langfæstar nefndir
Langfæstar nefndir hafa verið skipaðar af utanríkisráðherra. Lilja Dögg Alfreðsdóttir tók við af Gunnari Braga Sveinssyni í vor, og hefur engar nefndir skipað síðan þá. Gunnar Bragi skipaði sjö nefndir, þar af voru fjórar skipaðar að hans frumkvæði. Þrjár nefndir hafa lokið störfum. Heildarfjöldi nefndarmanna var 66, 56 prósent karlar. Kostnaður ráðuneytisins við nefndirnar var enginn.