Erlendir ríkisborgarar eru nú yfir tíu prósent þeirra sem greiða skatta á Íslandi. Rúmlega annar hver nýr skattgreiðandi hérlendis á síðustu árum hefur komið erlendis frá og á árinu 2015 einu saman voru 74,4 prósent allra nýrra skattgreiðenda erlendir ríkisborgarar. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum sem bættist við skattgrunnskrá landsins í fyrra voru erlendir ríkisborgarar en einn af hverjum fjórum var íslenskur ríkisborgari.
Á sama tíma voru greiðslur í félagslega aðstoð þær lægstu sem þær hafa verið frá hruni. Í fyrra, þegar útlendingum sem fluttu til Íslands fjölgaði meira en þeim hafði gert árum saman, drógust slíkar greiðslur saman í fyrsta sinn í átta ár. Umfang greiðslu atvinnuleysisbóta hefur enn fremur dregist mjög saman samhliða fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi. Árið 2011, þegar fjöldi þeirra náði lágmarki eftir hrun, greiddi íslenska ríkið 24,7 milljarða króna í atvinnuleysisbætur. Í fyrra, þegar fjöldi erlendra ríkisborgara náði hámarki eftir hrun, var sú upphæð 8,8 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Tíundar, fréttablaðið ríkisskattstjóra, sem er komið út.
Erlendum fjölgar hratt á meðal skattgreiðenda
Í blaðinu ritar Páll Kolbeins,rekstrarhagfræðingur hjá embættinu, grein um álagningu einstaklinga á árinu 2016. Þar segir að erlendir ríkisborgarar hafi streymt til Íslands á undanförnum árum til að starfa hérlendis. Þeir eru aðallega að starfa í ferðaþjónustu, sem er í örum vexti.
Í Tíund er bent á að á árunum fyrir hrun hafi erlendum ríkisborgurum sem greiddu skatta hérlendis fjölgað mjög mikið á fáum árum. Árið 2007 voru þeir orðnir 30.435 og 11,5 prósent allra framteljenda. Margir erlendu ríkisborgaranna yfirgáfu landið í kreppu eftirhrunsáranna þegar atvinnuleysi rauk upp og tækifærum fækkaði hratt. Árið 2011 var fjöldi þeirra sem greiddu skatt hér orðinn tæplega 20 þúsund og hafði þeim fækkað um 35,9 prósent frá því sem mest var.
Síðan þá hefur þeim fjölgað hratt og í lok síðasta árs voru þeir 8.793 fleiri en þeir voru 2011. Erlendir ríkisborgarar á skattgrunnskrá eru nú 10,2 prósent framteljenda á grunnskrá.
Til viðbótar er bent á í Tíund að frá árinu 2011 hefur 55,5 prósent fjölgunar á skattgrunnskrá verið vegna erlendra ríkisborgara. Það þýðir á mannamáli að rúmlega einn af hverjum tveimur nýjum skattgreiðendum á Íslandi á síðustu fjórum árum eru erlendir ríkisborgarar. Íslendingar eru nú innan við 90 prósent framteljenda á skattgrunnskrá.
Fækkun í félagslegri framfærslu
Ljóst er að þessir erlendu ríkisborgarar eru ekki að íþyngja félagslegum kerfum okkar þar sem greiðslur vegna félagslegrar framfærslu og atvinnuleysis eru að dragast hratt saman.
Í grein Páls kemur fram að sveitarfélög greiddu 3,4 milljarða króna í húsaleigubætur, félagslega aðstoð og styrki á árinu 2015. Það er 365 milljónum krónum minna en árið áður og greiðslurnar lækkuðu því um 9,6 prósent á milli ára. Þetta er í fyrsta sinn í átta ár sem þessi liður lækkar en hann hækkaði um 87,2 prósent milli 2007 og 2010 og hafði haldið áfram að hækka eftir það.
Þeim sem þiggja ofangreindar bætur fjölgaði mjög í kjölfar hrunsins. Árið 2007 þáðu 3.090 slíkar bætur en fjölgaði í 5.742 árið 2013, þegar mest var.
123 milljarðar í atvinnuleysisbætur frá hruni
Greiðslur ríkissjóðs vegna atvinnuleysisbóta hafa líka dregist skarpt saman. Fyrir bankahrun, árið 2007, var atvinnuleysi í lágmarki. Þá greiddi ríkissjóður 2,7 milljarða króna í atvinnuleysisbætur til 4.560 manns. Tveimur árum síðar, árið 2009, var allt breytt. Þá hafði fjöldi atvinnulausra margfaldast og var orðinn 27.638. Þá voru greiddir 24,7 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur, eða rúmlega níu sinnum sú upphæð sem greidd var í slíkar árið 2007.
Á undanförnum árum hefur umfang greiðslna atvinnuleysisbóta dregist saman, samhliða hærra atvinnustigi (skráð atvinnuleysi var t.d. tvö prósent í júlí 2016). Bótagreiðslur eru samt sem áður fremur háar og bótaþegar margir miðað við það sem var fyrir hrun. Í fyrra greiddi Vinnumálastofnun alls 8,8 milljarða króna í atvinnuleysisbætur, sem er 2,2 milljörðum króna minna en hún gerði árið áður. Alls fengu 10.864 greiddar bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2015, sem er 16.774 færri en fengu bætur árið 2009. Í Tíund kemur fram að samtals afi verið greiddir 123 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur frá hruni og fram til loka síðasta árs.
Útlendingum mun halda áfram að fjölga
Kjarninn fjallaði ítarlega um brott- og aðflutning íslenskra ríkisborgara til landsins í fréttaskýringu í gær. Tilefnið var að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sagði útlit fyrir að fleiri Íslendingar myndu flytja til landsins en frá því á þessu ári. Þá skoðun byggði hann á tölum frá öðrum ársfjórðungi ársins 2016, þegar 150 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu til Íslands umfram aðflutta. Þegar fyrri helmingur árs er skoðaður fer sú tala hins vegar niður í 40 auk þess sem fólksflutningar frá Íslandi hafa ætið verið meiri seinni hluta árs en fyrri hluta þess. Það atvikast meðal annars af því að Íslendingar sem ljúka námi erlendis og flytja heim, gera það oft á fyrri hluta árs. Þeir sem fara utan til náms yfirgefa landið hins vegar í flestum tilfellum á síðari hluta árs.
Samkvæmt gagnagrunni Hagstofunnar hafa brottfluttir umfram aðflutta Íslendinga aðeins verið marktækt fleiri í fimm skipti síðan árið 1961, en það var alltaf í kjölfar kreppuára á Íslandi. Sú er hins vegar ekki raunin núna.
Í nýrri mannfjöldaspá Hagstofu Íslands fyrir árin 2016 til 2065 kemur fram að ekki verður nein breyting á ef fram fer sem horfir. Þar segir: „Fjöldi aðfluttra verður meiri en brottfluttra á hverju ári, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu munu halda áfram að vera fleiri en þeir sem flytja til landsins.“ Hagstofan gerir ráð fyrir því að að meðaltali muni 850 fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja af landi brott á ári hverju en flytjist til baka.
Fjöldi aðfluttra umfram brottflutta verður hins vegar meiri áfram, en það er fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Því má búast við að hlutfall erlendra ríkisborgara í skattgreiðslum á Íslandi muni halda áfram að vaxa hratt á næstu árum og áratugum ef fram fer sem horfir.