Hér á Íslandi lifa meira en 1500 dýrategundir en mikill meirihluti þeirra eru pöddur. Þá hafa um 360 tegundir fiska fundist í lögsögunni. Varpfuglategundir eru um 80, villt spendýr einungis 8 og engin skriðdýr eða froskdýr. Landsmenn hafa reynt að gera bragarbót á þessum skorti í gegnum tíðina með misjöfnum árangri. Hér eru helstu dæmin.
Fótspor mannsins
Einangrun og loftslag gera það að verkum að dýralíf á Íslandi er heldur fábrotið ef undan eru skildir fuglar. Þegar fyrstu landnemarnir komu hingað var eina landspendýrið á eyjunni heimskautarefur sem barst hingað með hafís frá Grænlandi á ísöld. Þó er vert að minnast á það að tvær selategundir (útselur og landselur) kæpa hér við land og einstaka flökkudýr frá Grænlandi s.s. ísbjörn og rostungur hafa komið hingað án þess þó að festa rætur. Landnemarnir fluttu með sér búfé, gæludýr og meindýr en eftir það hélst tegundafjöldinn nokkurn veginn sá sami þangað til á 18. öld þegar menn hófu að gera tilraunir með að flytja inn nýjar tegundir. Sumar voru fluttar inn til ræktunar en öðrum var sleppt út í náttúruna til þess að freista þess að þær yrðu hér landlægar. Tilgangurinn með því að flytja inn nýjar dýrategundir til að sleppa út í náttúruna er mismunandi, t.d. til veiða, til að auðga náttúruna eða til að reyna að breyta henni á einhvern hátt. Í seinni tíð hafa fræðimenn og dýralæknar lagst gegn innflutningi nýrra tegunda þar sem þær gætu raskað náttúrunni of mikið og jafnvel ógnað tegundum sem fyrir eru. Nýjar dýrategundir geta borið með sér sjúkdóma, étið aðrar tegundir eða étið fæðuna frá þeim. Íslendingar innleiddu löggjöf á tíunda áratugnum sem gerir það erfitt að fá leyfi til ræktunnar nýrra tegunda þar sem dýrin gætu hæglega sloppið frá eigendum sínum eins og dæmin sanna. En auðvitað fylgja ekki allir reglum og fjöldi dýra hefur verið fluttur inn í leyfisleysi. Áður fyrr var þó afstaða stjórnvalda allt önnur til náttúrunnar og menn mun viljugri til þess að hrófla við henni og prófa eitthvað nýtt.
Hreindýr
Fyrsta tilraun Íslendinga til að flytja inn erlendar dýrategundir síðan á landnámsöld var að undirlagi fimm íslenskra sýslumanna um miðja 18. öldina. Þeir sóttu um leyfi til danskra stjórnvalda að fá að flytja inn nokkur hreindýr og fengu jákvætt svar en ekkert varð úr þeirri framkvæmd. Tuttugu árum síðar, árið 1771 flutti Lauritz Thodal, hinn norski stiftamtmaður Íslands, inn 13 hreindýr frá Norður-Noregi. Einungis 3 lifðu ferðina af og var sleppt í Rangárvallasýslu þar sem þau döfnuðu fyrst um sinn. Árið 1777 var um 30 norskum dýrum sleppt í Hafnarfirði og dreifðust þau um Reykjanesskaga. Innflutningurinn gekk það vel að árið 1783 var nokkrum dýrum sleppt í Eyjafirði og fjórum árum síðan 30 dýrum við Vopnafjörð. Rætt var um að flytja inn nokkrar fjölskyldur Sama til að kenna Íslendingum að halda dýrin sem húsdýr. Hreindýrin döfnuðu svo vel hér að árið 1817 var í fyrsta sinn leyft að veiða þau. Árið 1880 byrjuðu stofnarnir hins vegar að dala verulega og voru hreindýr loks friðuð. Það dugði þó ekki til því að um 1930 var einungis Austurlands-stofninn eftir. Talið er að kólnandi veðurfar og ofbeit hafi orðið hinum stofnunum að aldurtila. Þó að tilraunin hafi ekki gengið klakklaust fyrir sig þá er stofninn mjög stöðugur í dag og veitt er úr honum á hverju ári. Hreindýr eru í dag stór hluti af menningu og sjálfsmynd fólks á Austurlandi og því verður innflutningurinn að teljast mjög vel heppnaður. Svo vel að rætt hefur verið um að flytja hreindýr á önnur landssvæði s.s. Vestfirði.
Hérar
Fyrsta tilraunin til að gera héra að landlægum spendýrum á Íslandi var árið 1784. Lítið er vitað um innflutninginn annað en það að hérunum var sleppt í einhvern skóg og sáust svo ekki meir. Líklegt þykir að refurinn hafi útrýmt þeim. Aftur var reynt árið 1861 þegar nokkrum hérum frá Færeyjum var sleppt í Viðey. Hérar höfðu verið fluttir inn til Færeyja frá Noregi skömmu áður og eru þeir nú landlægir í eyjunum og vinsælir til veiða. Hérarnir ollu hins vegar óskunda í Viðey og styggðu æðarvarpið þar. Var því gripið til þess ráðs að skjóta þá alla. Nokkrar óstaðfestar frásagnir eru til af innflutningi héra síðan þá en Ársæll Árnason, bókbindari og dýralífsáhugamaður, stóð að seinustu alvarlegu tilrauninni til hérainnflutnings hér á landi árið 1932. Það voru þá snæhérar frá Grænlandi og Ársæll hafði meira að segja fengið leyfi frá Alþingi fyrir innflutningnum. En þá hafði hann misst samböndin til þess að útvega þá.
Froskar
Árið 1895 kom hingað til lands danskur læknir að nafni Edvard Ehlers auk nokkurra evrópskra kollega. Þeir komu hingað fyrst og fremst til þess að gera úttekt á holdsveiki og heilbrigðisaðstöðu Íslendinga. En það var ekki eina gagnið sem þeir hugðist gera hér, því að undirlagi ensks læknis tóku þeir með sér froska. Ehlers hugðist sleppa froskunum við Þingvallavatn og áttu þeir að aðlagast og fjölga sér í íslenskri náttúru. Til hvers? Jú, til að halda niðri mývarg. 40 froskar voru veiddir í Kaupmannahöfn og 100 í Berlín. Dönsku froskarnir drápust allir samstundis fyrstu nóttina í skipinu til Íslands en þeir þýsku, sem sagt er að hafi verið stórir og sterkbyggðir, þoldu ferðina vel. Þegar dr. Ehlers og félagar komu til Íslands lá leið þeirra ekki hjá Þingvallavatni og því brugðu þeir á það ráð að sleppa froskunum við Þvottalaugarnar í Reykjavík. Ehlers segir að “þessir landnáms froskar hafi hlaupið burtu kátir og fjörugir”. Þó að þýsku froskarnir hafi verið hraustir þoldu þeir ekki hinar nýju aðstæður og dóu fljótlega út. Froskar eru nokkuð vinsæl gæludýr í dag en ekki er vitað til að þeir lifi hér villtir.
Sauðnaut
Sauðnaut líta út eins og smávaxnir vísundar með þykkan feld en þau eru í raun mun skildari sauðfé en nautgripum. Þau lifa á norðurslóðum við strendur Grændlands og Norður Ameríku og eru vinsæl til veiða. Einn helsti áhugamaður um innflutning sauðnauta til Íslands var Ársæll Árnason. Hann, ásamt Vigfúsi Sigurðssyni og fleiri áhugasömum, stofnuðu félag og fengu leyfi og styrk frá íslenskum stjórnvöldum árið 1928 til að gera út bát til að sækja nokkur sauðnaut til Grænlands. Báturinn Gotta sigldi vestur árið 1929 og sneri til baka með 7 kálfa en þeir drápust allir úr sjúkdómum, sá seinasti árið 1931. Skömmu seinna voru keyptir 7 kálfar til viðbótar frá Noregi en þeir drápust einnig innan árs úr sjúkdómum og vosbúð. Við komuna hér voru dýrin geymd á Austurvelli í Reykjavík og þar safnaðist fólk saman til að bera þau augum en fljótlega voru þau flutt til Gunnarsholts í Rangárvallasýslu. Tvö dýr úr seinni hópnum voru send um stund til Litlu-Drageyrarí Skorradal. Þeim dýrum var sleppt á fjall með öðru sauðfé en komu illa undan vetri. Eftir þessar misheppnuðu tilraunir voru engin fleiri sauðnaut flutt hingað til lands en áhugi Íslendinga er þó ekki alveg dauður því rætt hefur verið um að flytja þau inn á Aust-og Vestfjörðum.
Kanínur
Ekki er nákvæmlega vitað hvenær kanínur voru fyrst fluttar inn hingað til lands en það var sennilega í kringum árið 1930. Kanínur eru vinsæl gæludýr og algengt er að þær annað hvort sleppi frá eigendum sínum eða sé einfaldlega sleppt út í náttúruna af eigendum sem geta ekki haldið þær lengur. Vitað er að villtar kanínur voru í Hvalfirði á fjórða áratugnum en í dag eru fjölmargar byggðir kanína víðs vegar um land. Má þar nefna Öskjuhlíðina og Elliðaárdalinn í Reykjavík, Heiðmörk, Vestmannaeyjar og Kjarnaskóg í Eyjafirði. Kanínur dafna ágætlega í skóglendi þegar kuldi er ekki of mikill og þær fjölga sér hratt. En þó að dýrin séu hvers manns hugljúfi þá geta þær haft slæm áhrif á vistkerfið, sérstaklega í Vestmannaeyjum þar sem þær hafa lagt undir sig lundaholur.
Minkar
Ársæll Árnason flutti inn til landsins ameríska minka frá Noregi árið 1931 og hafa margir hugsað honum þegjandi þörfina fyrir þar sem dýrið er almennt talið með þeim óþarfari í íslenskri náttúru. Ársæll taldi að þeir yrðu ágætis viðbót við íslenska villifánu en upprunalega voru þeir einungis hugsaðir fyrir loðdýrabú sem fór fjölgandi um alla Norður Evrópu á þeim tíma. Þrjú fyrstu dýrin voru send að Fossi í Grímsnesi en skömmu seinna var 75 dýrum komið fyrir á búi í Selfossi. Minkabú spruttu upp eins og gorkúlur en rekstur þeirra gekk misjafnlega í gegnum tíðina. Á sjöunda áratugnum lagðist minkaeldi nánast af á Íslandi. Síðan þá hefur verið stígandi í greininni og í dag eru minkabú vel á þriðja tug á landinu. En það er ekki vegna ræktunarinnar sem minkurinn er svo fyrirlitinn heldur vegna áhrifa hans á íslenska náttúru. Strax árið 1932 sluppu fyrstu minkarnir úr búrum sínum á Suðurlandi og árið 1937 fannst greni í Reykjavík. Þá var ljóst að minkurinn gat vel lifað villtur hér á landi og erfitt yrði að útrýma honum. Hægt og bítandi breiddist hann út um allt land en íslensk stjórnvöld gerðu tilraunir til að stoppa hann, veittu jafnvel verðlaun fyrir dráp. Ekki er nákvæmlega vitað hversu mikil áhrif minkurinn hefur haft á vistkerfið en ljóst er að hann hefur áhrif á t.d. stærð stofna silunga og æðarfugla.
Þvottabirnir
Árið 1932 flutti Ársæll Árnason hingað til lands sjö þvottabirni frá Þýskalandi. Hann hreifst mjög að dýrunum og hugðist halda þau sem gæludýr á heimili sínu í Reykjavík. Þar döfnuðu þeir og fjölguðu sér fyrst um sinn en snemma voru þeir flestir sendir á loðdýrabúið Hofstaði í Garðabæ. Ársæll var þó ennþá eigandinn og dýrin frekar til skemmtunar en nytja. Þar virðast þeir hafa dafnað í a.m.k. áratug. Þrír af upprunalegu þvottabjörnunum voru þó sendir til Vestmannaeyja til systur Ársæls en þar gekk illa að halda þá. Þeir sluppu oft og drápust loks. Þvottabirnir birtust aftur hér á landi árið 1975 þegar þrjú dýr voru keypt fyrir Sædýrasafnið í Hafnarfirði. Einn björninn slapp og var skotinn í bænum en hin voru í safninu a.m.k. fram á níunda áratuginn.
Fashanar
Fashanar eru stórir hænsnfuglar sem lifa víða villtir og er vinsælt að veiða þá. Árið 1998 stofnuðu hjónin Skúli Magnússon og Anna Einarsdóttir á Tókastöðum í Fljótsdalshéraði fyrsta fashanabúið á Íslandi. Eftir mikla skriffinsku fengu þau leyfi til að flytja inn 100 egg sem þau sóttu til Svíþjóðar. Skúli, sem lést árið 2002, var mikill áhugamaður um skotveiði og hugðist í tíð og tíma fá leyfi til þess að sleppa fashönum út í náttúruna. Leyfisveitingin gekk hins vegar illa og eftir andlát Skúla lagðist ræktunin fljótlega af. Íslendingar virðast þó ekki alfarið hafa gefist upp á fashönum og þeir hafa sést hálfvilltir á Suðurlandi, aðallega í kringum sumarhúsahverfi.
Framtíðarfána
Listinn er ekki tæmandi þar sem t.d. hafa verið gerðar tilraunir með þýskt karakúl-sauðfé og nagdýr sem nefnast nútríur (skildar bjórum). Með aukinni þekkingu á vistfræði og búfjársjúkdómum og strangari löggjöf er þó ekki líklegt að tilraunir sem þessar hljóti brautargengi í fyrirsjáanlegri framtíð. Aftur á móti er áhugi landsmanna á gæludýrum alltaf að aukast og þá sérstaklega á framandi gæludýrum. Gildir þá einu hvort leyfi hafi fengist fyrir innflutningnum eður ei. Má nefna að hægt er að kaupa fóður og búr fyrir skriðdýr í íslenskum gæludýraverslunum þó að skriðdýr séu ekki lögleg hér á landi. Landnám kanínunnar sýnir svo ekki verður um villst að nýjar dýrategundir gætu fest rætur í íslenskri náttúru, sérstaklega með hlýnandi veðurfari. Hver veit, kannski verða hérar, þvottabirnir og froskar einhvern tímann hluti af íslenskri fánu. Eða þá einhverjar allt aðrar tegundir.