Yfirstjórn Kastrup flugvallar við Kaupmannahöfn hyggst á næstu árum ráðast í miklar framkvæmdir. Stjórnin segir slíkt nauðsynlegt vegna síaukinnar flugumferðar. Landrýmið við Kastrup er afar takmarkað og þess vegna vill stjórnin loka einni af þremur brautum vallarins. Þar verði reist nýtt flugstöðvarhús (terminal) og jafnframt einn brottfarar-og komugangur lengdur. Forsvarsmenn SAS og fleiri flugfélaga eru ósáttir við að flugbrautinni verði lokað og það er Danska Flugmannafélagið einnig.
Þegar Kastrup flugvöllur, sem dregur nafn sitt af samnefndu bæjarfélagi á Amager var opnaður 20. apríl 1925 hefur líklega fáa grunað að 90 árum síðar yrði hann fjölfarnasti flugvöllur á Norðurlöndum. Flugbrautirnar voru eggslétt tún og yfir sumartímann var sauðfé beitt á brautirnar, lifandi og samviskusamar sláttuvélar, og smalað þegar flugvél nálgaðist. Flugstöðvarbyggingin er úr tré og þótti glæsilegt mannvirki, hún hefur nú verið flutt til á flugvallarsvæðinu, er friðuð og ekki notuð.
Áratuga byggingaframkvæmdir
Nokkrum árum eftir að Kastrup flugvöllur var opnaður hófust þar byggingaframkvæmdir, sem segja má að að hafi staðið linnulítið síðan eða í um það bil 85 ár. Bundið slitlag var lagt á aðalbraut vallarins árið 1941 og í lok síðari heimsstyrjaldar var Kastrup talinn einn besti og fullkomnasti flugvöllur í heiminum. SAS flugfélagið var stofnað árið 1946 og var frá upphafi ákveðið að Kastrup yrði aðalflugvöllur félagsins. Þetta var mikill búhnykkur, ef svo má að orði komast, fyrir Kastrup. Ný flugstöðvarbygging (Terminal 2) var tekin í notkun árið 1960. Þá var fyrsta flugstöðvarbyggingin fyrir löngu orðin of lítil, þrátt fyrir ýmsar viðbætur. 1954 hóf SAS áætlunarflug til Bandaríkjanna og þá jókst umferðin um Kastrup til muna.
Hugmyndir um flutning
Landrými við Kastrup flugvöll er mjög takmarkað. Byggð er í næsta nágrenni vallarins, sunnan við er bærinn Dragör og Tárnby norðan megin. Austan megin er Eyrarsund og vegurinn að brúnni yfir til Svíþjóðar liggur fast við flugvallarsvæðið. Einu hugsanlegu stækkunarmöguleikar vallarins eru til vesturs en yrði þó allt annað en einfalt. Á áttunda áratug síðustu aldar voru uppi hugmyndir um að færa flugvöllinn út í Eyrarsund, á eyjuna Salthólmann sem liggur austan við Eyrarsundsbrúna. Ef það hefði orðið ofan á var hugmyndin að byggja brýr, aðra til Danmerkur en hina til Svíþjóðar. Þessar hugmyndir voru skoðaðar mjög ítarlega en á endanum ákvað danska þingið, Folketinget, að flugvöllurinn skyldi áfram vera á Kastrup. Kostnaður og umhverfismál réðu miklu í þeirri ákvörðun og þarmeð var Salthólmahugmyndin, og fleiri tillögur um flutning, í raun úr sögunni. Þingmenn og sérfræðingar mátu það svo að þrátt fyrir takmarkað landrými gæti Kastrup gegnt sínu hlutverki um langa framtíð. Einn stærsti kostur Kastrup er staðsetningin: tæpir átta kílómetrar til miðborgar Kaupmannhafnar, hraðbrautin til Sjálands og áfram vestur er fast við völlinn og sú braut liggur jafnframt yfir sundið til Svíþjóðar.
Þriðja flugstöðvarhúsið og sífellt fleiri farþegar
Eins og áður sagði hafa, ef allra fyrstu árin eru undanskilin, byggingaframkvæmdir stanslaust verið í gangi á Kastrup. Upphaflega flugstöðvarbyggingin (Terminal 1) er ekki lengur í notkun, húsið er friðað en hefur verið flutt til á svæðinu og annað hús ber nú heitið Terminal 1. Árið 1998 var tekin í notkun ný flugstöðvarbygging, Terminal 3, hana þekkja íslenskir ferðalangar sem fara um Kaupmannahöfn vel. Þessi bygging tengist járnbrautinni, sem liggur til Kaupmannahafnar og annarra landshluta í Danmörku og yfir til Svíþjóðar. Úr Terminal 3 er líka innangengt í Metro lestina sem brunar á nokkurra mínútna fresti inn í miðborg Kaupmannahafnar.
Farþegum sem um völlinn fara fjölgar stöðugt, á síðasta ári voru þeir tæplega 27 milljónir og lendingar og flugtök samtals 255 þúsund. Stærsti ”viðskiptavinurinn” er SAS, á síðasta ári voru tæplega 40% allra ferða um völlinn á vegum þess.
Vilja loka stystu brautinni og byggja nýtt flugstöðvarhús
Á Kastrup flugvelli eru þrjár brautir. Tvær þeirra liggja hlið við hlið, frá suðvestri til norðausturs en ríkjandi vindáttir á þessu svæði eru suðvestan og vestan. Aðflug og flugtak á þessum brautum er yfir Eyrarsund og Köge Bugt og þess vegna ekki yfir byggð. Þriðja brautin liggur þvert á hinar tvær: frá suðaustri til norðvesturs. Við lendingar og flugtak á þessari braut er flogið lágt yfir Frederiksberg og hluta Amager með tilheyrandi ónæði fyrir íbúana. Þessari braut, kölluð 12/30, vill stjórn flugvallarins loka. Hagsmunir íbúa, sem ugglaust myndu fagna lokun, er þó ekki það sem ræður för hjá stjórninni.
Af hverju að loka þverbrautinni?
Í fljótu bragði kann að virðast undarlegt að loka einni af þremur brautum á flugvelli þar sem umferðin fer sívaxandi. Forstjóri flugvallarins segir að þegar betur sé að gáð eigi það sér einfaldar skýringar. Um þverbrautina fari einungis prósentubrot af umferðinni og þótt lokun hennar hafi í för með sér að kannski verði að fresta 60 lendingum eða flugtökum á ári séu það smámunir miðað við ávinninginn. Verði brautinni lokað er ætlunin að byggja við norðvesturenda hennar flugstöð, sem tengist núverandi aðalbyggingu en verður fyrst og fremst ætluð lággjaldafélögum en mikil aukning hefur orðið á ferðum þeirra að undanförnu. Athafnasvæði flugvéla muni aukast, sem ekki er vanþörf á að mati flugvallarstjórans. Hann segir að þessi breyting muni hafa í för með sér að lendingum og flugtökum geti fjölgað um 55 þúsund á ári og verði fleiri en 300 þúsund. Farþegum um völlinn fjölgi í allt að fjörutíu milljónir (voru 27 milljónir í fyrra) og starfsmannafjöldinn á vellinum tvöfaldist en nú vinna þar rúmlega 22 þúsund manns.
Ekki góð hugmynd segir SAS og danskir flugmenn eru því sammála
Forsvarsmenn SAS eru ekki hrifnir af fyrirætlunum flugvallarstjórnarinnar. Þeir segja það skapa óöryggi að flugvöllurinn geti lokast í ákveðnum vindáttum. Þótt slíkt yrði ekki ekki algengt geti það valdið miklum töfum og óþægindum fyrir flugfélögin og farþegana. Danska flugmannafélagið tekur í sama streng og telur það einnig öryggisatriði að hafa þverbrautina opna áfram. Talsmenn nokkurra annarra félaga sem nota Kastrup, t.d. Thomas Cook Airlines taka undir þessa gagnrýni.
Hvort fyrirætlanir flugvallarstjórnarinnar nái fram að ganga er óljóst á þessari stundu. Margir þingmenn vilja láta athuga þetta mál mjög gaumgæfilega áður en lengra verði haldið og ákvarðanir um hugsanlega lokun teknar. Flugvallarmálið kemur til kasta þingsins fljótlega eftir að það kemur saman í byrjun október.