Uber, sem hefur komið eins og stormsveipur á leigubílamarkað um allan heim, er komið langt með að þróa sjálfakandi bíla og er þessa dagana að prófa þá þjónustu á viðskiptavinum sínum í Pittsburgh. Tæknivefurinn The Verge greindi frá því í síðustu viku að Uber væri nú komið með sjálfakandi bíla á götuna sem myndu skutla einstaka viðskiptavinum á milli staða á næstu mánuðum, undir ströngu eftirliti viðskiptaþróunarsviðs Uber.
Sjálfakandi Volvo-ar
Bílarnir sem notaðir eru í þessa tilraunastarfsemi eru Volvo XC90 jebbar. Ökumenn verða undir stýri og annar til viðbótar mun fylgjast með að allt fari rétt fram. Flóknast í þessari þróun er hugbúnaður sem notaður er til að meta umferðina og umhverfið, í samhengi við nákvæmt kortakerfi sem bílarnir búa yfir.
Fari svo að þetta gangi vel, þá mun ekki líða langur tími þar til fleiri borgir bætast við. Uber er nú aðgengilegt í flestum stærstu borgum heimsins og hefur sérstaklega haft mikil áhrif í stærstu borgum heimsins.
Tveggja ára ferli
Frá því árið 2014 hefur þróun Uber á sjálfakandi bílum verið unnin að miklu leyti í Pittsburgh, í samvinnu við verkfræðinga við Carnegie Mellon University. Þar hefur á undanförnum árum verið sérstaklega metnaðarfull vinna við að þróa gervigreind og ákvað Uber að staðsetja kjarnastarfsemi sína í tækniþróun í nálægð við skólann (Advanced Technologies Center).
Eftir að hafa sótt mikið fjármagn til fjárfesta á árunum 2013 og 2014 var settur mikill kraftur í að þróa sjálfakandi bíla sem eru með hátæknilegan hugbúnað sem gerir hina sjálfvirku þjónustu mögulega.
Samkvæmt skrifum The Verge þá er Uber með meira en hundrað verkfræðinga í vinnu við að þróa þessi mál áfram. Ekki er vitað hvenær Uber hyggst vera búið að þróa hugbúnaðinn, og hefja þá um leið að notast við sjálfakandi bíla fyrir fólk og vöruflutninga, en augljóst er að fyrirtækið leggur mikla áherslu á að flýta ferlinu sem mest og vera leiðandi á þessu sviði á heimsvísu.
Google hefur lengi unnið að þróun lausna á þessu sviði, og verið með sjálfakandi bíla á götunni í Kaliforníu undanfarin tvö ár. Uber hefur ekki verið með sín áform á yfirborðinu fyrr í vor að fólk í Pittsburgh tók eftir því að Ford Fusion bíll, sem virtist vera stjórnað með sjálfakandi hugbúnaði, sást á götunum í borginni. Þetta reyndist vera rétt og sendi Uber frá sér fyrstu opinberu myndina af sjálfakandi bíl fyrirtækisins í maí á þessu ári.
Gjörbreyttur bílaiðnaður
Í síðustu viku tilkynnti Uber um samning við Volvo upp á 300 milljónir Bandaríkjadala, eða sem 36 milljörðum króna, þar sem fyrirtækin vinna í sameiningu að því að þróa sjálfakandi bíla. Volvo stefnir að því að hafa lokið við þróun á sjálfakandi bíl fyrir opinberan markað árið 2021 sem er sambærilegt markmið og Ford, Toyota og Honda hafa sett sér. Er samhliða þessum markmiðum unnið að framþróun raftækninnar, og eru nú flestir stærstu bílaframleiðendur heimsins að vinna markvisst að því að þróa rafbíla af öllum stærðum og gerðum.
„Framtíðin, eins og hún birtist okkur, er að nálgast hratt,“ segir í lok umfjöllunar The Verge um áform Uber, en fyrirtækið er nú metið á um 62,5 milljarða Bandaríkjadala, miðað við verðmiðanna sem notaður var í síðustu fjármögnun fyrirtækisins.