Lífeyrissjóðir og Landsbankinn sjálfur keyptu stærstan hlut af eign ríkisins, í gegnum félagið Lindarhvol, í fasteignafélaginu Reitum, sem skráð er á markað, en samtals fékk Lindarhvoll 3,9 milljarða króna fyrir 6,38 prósent hlut í félaginu, eða um 47 milljónir hluta.
Þetta má lesa út úr gögnum sem sýna hreyfingar á eignarhlutum hluthafa í Reitum í kringum viðskiptin. Þannig keypti Landsbankinn hlut sem nemur ríflega fjórtán milljónum hluta fyrir um 1,2 milljarða króna í vikunni 18. til 25. ágúst, en viðskiptin með eignarhlut ríkisins fóru fram 22. ágúst.
Bankar stórtækir
Þá keypti Lífeyrissjóður verzlunarmanna 3,5 milljónir hluta fyrir um 306 milljónir króna, á fyrrnefndu tímabili. Kvika banki er skráður með 10,8 milljónir hluta fyrir 948 miljónir, Íslandsbanki með ríflega 9 milljónir hluta fyrir 796 milljónir og Arion banki 1,8 milljónir hluta fyrir 160 milljónir, þegar skoðaður er listi yfir stærstu hluthafa og breytingar á honum milli vikna.
Vátryggingafélag Íslands, VÍS, er skráð inn á topp 20 listanum með 7,85 milljónir hluta fyrir 687 milljónir króna. Aðrar breytingar á lista yfir stærstu hluthafa eru vegaminni.
Gildi lífeyrissjóður, sem er stærsti eigandi Reita með ríflega 14 prósent hlut, virðist ekki hafa keypt neitt af því sem ríkið seldi, en Reitir bætti lítillega við eign sína í félaginu með því að kaupa 988 þúsund hluti fyrir ríflega 86 milljónir króna, og nemur eignarhlutur Reita í félaginu sjálfu nú 2,3 prósent.
Útboði á eignarhlut ríkissjóðs Íslands í Reitum fasteignafélagi hf. lauk klukkan 8:30 mánudaginn 22. ágúst 2016. Markaðsviðskipti Landsbankans höfðu umsjón með útboðinu.
Fjárfestar óskuðu eftir því að kaupa 73.010.000.- hluta í Reitum, eða sem nemur 9,9% af heildarhlutafé í Reitum, að því er fram kom í tilkynningu Landsbankans.
Ríkið seldi allt sitt
Sölugengi í útboðinu var ákveðið 83,30 krónur á hlut. Heildarnafnverð samþykktra tilboða, eftir skerðingu var 47.222.796 hlutir eða sem samsvara 6,38% af heildarhlutafé Reita. Heildarsöluverðmæti samþykktra tilboða eftir skerðingu er því rúmlega 3,9 ma.kr. Að útboðinu loknu á ríkissjóður ekki eignarhlut í Reitum.
Öll samþykkt tilboð voru boðin fjárfestum á sama gengi, þar sem lægsta samþykkta gengi réð sölugenginu. Samþykkt tilboð sem bárust á sama gengi og sölugengi voru skert sem nam umframeftirspurn, að því er fram kom í tilkynningu Landsbankans, en þó ekki niður fyrir 200.000 hluti að nafnverði sem var lágmarksfjöldi hluta sem hægt var að bjóða í útboðinu. Tilboðum sem bárust á lægra gengi en sölugengi var hafnað.
Viðskiptadagur vegna útboðsins er 22. ágúst 2016 og greiðslu- og afhendingardagur vegna viðskiptanna var miðvikudagurinn 24. ágúst 2016.
Miklar eignir seldar á næstunni
Lindarhvoll á umtalsverðar eignir, en félagið var stofnað 15. apríl til að annast umsýslu, fullnustu og sölu, eftir því sem við á, á eignum ríkissjóðs, sem kom til ríkisins frá slitabúum hinna föllnu banka að stórum hluta.
Meðal eignarhluta eru hluti í eftirtöldum félögum:
ALMC eignarhaldsfélag ehf.
AuÐur I fagfjárfestingasjóður
Bru II Venture Capital Fund
DOHOP
Eimskip hf.
Eyrir Invest hf.
Internet á Íslandi
Klakki ehf.
Lyfja hf.
Nýi Norðurturninn ehf.
S Holding ehf.
SAT eignarhaldsfélag hf.
SCM ehf.
Síminn hf.
Stærstu eigendur Reita eru lífeyrissjóðurinn Gildi, eins og áður segir, með 14,1 prósent hlut, Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 12,9 prósent, LSR A-deild 10,2 prósent, Arion banki með 8,3 prósent, LSR B-deild 3,7 prósent og lífeyrissjóðurinn Stapi með 2,5 prósent. Lífeyrissjóðir fara með meira en helming hlutafjár.